Þegar fullorðið fólk talar við kjósendur eins og fullorðið fólk

Á ríkisfjölmiðlinum Samstöðinni (sem er rekinn í raun fyrir ríkisstyrki til Sósíalistaflokksins) er nýleg grein um Argentínu og forseta landsins, Milei. Það er hressandi að sjá íslenska pistlahöfunda reyna að fjalla um Argentínu því það er ekki einfalt. Þar er forseti sem lofaði því að hlutir myndu versna áður en þeir myndu batna. Hann duldi það í engu að hann myndi skera niður, taka til, reka og loka og stóð svo sannarlega við stóru orðin. Á einum mánuði var hann búinn að snúa við þrálátum hallarekstri ríkisins, hann helmingaði fjölda ráðuneyta og lét samninga við hið opinbera renna út án þess að endurnýja þá. Hann felldi úr gildi falska gjaldmiðlaskráningu og verðbólgan skaust upp í himinhæðir. Hann tók úr sambandi verðlagshöft, og svo ótal margt annað. Hlutir versnuðu svo sannarlega. En á einu ári er batinn núna hafinn. 

Já, efnahagsbati Argentínu er byrjaður og blaðamenn hreinlega geta ekki afneitað því (þótt þeir reyni) á meðan enn séu auðvitað leiðir fyrir stjórnarandstæðinga til að spyrna gegn nauðsynlegum breytingum (mögulega sanngjörn umfjöllun hér).

Meira að segja þegar ástandið var sem verst héldust vinsældir Milei háar. Það er af því hann var gegnsær eins og plastfilma: Sagði nákvæmlega hvað hann væri að gera og hvers vegna og af hverju þessi væri þörf og hvað tæki við.

Það þurfti að klippa á kreditkortið og borga yfirdráttinn til að forðast hörmungar. Þetta skildu kjósendur. 

Um leið er það nákvæmlega þetta sem pistlahöfundur Samstöðvarinnar skilur ekki. Hann er sósíalisti sem heldur að lækningin við timburmönnum sé meira áfengi - að það sé endalaust hægt að lifa á loforðum og lánsfé.

Við erum vissulega ekki vön því að stjórnmálamenn segi berum orðum frá því sem þeir ætla sér. Miklu frekar erum við vön stjórnarsáttmálum sem lofa öllu fyrir alla - að það sé hægt að uppfylla bæði loforð formanns Viðreisnar um að tekjuskattar hækki ekki og loforð formanns Flokks fólksins um að bótakerfið sé á leið í sterasprautu. En við biðjum heldur ekki um meira. Við refsum þeim sem tala við okkur eins og fullorðið fólk - um að núna þurfum við að taka eins og eitt ár í að hreinsa út, skera niður og sjúga loftið úr hinni opinberu blöðru og mögulega upplifa niðursveiflu á meðan, gegn uppsveiflu seinna.

Við tökum kannski mark á símtali frá bankanum um að yfirdrátturinn verði ekki framlengdur lengur en ef stjórnmálamenn tala af slíkri ábyrgð þá breytum við atkvæði okkar.

Ég vil hvetja fólk til að fylgjast með því sem er að eiga sér stað í Argentínu og vonandi einhverju svipuðu í Bandaríkjunum þegar Trump tekur formlega við (er tekinn við óformlega enda skútan skipstjóralaus í bili). Það gæti verið fín vörn gegn pistlum Samstöðunnar og álíka svæða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Bjarnason

Það er alltaf jafn fyndið hvað íslenskir kjósendur falla fyrir kosningaloforðum fimm mínútum fyrir kosningar. Það segir mikið um íslenska kjósendur að ef einhver vinnur vel fyrir almenning þá er hann ekki kosinn aftur.

Kristinn Bjarnason, 24.12.2024 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og nítján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband