Fimmtudagur, 3. október 2024
Allskonar fyrir aðra
Það þarf ekki að fylgjast með fréttum lengi til að sjá að innviðir og opinber þjónusta á Íslandi er í molum. Ástæðurnar eru margar: Fjárskortur (jafnvel þótt það sé nóg af fé), mannekla, of stutt vinnuvika opinberra starfsmanna, vanræksla, ábyrgðarflótti, flækjustig og listinn heldur áfram.
En það er huggun í harmi! Það er til nóg af peningum til að:
- Fjármagna erlend stríð
- Halda stórar ráðstefnur fyrir útlendinga
- Innræta börn með skaðlegri hugmyndafræði
- Byggja flottar skrifstofur fyrir opinbera starfsmenn
- Senda opinbera starfsmenn til útlanda, og með dagpeninga í vasanum
- Banna atvinnugreinar og sætta sig við tekjutapið
- Flytja inn íblöndunarefni til eyðileggja hagkvæmasta eldsneytið
- Elta uppi fólk og atvinnurekendur fyrir smávægilegustu yfirsjón á óskiljanlegu regluverki
- Halda úti fjölmiðli sem sýgur lífið úr öðrum fjölmiðlum
- Borga fólki sem kallar sig listamenn til að það hafi tíma til að skrifa greinar til stuðnings vinstriflokkunum
- Kaupa rándýr tilraunalyf og reyna troða í sem flesta og helst alla
- Setja á fót ógrynni starfshópa og nefnda sem skoða fjarstæðukenndar hugmyndir
- Halda uppi óteljandi útlendingum og keyra þá í leigubílum í ókeypis tannlækningar
- Niðurgreiða lúxusbíla fyrir efnað fólk
Er ég að gleyma einhverju?
Ofantalið er engan veginn tæmandi upptalning, bara nokkuð sem kemur fljótt til hugar. Vandamálið er svo ekki hvert og eitt þessara atriða. Vandamálið er almenn forgangsröðun yfirvalda á þeim takmörkuðu auðlindum sem vasar skattgreiðenda eru. Hugarfarið eins og það leggur sig. Allskonar fyrir alla, nema þá sem treysta á þjónustu og stuðning kerfisins.
Og það sem verra er: Það er ekki hægt að kjósa sig frá þessu hugarfari. Almenn sátt ríkir um að loftslagið sé í hættu, og að engu megi til spara til að bjarga því frá litla Íslandi, en að sjúklingar geti beðið. Erlendu stríðin eru mikilvægari en innlendu vegirnir. Útlendir embættismenn eru mikilvægari en innlendir atvinnurekendur.
Eitt, gegnumgangandi og að mínu mati rotið hugarfar sem fáir tala gegn og hvað þá þeir sem bjóða kjósendum upp á starfskrafta sína enda eru kjósendur engu skárri og kjósa einfaldlega þá sem syngja með kórnum. Svona rétt eins og þeir létu smala sér í sprautuhallir og klappa núna fyrir utanríkisstefnu Bandaríkjanna, hvað sem það kostar.
Á Íslandi verður kosið til Alþingis í seinasta lagi á næsta ári. Nú þegar eru menn farnir að tjá sig um möguleg úrslit þeirra kosninga og flestir þeir spádómar benda á óbreytt ástand. Hvað finnst þér um það?
Ég er nakin með fólk allt í kringum mig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:04 | Facebook
Athugasemdir
Ég held að ótti við hægri öfgar (semsagt minna af öllu þessu sem þú telur upp þarna) muni hræða fólk til að kjósa aftur yfir sig sama eða svipað fólk, sem mun halda áfram á sömu vegferð.
Vegna þess að fólk er skíthrætt við breytingar. Sérstaklega til batnaðar.
Með smá heppni endar þetta með lágmarks mannáti.
Ásgrímur Hartmannsson, 3.10.2024 kl. 17:49
Með tilliti til vísinda og fræða dr. Helga Pjeturss tel ég skýringuna frekar þá að fólki er fjarstýrt frá öðrum hnöttum.
Engu að síður þá eru eigendur okkar að elska spennu. Við leikum í raunveruleikasjónvarpi fyrir þá, eða eins og í Colleseum í Róm.
Hvernig ætti fólk að kjósa rétt og skynsamlega þegar það er dáleitt og heilaþvegið af Hollywood? Skemmtanaiðnaðurinn er enginn skemmtanaiðnaður, hann er djöflasmiðja til að framleiða fleiri djöfla.
Það er þó rétt að fólk er skíthrætt, og óttinn stjórnar fólki. Ekki ótti við breytingar, heldur ótti við vald og refsingar.
Fólk óttast til dæmis að missa vinnuna og vini og fjölskyldu ef það tjáir ekki "réttar" skoðanir og samfélagslega vinsælar. Þetta félagslega kúgunarkerfi virkar þannig, félagshyggjuflokkarnir, kúgunarflokkarnir. Félagslegt ofbeldi er langsamlega algengasta tegundin af ofbeldi í nútímanum. Það birtist í slaufun og útskúfun karla og drengja en nokkurra kvenna líka, sem ekki eru hluti af samsærinu gegn hefðunum.
Heimskingjarnir sem slaufa öðrum vita ekki að þeir eru hluti af vítahring. Eina leiðin til að rjúfa hann er að hætta að taka þátt í hatrinu á náunganum og slaufuninni, pólitískri rétthugsun/ranghugsun, útskúfunum.
Það þarf þó kjark til að slíta sig úr hópnum heimskulega sem flestir eru hluti af.
Kosningahegðun er bara svo margt í mannlegri hegðun, stjórnast af menningu sem eru orðin býsna léleg á vesturlöndum.
Ingólfur Sigurðsson, 3.10.2024 kl. 21:29
Innilega sammála, Geir. Það vantar ekki pening í gæluverkefni og í því partýi er forusta Sjálfstæðisflokksins heil en óstudd. Það þýðir ekki lengur fyrir Bjarna að koma fram korteri fyrir kosningar og tala um gildi sjálfstæðisstefnunar. Sá leikur hefur verið leikinn of oft. En það eru ekki bara við, nokkrar hjáróma raddir sem sjá í gegnum lygina, öll Evrópa er að vakna. Fyrst kom Brexit og Trump og nú er hver vinstristjórnin á eftir annarri að falla í Evrópu. En Íslendingar eru íhaldssamir, jafnvel á vinstrimennskuna, en að endingu mun hún líka falla. Hvort það verður núna er erfitt að segja en ef ekki nú þá gæti það orðið um seinan. Eyðilegging sósíaldemokratismans gæti hafa riðið fullveldi okkar að fullu.
Ragnhildur Kolka, 4.10.2024 kl. 11:00
Ég þakka athugasemdirnar frá ykkur góða fólki.
Um leið vil ég deila bjartsýni Ragnhildar þótt mín sé mögulega hógværri. Teikn eru á lofti víða um að almenningur sé að fá nóg og það sést á kosningaúrslitum víða. Í Þýskalandi er núna talað um að banna AfD og hvað gerist þá, þegar þýsk yfirvöld enn og aftur afnema lýðræðið? Það er spurning.
Ísland er hérna á eftir áætlun eins og venjulega en skoðanakannanir sýna leitni sem er spennandi.
Geir Ágústsson, 4.10.2024 kl. 14:47
Halda sérstakan ríkisstjórnafund ef vísa á einum hælisleitenda úr landi
En það er bara "shit happens" hvað kemur okkur þetta við
ef rafmagnið fer hjá flestum á landsbyggðinni
Grímur Kjartansson, 4.10.2024 kl. 17:32
Grímur,
Ljómandi dæmi um hugarfarið.
Geir Ágústsson, 4.10.2024 kl. 18:12
Ég stenst ekki freistinguna að bæta við
"Embætti héraðssaksóknara hefur ekki mannafla til þess að halda úti rannsókn á ólöglegu samráði Eimskipa og Samskipa"
Samt sendi hann fólk til Namibíu til að eltast við eitthvað sem borðliggjandi var að aldrei myndi leiða til ákæru
Grímur Kjartansson, 5.10.2024 kl. 08:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.