Laugardagur, 30. nóvember 2024
Ekki of seint
Ég vil gefa blaðamönnum eitt, og sérstaklega þeim hjá Morgunblaðinu: Frambjóðendur hafa neyðst til að segja frá raunverulegum skoðunum sínum í mörgum málum og ekki komist upp með að halda sig við slagorðin.
Þannig er búið að skola upp á yfirborðið raunverulegum viðhorfum þeirra til skattahækkana, Evrópusambandsins, rekstrarfyrirkomulags einyrkja og sjálfstætt starfandi og orkuframleiðslu, svo eitthvað sé nefnt.
Þetta hefur haft töluverð áhrif á skoðanakannanir í leitni sem skilar sér vonandi í kjörkassana. Það leit á tímabili út fyrir þung fjögur ár af blússandi skattahækkunum og flækjustigum, aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að kröfum Evrópusambandsins og afsali fullveldis. Mögulega er sú sviðsmynd að breytast.
Nánast hvergi eru skattar hærri en á Íslandi. Þetta bitnar á öllu: Ráðstöfunartekjum heimila, fjárfestingahæfni atvinnulífsins, verðlagi.
Það vantar ekki meira í ríkissjóð eða hirslur sveitarfélaga ef því er að skipta.
Það vantar bara ábyrgð í fjármálin.
Það er ekki mörgum flokkum treystandi fyrir slíku. Nýlegt dæmi er fjármálaráðherratíð formanns Framsóknarflokksins. Þar var öllum áætlunum um hallalaus fjárlög ýtt lengra og lengra inn í framtíðina - þau yrðu ekki hallalaus undir slíkri stjórn þótt ráðherra fengi 50 ár til að lofa og svíkja.
Það er ekki hægt að treysta öllum flokkum fyrir landamærunum. Augljóslega eins og við höfum séð.
Og heldur ekki velferðarkerfinu sem á að þjóna, ekki drepa með biðlistum. Nokkuð sem kallar á aukinn einkarekstur, útboð og færri aðgangshindranir - landlæknisembætti sem lítur ekki á sig sem hagsmunasamtök útvaldra skjólstæðinga.
Það vantar þingmenn sem þora að tala gegn meginstefinu. Einhverja eins og Diljá Mist Einarsdóttur (Sjálfstæðisflokki) sem skrifaði greinar á hátindi veirutíma um að yfirvöld væru að seilast of langt til að forðast smit og búin að vera hamhleypa á þingi, eða Sigríði Andersen (Miðflokki) sem kaus ein þingheims gegn enn einum tilgangslausa sjóðnum, eða Jóhannes Loftsson (Ábyrg framtíð) sem barðist frá upphafi ákafar gegn veirutakmörkunum en nokkur maður og lætur svo sannarlega ekki traðka á sér, eða Arnar Þór Jónsson (Lýðræðisflokki) sem ætlar svo sannarlega ekki að sjá Íslendinga gefa frá sér fullveldið.
Slíkir þingmenn fást ekki ókeypis - einstaklingar eru á framboðslistum sem innihalda alltaf bland í poka og skoðanir allra þeirra geta líka verið bland í poka - en betra að fá þá inn en ekki. Og betra að fá slíkt bland í poka en poka sem inniheldur ekkert nema úldinn mat.
Þetta þarf varla að taka fram og skoðanakannanir benda til að margir hafi áttað sig og þá sérstaklega á endasprettinum. Ég er því bjartsýnn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:08 | Facebook
Athugasemdir
Ég tek undir með þér.besta sjónvarpsefnið hefur verið á mbl.is og þakkar maður SES fyrir krefjandi spurningar og fylgni við að ganga eftir svörum. Mörg podköst hafa líka verið ágæt. Það er lýsandi fyrir þá lægð sem fréttamennska er í að maður sleppir því nánast að kveikja á RÚV og Stöð 2 er að mestu með sama format. Fyrir utan Moggan, sem dýpkar gjarnan umræðuna, eru aðsendar greinar á Vísi það bitastæðasta.
öll þau þingmannsefni sem þú telur hér upp munu lyfta standard Alþingis verulega upp.
Ragnhildur Kolka, 30.11.2024 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning