Hvað er í boði í Brussel

Stundum getur allskonar tal í kringum Evrópusambandsaðild verið furðulegt, svo sem að það blasi ekki við hvað felist í slíkri aðild og að einhvers konar aðildarviðræður þurfi að fara fram til að komast að því. Hvað er í pakkanum? Hvað er í boði? Við bara höfum ekki hugmynd! Förum í viðræður til að komast að því!

Af því að - sjáið til - Ísland er með svo mikla sérstöðu. Fámenn eyja í Norður-Atlantshafi sem reynir að stunda landbúnað í samkeppni við sólríkari svæði og halda úti dreifðri byggð.

Er ekki hægt að búast við allskyns styrkjum og undanþágum? Jafnvel að fá meira í kassann en aðildin kostar? 

Fá fé úr vösum þýskra skattgreiðenda, eins og Austur-Evrópa og önnur svæði sem Íslendingar virðast vilja bera sig saman við? 

Fær ekki Malta slíka meðferð? Fámenn eyja sem reiðir sig á meginlandið?

En svona hugsa þeir ekki í Brussel. Þar eru menn ekki að fara breyta reglunum fyrir Ísland. Jú, mögulega eru einhverjir styrkir í boði þar til þeir eru það svo ekki lengur. Kannski er ákveðin sérstaða í legu Íslands sem veitir smávegis afslátt. En aðildarviðræðurnar eru í raun aðlögunarviðræður: Hversu hratt og vel getur Ísland aðlagað sig að kröfum Evrópusambandsins - ekki öfugt. 

Svo geta menn hugleitt það vel og vandlega hvort Evrópusambandið sé eitthvað sem er að dafna og batna eða eitthvað sem er að grotna niður. Eru fyrirtækin innan þess að vaxa og eflast eða hreinlega að loka verksmiðjum og flýja? Eru orkureikningarnir að hækka eða lækka? Er glæpum að fjölga eða fækka? Er verið að aðlaga innflytjendur að evrópskum gildum eða víkja fyrir framandi gildum úr fjarlægri fornöld? 

Þetta með gjaldmiðilinn er svo önnur saga sem þarf ekki að blanda saman við aðild að Evrópusambandinu. Best væri auðvitað að loka Seðlabanka Íslands og koma á algjöru frelsi en þá þurfa opinberir starfsmenn að missa störfin svo sú umræða nær ekki lengra.

Hvað er svo í boði í Brussel? Það blasir við. Þar á bæ fara menn ekki í aðildarviðræður heldur innlimunarviðræður, og kröfurnar blasa við.


mbl.is Innganga í ESB ekki töfralausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Kjör Trumps virðist þó hafa virkað sem spark í afturendan á forystufólki ESB
sem virðist flest ætla að vera heima og sinna sínum innanlandsmálum í stað þess að fljúga á einkaþotum á COP29 í Baku, Azerbijan og ræða þar um nýja græna skatta

Grímur Kjartansson, 10.11.2024 kl. 12:15

2 identicon

Löngu orðið tímabært fyrir annað íslenskt bjölluat í ES, sækja um og hlaupa í burt.

Getum farið sömu leið og El Salvador í gjaldmiðlamálum, hent krónunni og notast eingöngu við $.Ef það gengur ekki upp skiptum við yfir í bitcoin eins og El Salvador gerði. El Salvador blómstrar með efnahaginn í rúst og morðtíðni 100 á hverja 100.000 íbúa. Samsvarar 400 morðum á ári á Íslandi

Svo er það einfalda leiðin, binda gengi krónunnar við evru og halda sjálfstæðinu. Danska krónan er enn til, bundin við evru.

Bjarni (IP-tala skráð) 10.11.2024 kl. 12:26

3 identicon

Eitthvað er það fyrst þú kýst að mennta börnin þín í Evrópusambandsríki og helga Evrópusambandsríki starfskrafta þína þó bæði standi til boða þaðan sem þú flúðir.

Vagn (IP-tala skráð) 10.11.2024 kl. 14:11

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Ég finn minna fyrir Evrópusambandinu en á Íslandi satt að segja. Hérna eru ennþá ókeypis plastpokar í grænmetisdeildinni og sterkir plastpokar til sölu fyrir vörurnar. Hérna er gengið skemur í sorpflokkunaráráttunni. Ekki hef ég orðið var við nýaldarbullið í námsefni barnanna. Í Evrópu er sorp brennt til að útvega rafmagn og hita. Svo sýnist mér plaströrin víða vera að skjóta upp kollinum - mikið er það ánægjuleg þróun! 

Íslendingar eru kaþólskari en páfinn þegar kemur að því að túlka og innleiða tilskipanir Evrópusambandsins. Þeir sem vilja hlé frá Evrópusambandinu á Íslandi geta skroppið til Danmerkur. 

Geir Ágústsson, 10.11.2024 kl. 14:55

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Bjarni,

Íbúar El Salvador virðast vera mjög ánægðir með forsetann sinn sem nýlega var endurkjörinn í stórsigri. Þar hefur verið tekið á glæpum svo um munar, af slíkri hörku að maður fær eiginlega fyrir hjartað.

Coming face to face with inmates in El Salvador's mega-jail

Og hagkerfið virðist vera að vaxa á alveg ljómandi hraða:

El Salvador GDP 1965-2024 | MacroTrends

Íslendingar ættu kannski ekki að kasta steinum úr glerhýsinu sínu.

Geir Ágústsson, 10.11.2024 kl. 15:03

6 identicon

Ef Íslensk stjórnvöld eru að túlka og innleiða tilskipanir Evrópusambandsins öðruvísi en ríki Evrópusambandsins þá eru Íslensk stjórnvöld ekki að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins og rangt að kenna Evrópusambandinu stöðugt um. 

Sem sagt þeir sem vilja undan ofríki Íslenskra stjórnvalda og embættismanna á Íslandi geta flutt til Evrópusambandsríkis, eins og Geir gerði og sér ekki eftir. Eða fengið varanlegt frí frá kúguninni í heimalandinu með því að ganga í Evrópusambandið... Síðan er hægt að njóta lífsins eins og Geir og hvetja þá sem utan Evrópusambandsins standa til að vera nú ekkert að leita skjóls og koma inn í hlýjuna.

Vagn (IP-tala skráð) 10.11.2024 kl. 15:41

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Gullhúðun, eða réttara sagt blýhúðun, íslenskra stjórnvalda á Evrópusambandstilskipunin er frægt, vel þekkt útbreitt vandamál. Ég kenni Evrópusambandinu ekki um það heldur ofstækisfullu embættismannakerfi Íslands sem enginn virðist geta tekið á. 

Svo lít ég nú fremur á mig sem íbúa í Danmörku en Evrópusambandinu enda er Evrópa fjölbreytt og miklu meiri munur á ríkjum innan Evrópusambandsins en til að mynda á milli norrænu ríkjanna. Í Danmörku er svo mikið lagt úr samráði og fyrirsjáanleika að breytingar gerast yfirleitt á ósýnilegum hraða. Til dæmis stendur til að lækka útsvarið í Kaupmannahöfn um 0,1% á næsta ári. 

Geir Ágústsson, 10.11.2024 kl. 15:59

8 identicon

Að kalla það gullhúðun, eða blýhúðun, er einfaldlega aðferð til að kenna Evrópusambandinu um löggjöf sem ekki er í samræmi við Evrópusambandstilskipun.

Vagn (IP-tala skráð) 10.11.2024 kl. 18:47

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Þarna erum við sammála. Og þess vegna segi ég að ég finni minna fyrir Evrópusambandinu innan þess en á Íslandi þar sem menn eru þó að innleiða allt það sama á yfirborðinu en í framkvæmd á mun óvægari hátt.

Geir Ágústsson, 10.11.2024 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband