Um samkynhneigða og rússnesk olíuflutningaskip

Segjum sem svo að þú sért samkynhneigður einstaklingur í vestrænu ríki, t.d. Íslandi. Lögin mismuna þér ekki fyrir samkynhneigð þína. Þú mátt eiga og kaupa, gifta þig, stofna til skulda og ættleiða barn. Eini munurinn á þér og gagnkynhneigðum einstaklingi er sá að þú stofnar til sambands með einstaklingi af sama kyni og þú, en sá samkynhneigði ekki. Nú fyrir utan að þurfa aðstoð utan við samband þitt til að gerast foreldri, en það er minniháttar atriði.

En finnst þér engu að síður eins og það eigi að fleygja þér fram af húsþaki vegna samkynhneigðar þinnar? Grýta þig til dauða? 

Nei auðvitað ekki. Þér finnst ekki eins og löggjöf Íran eða Palestínu eigi að ná til þín og finnst jafnvel að yfirvöld í Íran og Palestínu eigi að breyta eigin lögum svo þau feli ekki í sér að samkynhneigðum megi fleygja fram af húsþökum.

Þú hafnar jafnvel lögmæti slíkrar löggjafar þótt hún sé svo sannarlega löggjöf á sama hátt og vestræn löggjöf: Lög samin af löggjafarvaldi ríkis eða svæðis. 

Auðvitað er til eitthvað sem menn kalla lög sem ná til alls heimsins. Allskyns sáttmálar og þess háttar og aðild að hinum og þessum samtökum sem ætlast til ákveðinna hluta af meðlimum sínum. En það breytir því ekki að fullvalda ríki geti sett eigin lög og sett þau ofar slíkum alþjóðlegum samningum. Ef Sameinuðu þjóðirnar hafna lögmæti þess að fleygja samkynhneigðum fram af húsþökum þá geta yfirvöld í Íran kært sig kollótt. Þau framfylgja eigin lögum, ekki annarra.

Þetta er auðvitað að sumu leyti skítt, eins og í tilviki þess að fleygja samkynhneigðum fram af húsþökum eins og menn hafa lengi stundað í ákveðnum heimshlutum. En líka gott. Tökum fóstureyðingar sem dæmi. Á Íslandi gilda um þau íslensk lög en ekki þýsk eða pólsk. Séu Íslendingar ósáttir við þau lög þá geta þeir breytt þeim án þess að fara á hnén fyrir framan franskan forseta eða bandarískan sendiherra.

En aðeins að öðru, en þó skyldu atriði: Viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja á rússnesk olíuviðskipti. Vesturlönd vilja reyna stöðva slíka viðskipti eða minnka umsvif þeirra en gengur lítið. Rússnesk skip sigla í hundruðatali með olíu til margra heimshorna.

En eru þau þá ekki að gerast brotleg við viðskiptaþvinganir Vesturlanda? Nei, af því þau eru ekki í viðskiptum við vestræn ríki og viðskiptaþvinganir þeirra ná því ekki yfir þau.

Svona rétt eins og samkynhneigðir á Íslandi hafna því að írönsk og palestínsk löggjöf nái til þeirra (nema þeir ferðist til Íran eða Palestínu á eigin ábyrgð, en það heyrist lítið um slík ferðalög).

Það mætti því segja að samkynhneigðir Íslendingar séu að beita sömu nálgun og rússneskt olíuskipafélag: Að neita að beygja sig undir lög eða fyrirmæli aðila sem koma þeim einfaldlega ekkert við.

Er það ekki skemmtileg samlíking?


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og tíu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband