Laugardagur, 28. september 2024
Ríkið í samkeppni við borgara sína
Íslenskir ráðherrar halda áfram að eyða peningum sem þeir eiga ekki og hafa ekki. Þá peninga þarf að lána í samkeppni við fyrirtæki og fasteignakaupendur og þannig er vöxtum - kostnaðurinn við að lána fé - haldið uppi.
Þetta er alveg afskaplega vel útskýrt í þessum pistli á Viðskiptablaðinu.
Nú er kosningavetur hafinn og stjórnarliðum mikið í mun að geta eytt eins og fullir unglingar með kreditkort foreldra sinna á djamminu en án þess að fá sökina fyrir háu vaxtastigi og háum sköttum. Það er yfirvöldum mikilvægt að blórabögglarnir séu aðrir en þau sjálf, svo sem stór fyrirtæki, seðlabankinn, viðskiptabankarnir og útlendingar sem hækka verð á innflutum varningi.
Við látum hamingjusamlega blekkja okkur eins og venjulega. Ríkið þarf jú að sinna innviðum og þjónustu, reka skóla og spítala og halda úti menningarlífi, ekki satt? Er því ekki sjálfsagt að það sogi í sig allt tiltækt lánsfé og haldi verðlagi á því uppi í leiðinni?
Það er orðið ansi hart í ári þegar ríkisvaldið er komið í svona stífa samkeppni við borgarana sem tæma vasa sína í sjóði þess, en ekkert óvenjulegt. Íslendingar geta kosið eins og þeim sýnist - niðurstaðan verður sú sama. Svona svolítið eins og í Reykjavík.
Á Íslandi var veirutímum haldið til streitu þar til almenningur fékk sig fullsaddan og fór að sjá að yfirvöld voru skaðlegri en veiran. Sömu opinberun þurfa Íslendingar núna til að sjá raunverulega ástæðuna fyrir háum sköttum, vöxtum og verðbólgu.
Skuldir ríkissjóðs aftur á uppleið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.