Miðvikudagur, 11. desember 2024
Dunkelflaute
Í dag er rafmagnsverð í hæstu hæðum í Danmörku - á slíkum hátindi að það jafnast á við rafmagnsverðið í upphafi 2022-2023 vetrarins vegna breytinga á gasframboði í álfunni í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
En af hverju núna?
Jú, það er skýjað og hægur vindur, eða það sem Þjóðverjar kalla dunkelflaute (myrkur-ládeyða).
Engin raforkuframleiðsla úr vind eða sól. það er hæð yfir hlutum Evrópu og áhrifanna gætir víða þar sem menn reiða sig á veðrið til að framleiða orku. Ekki náttúruna, sem hefur sinn gang yfirleitt, heldur veðrið, sem er síbreytilegt.
Fólki er sagt að fresta því að þvo föt, hlaða rafmagnsbílinn og jafnvel að reyna elda með bara einni hellu.
Til að bæta gráu ofan á svart er, í Danmörku, sérstakt aukagjald tekið á raforkudreifingu þegar fólk þarf mest á rafmagni að halda, frá kl. 17 til kl. 21. Þetta er til að draga úr raforkunotkun þegar börn þurfa kvöldmat, sjónvarpið og næturljós. Sannkallaður fjölskylduskattur.
En það er ljós í myrkrinu sem veðurorkan skilur eftir sig. Stóru olíufélögin ætla að halda áfram að gera það sem þau gera best, að finna og sækja olíu og gas, og setja þessi svokölluðu grænu verkefni ofan í skúffu, a.m.k. í bili. Fleiri og fleiri hafa opnað augum fyrir ágæti kjarnorku á meðan vindorkuáætlunum er blásið í burtu eða þær vekja engan áhuga.
Kannski það sé að fæðast eitthvað raunsæi - hver veit!
Auðvitað munu alltaf verða áframhaldandi orkuskipti. Þau gerast hægt og í takt við markaðslögmál (og stundum ríkisstyrki). Við þurfum meiri og meiri orku og leitum allra leiða til að finna hana.
En að ætla sér að fara í einhver róttæk orkuskipti á 20-30 árum, eða jafnvel 40-50 árum, er bara uppskrift að hamförum eins og reynslan sýnir núna oft á ári.
Það er bara hægt að hafna raunveruleikanum svo og svo lengi áður en hann bítur fast.
En því miður sjaldan mjög fast á þá sem boða óraunsæið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning