Þriðjudagur, 8. október 2024
Nei, ekki klára málin (og ekki boða til kosninga)
Eitthvað er nú rætt um tímasetningu á næstu kosningum til Alþingis og sitt sýnist hverjum. Flokkar sem mælast háir í skoðanakönnunum núna vilja auðvitað fá kosningar á meðan uppsveiflan endist. Flokkar sem eru að hverfa vilja auðvitað ekki kosningar og vonast til að fylgið lagist eitthvað með tímanum. Svona er þetta alltaf.
Nú vill svo til að flokkar sem mælast lágir eða eru við það að hverfa eru í ríkisstjórn en flokkar sem mælast háir eru utan hennar. Það gefur því augaleið að ríkisstjórnarflokkarnir hafa af því mikla hagsmuni að sitja sem lengst í ríkisstjórn og vona að fylgið lagist. Nú er jú verðbólgan eitthvað að gefa eftir og vextir að mjakast örlítið niður. En í stað þess að segja hið augljósa - að ríkisstjórnarflokkarnir vilji sitja í ríkisstjórn til að forða sér frá útrýmingarhættu - þá ættu þeir að segja nokkuð annað og lofa því að klára ekki málin.
Sem sagt, klára ekki málin og boða ekki til kosninga.
Væri það ekki eitthvað?
Því maður fær það á tilfinninguna að í hvert skipti sem yfirvöld ætla sér stóra hluti - klára málin - þá breytist flest til hins verra. Skattar hækka. Ríkisútgjöld hækka. Hallarekstur er framlengdur. Starfshópar um flugvelli á gossprungum eru stofnaðir. Hallarbyggingum lofað.
Verðbólgan fór að lækka um leið og stjórnmálamenn tóku sér langt og verðskuldað sumarfrí. Skattar hækkuðu ekki á meðan. Er það ekki ákveðin vísbending um ágæti þess að ríkisstjórnin sitji á höndunum á sér út kjörtímabilið?
Hvers vegna að kjósa í vor? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Björt framtíð enn og aftur. Sleit stjórnarsamstarfi í skjóli myrkurs í þeirri trú að það væri til vinsældar fallið. Síðan hefur ekkert til þeirra spurst.
Vinstri grasasnar eru ágætis dæmi um vinstri drasl sem er ekki á vetur setjandi. Ef það er einhver dugur í þessu drasli, slítið þá samstarfinu strax, ekki segjast ætla að gefast upp næsta vor.
Bjarni (IP-tala skráð) 8.10.2024 kl. 19:41
Blessaður Geir.
Mér finnst örla á ákveðinni bölsýni í þessari færslu þinni, þekki gott ráð, einn, tveir, kannski jafnvel þrír pæntarar af Guinness öli, og glaðværð þín kemur til baka.
Jú, jú, í Danaveldi drekka menn ekki guðaveigar, hvorki góðan hálandamjöð eða gleðihjartarstyrkingar lyfið frá frændum okkar Írum.
Samt er nú bara heimabruggaður Tuborg góður, ólíkt gerblönduðu eftirlíkingunni hér á Fróni.
Smá Festival og vandinn er leystur.
Vegna þess Geir minn að kaldhæðni hefur aldrei virkað þar sem alvaran er undir.
Hógværar bænir þínar um heilbrigða skynsemi eru hins vegar vogarafl gegn heimsku, og forheimsku, stilla saman strengi sem íhaldsfólk þarf að stilla.
Þar liggur þinn styrkur Geir.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.10.2024 kl. 21:07
Slettireka í fílu heyr aflvana baráttu Geir,en gott að sjá skrifin hér.
Helga Kristjánsdóttir, 9.10.2024 kl. 00:16
Bjarni,
Það er erfitt að gefa frá sér ráðherrastóla og sporslur af ýmsu tagi. Menn þurfa tíma til að finna sér alvöruvinnu.
Ómar,
Bölsýni mín er hvorki meiri né minni eftir eins og einn Guiness. Það sem gleður mig einna mest er það óþol sem margir hafa fyrir Miðflokknum og hvað þá fyrir mælingum á fylgi hans, óháð minni afstöðu til flokksins.
Helga,
Takk fyrir innlitið.
Geir Ágústsson, 9.10.2024 kl. 09:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.