Nöfn flokka

Er rangt að segja að nöfn stjórnmálaflokka í dag séu ágæt lýsing á andstæðu stefnu þeirra?

Tökum dæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á að skipa utanríkisráðherra með eitt þingmál á dagskrá fyrir komandi þingvetur: Að færa lagasetningarvald á Íslandi undir Evrópusambandið (í einfölduðu máli). Ósjálfstæðismaður.

Vinstri-grænir hamast eins og þeir geta gegn framleiðslu á grænni, þ.e. endurnýjanlegri, orku. Hvorki vinstri (almúginn þarf orku) né græn (olían hleypur í skarðið þegar græna orkan er ekki til).

Viðreisn hefur það helst á stefnuskránni að gera íslenska hagkerfið að Evrópusambandshagkerfi. Nú er ég ekki að segja að íslensk hagstjórn sé góð - hún er satt að segja alveg glötuð - en það er engin viðreisn í því að einfaldlega afhenta öðrum lyklana. 

Framsóknarflokkurinn er vel þekkt stærð í íslenskum stjórnmálum. Hann boðar ekki framsókn heldur vörn. Er einhver annar en ríkið að selja áfengi? Vandamál. Er hægt að kaupa danskar kjúklingabringur á Íslandi? Vandamál. Allt sem stígur skrefi í átt að framsókn er vandamál.

Samfylkingin er ekki fylking sem sameinar neitt þótt vinsæll formaður sé núna að slá í gegn í skoðanakönnunum. Vinstrimenn eru sundraðri en nokkru sinni. Fylking? Kannski? En sameinar fátt.

Sósíalistaflokkurinn er hugarfóstur manns sem hefur knésett fleiri fjárfesta og fjármagnseigendur en dæmi eru um. Hann er hamingjusamlega tilbúinn að eyða fé annarra. Kannski er það rétt skilgreining á sósíalista en að vera sósíalisti sem þarf á ríkum kapítalistum að halda til að fjármagna bæði viðskipti sín og stjórnmálaskoðanir er enginn sósíalisti. Hann er afæta. Alvörusósíalistar eru hamingjusamlega fátækir á meðan allir aðrir eru það líka. Gervisósíalistinn vill hafa aðgang að vösum auðmanna til að týna úr, og til þess þarf hann kapítalisma og kapítalista.

Gott og vel, enginn er fullkominn, en við flokksstjórnir vil ég benda á að kjósendur þurfi kannski á heiðarleika halda í nöfnum stjórnmálaflokka.

Sjálfstæðisflokkurinn breytir nafni sínu í Evrópusambandsflokkinn.

Viðreisn endurskíri sig Vonlausn.

Vinstri-grænir kalli sig Olíuflokkinn.

Framsóknarflokkurinn verður að Fortíðarflokknum.

Samfylkingin gerist Vindhanaflokkurinn.

Sósíalistaflokkurinn kalli sig Skattheimtuflokkinn.

Verður þá ekki auðveldara fyrir kjósendur að ákveða sig? Það held ég.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og átta?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband