Föstudagur, 11. október 2024
Borgaraleg óhlýðni þarfnast endurnýjun lífdaga
Íshellafyrirtæki er neitað um starfsleyfi en finnur leiðir til að halda áfram að starfa. Mikið var hressandi að lesa um það!
Við fáum póst 4-5 dögum fyrir ferðir að þeir ætli að gera okkur leyfislausa... Við ætlum ekki að láta þjóðgarðinn stoppa okkur. Þeir verða þá bara að láta lögguna stoppa okkur...
Þeir enduðu að fá aðgang að einhverju leyfi eins og ég skil það og eru að sinna viðskiptavinum sínum, en viðhorfið er rétt. Hérna eru sjálfstæðir Íslendingar á ferð sem vita væntanlega af atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár og taka ekki við þvælunni sem vellur úr íslenskri stjórnsýslu - stjórnsýsla sem hefur fært sig töluvert upp á skaftið síðan á veirutímum og bannar heilu atvinnugreinarnar með einu pennastriki, bótalaust.
Það voru sjálfstæðir Íslendingar sem stofnuðu ólöglega útvarpsstöð og ruddu brautina fyrir frjálst útvarp á sínum tíma. Það voru sjálfstæðir Íslendingar sem fundu leiðir til að bjóða Íslendingum upp á áfengi utan við ríkisverslanirnar. Sjálfstæðir Íslendingar bjóða kerfinu birginn með frjálsum viðskiptum og sýna almenningi með beinum hætti hvernig stjórnsýslan er farin að snúast meira um sjálfa sig og minna um þarfir fólks og fyrirtækja.
Ríkið fyrir ríkið, ekki fyrir fólkið.
Nú er auðvitað varhugavert að mæla með því að framkvæma ýmislegt sem hið opinbera kallar lögbrot en eru bara frjáls viðskipti. Því fylgir oft áhætta - yfirvöld gætu ákveðið að sýna vöðvana og stinga friðsömu og í raun heiðarlegu fólki í steininn fyrir að nýta sér stjórnarskrárvarin réttindi til að stunda atvinnu.
En er eitthvað annað í stöðunni fyrir fórnarlömb yfirvalda?
Við ætlum ekki að láta þjóðgarðinn stoppa okkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.