Miðvikudagur, 20. nóvember 2024
Leggja niður þá starfsemi sem hefur ekki brýn verkefni með höndum
Á dauða mínum átti ég von en svo virðist sem að tvennt hafi átt sér stað á sama tíma: Hagfræðingur með sterkar vinstrihneigðir sýndi skilning á því hvernig skera megi niður báknið, og blaðamaður sýndi því athygli. Ótrúlegt!
Er ég þá að meina þennan pistil og þessa frétt.
Í pistlinum stendur meðal annars (áhersla mín):
Mikilvægt er að ríkisstofnunum verði fækkað með sameiningum, hagræðingu og með því að leggja niður þá starfsemi sem hefur ekki brýn verkefni með höndum.
Já, er það ekki bara?
Ég hef lengi talað fyrir þessu. Í stað þess að hagræða - skera niður um 5% hér og 10% þar - þá þarf einfaldlega að aflima. Loka heilu stofnununum. Leggja niður heilu skrifstofurnar. Hætta ákveðnum verkefnum án þess að nokkuð komi í staðinn.
Þetta gera bæði heimili og fyrirtæki á hverjum degi. Segja upp áskrif, afpanta þjónustu, loka deildum. Meira að segja þar sem heimilisbókhaldið lítur sæmilega út eða fjárhagsstaða fyrirtækis er í góðum málum er oft við hæfi að sýna aðhald, endurskoða útgjöldin og hringja í tryggingafélagið og biðja um endurmat á iðgjöldum.
Þegar vinstrisinnaðir hagfræðingar eru farnir að sjá kjarna málsins er vonandi kominn tími til að allir aðrir geri það líka. Það er ekki þörf á svolitlum niðurskurði hér eða þar. Nei, þarf þarf einfaldlega að byrja stroka út heilu ríkisstofnanirnar, með húð og hári, án þess að nokkuð komi í staðinn.
Og byrja á fjölmiðlanefnd, sem um leið fæli í sér styrkingu á málfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Og svo er það bara áfram gakk.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning