Sunnudagur, 27. október 2024
Kennarar þurfa vinnufrið frá hinu opinbera
Ein af áskorunum kennara á Íslandi í dag er að eiga við endalausar nýjar kröfur og óskir yfirvalda. Þeim er gert að innleiða hitt og þetta plagg í kennsluna án þess að nokkuð komi í staðinn og án þess að nokkurs staðar sé dregið úr öðrum kröfum.
Með því að innleiða endalausan fjölda af markmiðum eru líkurnar á að ná einhverjum þeirra minnkaðar töluvert.
Nú ákvað ég að kíkja aðeins í eitthvað sem kallast aðalnámskrá grunnskólanna. En sá frumskógur!
Tökum dæmi af handahófi: Í lok 4. bekkjar á 10 ára nemandi að geta bent á dæmi um lýðræðislega þætti í nærsamfélaginu og rætt um samfélagið og notað valin hugtök í því samhengi.
Í raunveruleikanum hefur þetta barn varla náð tökum á lestri og stærðfræði ef marka má kannanir.
Ég legg til að draga ríkið og hið opinbera eins og það leggur sig algjörlega út úr framleiðslu á menntun í samfélaginu. Fé verði þess í stað úthlutað, eyrnamerkt barninu, og skólar geta svo keppt um að fá viðkomandi barn til sín. Tvisvar eða þrisvar á námsferlinum verði lagt fyrir staðlað próf í helstu fögum (stærðfræði, íslensku og mögulega einhverjum öðrum tungumálum), og það seinasta auðvitað staðlað og samræmt próf sem framhaldsskólar geta treyst á að mæli stöðu nemanda.
Þannig mætti færa menntamál undir fjármálaráðuneytið og leggja niður menntamálaráðuneytið eða gera að skrifstofu í öðru ráðuneyti.
Þannig fá skólar svigrúm til að koma til móts við nemendur og einbeita sér að kenna þeim nauðsynlega færni en ekki allskyns háfleyga dellu.
Væri það ekki eitthvað? Að gefa kennurum og skólum vinnufrið frá hinu opinbera? Það held ég.
Skammarlegt áhuga- og metnaðarleysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Í lok 4. bekkjar á 10 ára nemandi að „geta bent á dæmi um lýðræðislega þætti í nærsamfélaginu“ og „rætt um samfélagið og notað valin hugtök í því samhengi“."
Og þetta á að vera á íslensku? Það var nú ágætt.
Jónas Hallgrímson snarsnýr sér í gröfinni.
Ásgrímur Hartmannsson, 27.10.2024 kl. 17:18
og skólar geta svo keppt um að fá viðkomandi barn til sín.
- áhugavert að enginn virðist benda á hið augljósa - skólar eiga að þurfa að keppa um að fá bestu kennarana til sín og til að halda þeim, greiða bestu kennurunum bestu launin - ekki flókið hvatakerfi, samkeppni milli skóla um nemendur og kennara mun skila sér í auknum árangri í öllu menntakerfinu
Nina (IP-tala skráð) 28.10.2024 kl. 09:58
Nína,
Það er sænska reynslan af svokölluðu ávísanakerfi. Samkeppnin leiddi til framfara í opinberum skólum þegar einkaskólar fóru að keppa við þá.
Geir Ágústsson, 28.10.2024 kl. 10:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.