Kæri frambjóðandi

Þá er búið að boða til kosninga til Alþingis og fagna ég því enda lítið varið í ríkisstjórn þar sem hver höndin vinnur á móti annarri.

En með kosningum koma kosningaloforðin og auglýsingarnar. Þar lofa vitaskuld allir öllu fyrir alla. Gæti ég beðið frambjóðendur um að gera mér greiða?

Að segja ekki bara frá því sem á að gerast (minni fátækt, lægri verðbólga, meira fé í heilbrigðiskerfið) heldur líka hvernig það eigi að gerast.

Til dæmis:

Þér finnst vanta fé í heilbrigðiskerfið. Hvernig viltu laga það? Viltu rýmka fyrir einkaframtaki þannig að fé komi inn í gegnum útselda vinnu eða viltu hækka skatta? Viltu fækka millistjórnendum og færa peningana frá efstu hæð niður á gólfið? Segðu mér það!

Þér finnst verðbólgan of há. Hvernig viltu laga það? Viltu stöðva hallarekstur ríkisins og óseðjandi þörf þess fyrir lánsfé í samkeppni við aðra? Eða koma á mynt á gullfæti? Eða láta seðlabankann bara um málið með vaxtahækkunum? Eða koma á gjaldmiðlafrelsi? Eða færa peningaprentunarvaldið til útlanda? Skýr svör, takk.

Þér finnst velferðarkerfið vera í vandræðum. Hvað viltu gera í því? Fækka útlendingum sem leggjast á það? Auka velferðina með skattalækkunum og minnka um leið bótaþörfina? Skera niður í heilbrigðiskerfinu til að fjármagna bætur? Hækka skatta á launafólk? Þú hlýtur að hafa einhverja hugmynd um aðgerðir.

Viltu hækka skattana? Fækka reglunum? Einkavæða? Ríkisvæða? Banna? Skella á tollum? Niðurgreiða einhverja á kostnað annarra? 

Þú hlýtur að geta sagt frá áætlunum þínum núna frekar en að bíða með það þar til þingstóllinn er tryggður.

Færri slagorð, meira  af því sem þú ert raunverulega að hugsa, gefið að heil hugsun sé til staðar.

Er bjartsýni við hæfi eða er sama innihaldslausa og ógegnsæja loforðabunan í vændum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og þrettán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband