Kunna Íslendingar ekki að reka innviði lengur?

Ég veit, ég veit. Ég er erlendis. Ég er ekki á svæðinu. Ég þekki ekki öll smáatriðin.

Engu að síður leyfi ég mér að spyrja: Kunna Íslendingar ekki að reka innviði lengur?

Orkan, vatnið (heitt og kalt), rafmagnið, vegirnir - þetta virkaði einhvern tímann. Núna eru heilu svæði heitavatnslaus, rafmagnslaus og allt að því orkulaus í lengri tíma, oftar og oftar. Orkuskiptin á Íslandi eru á leið í öfuga átt: Úr endurnýjanlegri vatnsorku í innflutta olíu. 

Bensínstöðvarnar virka reyndar alltaf, svo því sé haldið til haga. Ætli það sé vegna þess að þær eru einkareknar?

Það er ekkert grín að halda uppi sæmilegum lífsgæðum á eldfjallaeyju í Norður-Atlantshafi. Það krefst þess að orka sé sótt og henni komið áleiðis. En hvað hefur gerst eftir mörg ár af hrópum eftir nýjum háspennulínum? Ekkert. Orkuverum? Ekkert? Brúarsmíðum? Ekkert. Það gerist ekkert. Það er eins og einhver hafi ákveðið að íslenskir innviðir árið 2010 séu einfaldlega nógu góðir um alla framtíð.

Ég vona að upplifun mín af fréttunum sé röng. Ég kemst að því fljótlega í stuttri heimsókn til Íslands. Fyrstu leggirnir í því ferðalagi eru áhyggjulausir: Flug með einkafyrirtæki og eftir það rútuferð með einkafyrirtæki. Hvað tekur svo við er stærri óvissa. Sjáum hvað setur. 


mbl.is Öllum sundlaugum Reykjavíkur lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þeir eru víst mikið í að gera allskyns sáttmála þarna uppi á norðureyju.  Minna í að stunda viðhald.

Ásgrímur Hartmannsson, 9.10.2024 kl. 18:40

2 identicon

Það er nokkuð ljóst að þú ert erlendis. Ert ekki á svæðinu. Og þekkir ekki atriðin, hvorki smá né stór.

Þó alltaf megi gera betur og menn vilji geta gert betur þýðir það ekki að eins vel hafi ekki verið gert og hægt var. Að mála skrattann á vegginn er auðvelt þegar orð bera enga ábyrgð og koma þarf höggi á andstæðing með öllum ráðum. Það verða ætíð einhverjir tilbúnir til að bíta á öngulinn.

Rafmagnsleysi, sem var frekar algengt þegar þú fórst héðan, er nú svo sjaldgæft fyrir þorra landsmanna að það er stór frétt þegar það gerist. Fólk er ekki lengur með skáphillu þar sem eru vasaljós, kerti og rafhlöðuútvarp eins og algengt var einhvern tímann. 

Orkan, vatnið (heitt og kalt), rafmagnið, vegirnir - þetta virkaði einhvern tímann, einhvern veginn meðan kröfurnar voru minni. Og virkar allt enn og flest mikið betur en það gerði á þessum einhverjum tíma þínum. Það hita færri, þrátt fyrir fólksfjölgun, með rafmagni eða olíu. Sem skýrist af mikilli fjölgun notenda hitaveitu. Á örfáum árum hefur kennitölum fjölgað um yfir 30% og sprenging orðið í fjölda ferðamanna. Það hefur m.a. kallað á meiri rafmagn og sett meira álag á vegina. Vöruflutningar, sem voru á sjó, fluttar á vegina hafa einnig sín áhrif. Það er ekki raunhæft að ætlast til þess að vegakerfi sem tók yfir öld að byggja upp sé endurbyggt og útvíkkað á kjörtímabili eða tveim.

Fólk vill í dag fá þvottavélina eða sápustandinn á morgun en ekki í þar næstu viku eins og þótti gott einhvern tímann. Fleira fólk vill í dag fá meira og öruggara rafmagn en einhvern tímann. Fólk vill í dag fá góðar klæðningar á alla 26.000 kílómetra vegakerfisins, ekki bara helstu leiðir innanbæjar, Reykjanesbrautina og þjóðveg eitt eins og einhvern tímann og frábært viðhald hvernig sem árar.

Mikið vill meira og allt hlýtur að vera í rusli fyrst það fæst ekki samdægurs. Og samkvæmt ýmsum þá er ófært um vegi landsins, sem væri meira vandamál ef við sætum ekki öll skjálfandi úr kulda í myrkrinu, raulandi rímur, nagandi sviðakjamma, hlustandi á hnífabardaga flóttamannanna í næstu húsum.

Bensínstöðvarnar virka, allavega oftast flestar dælurnar. Svo lengi sem vegir eru til að koma bensíninu til þeirra og rafmagn til að knýja dælurnar. Þær ganga nefnilega fyrir rafmagni og þurfa hafnir, vegi og þar sem eru starfsmenn jafnvel hitaveituhitað húsnæði. Viðhald þurfa þær víst einnig, sem getur dregist um nokkra daga utan höfuðborgarsvæðisins.

Vagn (IP-tala skráð) 9.10.2024 kl. 23:10

3 Smámynd: Birgir Loftsson

Nei, Íslendingar kunna ekki lengur að reka inni við.

Birgir Loftsson, 10.10.2024 kl. 10:46

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásgrímur,

Það er vissulega rétt ábending að sáttmáli um höll kostar ekkert í viðhaldi. Um leið og eitthvað er byggt þá þarf að þrífa það og reka.

Svo kannski sáttmálar um að ætla sér eitthvað séu aðeins skárri en að opna á opna ávísun á kostnað skattgreiðenda. 

Geir Ágústsson, 11.10.2024 kl. 21:16

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Takk fyrir þessa réttlætingu á þriggja daga heitavatnsleysi, lokuðum sundlaugum og hreinlega rafmagnsleysi á heilum landshluta, allt á innan við þriggja mánaða tímabili ef mig minnir rétt. 

Af því að eitthvað var verra fyrir 20-30 árum.

Það er sennilega við hæfi að byrja lækka væntingar fólks til áreiðanleika innviðanna ef það á halda áfram að vanrækja þá. Vegakerfið sprungið auðvitað, Landsnet varar við orkuskorti og álverin farin að missa rafmagn. Lækkaðar væntingar eru góð byrjun á vegferð til fjandans. 

Geir Ágústsson, 11.10.2024 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband