Landsbyggðin niðurgreiðir höfuðborgina

Viðsnúningur varð í rekstri Reykjavíkurborgar á fyrsta helmingi ársins og var rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð í fyrsta sinn í fimm ár. Þetta kom mörgum á óvart enda hefur allt verið eins og rjúkandi brunarúst í fjármálum borgarinnar í mörg ár, og jafnvel áratugi, og enginn að búast við öðru. Meira að segja kjósendur í Reykjavík, sem enda á að hlaupa undir vaxtagreiðslurnar á meðan þjónustan skreppur saman, láta eins og ekkert sé.

En margir velta því fyrir sér hvernig borgin er allt í einu að skila rekstrarafgangi í svokölluðu A-hluta þegar það er ljóst að aðhaldið er ekkert, skattar hafi verið í lögbundnu hámarki í mörg ár og verða ekki hækkaðir mikið meira, starfsmannafjöldinn sá sami og óráðsían óbreytt. Það er ekki eins og áætlanir hafi staðist svo vitnað sé í árshlutaskýrslu borgarinnar fyrir tímabilið janúar-júní 2024:

Rekstrarniðurstaða A-hluta var 1,1 ma.kr. betri niðurstaða en á sama tímabili árið 2023. Áætlun gerði ráð fyrir 1,9 ma.kr. rekstrarafgangi.

Það þarf ekki að fletta lengi til að sjá hvað breyttist. Á tímabilinu janúar-júní 2023 fékk borgin um 5,8 milljarða úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Á tímabilinu janúar-júní 2024 fékk borgin 7,4 milljarða, sem er aukning um 1,6 milljarða. Þarna er ástæðan. Þetta skýrir hvers vegna áætlun gat skeikað um 800 milljónir en rekstrarafgangi samt náð með 1,1 milljarða viðsnúningi á milli ára miðað við sama tímabil.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur mörgum skyldum að gegna og ein er sú að hjálpa sveitarfélögum í vandræðum:

Framlögum er úthlutað til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum sveitarfélaga í samræmi við tillögur frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. 

Ætli þetta sé ekki ástæðan fyrir því að sjálf höfuðborgin er komin á spena landsbyggðarinnar og þiggur styrki eins og lítið sjávarpláss sem var að missa seinasta togarann?

Auðvitað má samgleðjast útsvarsgreiðendum í Reykjavík. Það hefur hægst aðeins á stækkun vaxtabyrðarinnar sem kjörnir fulltrúar borgarbúa hafa byggt ofan á herðar þeirra. En það blasir við að landsbyggðin stendur undir þeim örlitla létti. Hvort hún sætti sig við það að eilífu eða ekki á eftir að koma í ljós. Á meðan getur borgarstjórnin látið eins og ekkert sé. Sjáið bara - rekstrarafgangur!


mbl.is Fyrsta jákvæða niðurstaða borgarinnar í fimm ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Þór Emilsson

hvað með orkuveituna? nú hefur rafmagnið hækkað

Emil Þór Emilsson, 7.9.2024 kl. 16:10

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þetta eykur bara óráðsíuna.

Ásgrímur Hartmannsson, 7.9.2024 kl. 17:24

3 identicon

Sennilega gert svo Reykjavíkurborg fái greitt fyrir þjónustuna sem fólk með annað lögheimili hefur þegið frá borginni á kostnað borgarbúa. Það þótti víst ekki gott þegar Reykjavíkurborg hóf að neita utanbæjar um þjónustu nema sveitarfélögin borguðu fyrir þjónustuna. Ágætis dæmi eru slagurinn um tónlistarnám í Reykjavík og Hvergerðingsins Gylfa Ægissonar yfir að Dagur reddi honum ekki húsnæði og þjónustu í Reykjavík.

Jöfnunarsjóðurinn virðist því vera að færast frá því að vera styrktarsjóður landsbyggðar, sem borgar eftir lögheimilisskráningu fyrir þjónustu sem landsbyggðarfólk þiggur en landsbyggðin veitir ekki, til þess að vera jöfnunarsjóður sem greiðir þeim sem veita þjónustuna og hafa borið kostnaðinn.

Vagn (IP-tala skráð) 7.9.2024 kl. 19:14

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Eitthvað hefur þá bæst við tónlistarnámið í Reykjavík á seinustu misserum. Vonandi kemur út úr því hrina tónleika hæfileikafólks. 

Hvar er annars hægt að nálgast minnisblöð Jöfnunarsjóða sem útskýra aukalega 1,6 milljarð til höfuðborgarinnar á milli ára?

Geir Ágústsson, 7.9.2024 kl. 21:30

5 identicon

Stjórnarráðið er með ágætis síðu um Jöfnunarsjóð Sveitarfélaga. Þar gæti mögulega verið að finna ástæðu þess að eitthvað af þeirri þjónustu sem, til dæmis og meðal annars, er veitt Grindvíkingum af Reykjavíkurborg fær Reykjavíkurborg nú greitt fyrir að veita en ekki Grindavíkurbær.

Vagn (IP-tala skráð) 7.9.2024 kl. 22:45

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Ég gráðbið þig um hjálp. Ég get vissulega séð að borgin fái 355 þús. til að halda úti tónlistarnámi og milljónir vegna hins og þessa, en ég finn ekki stóru upphæðirnar og rökstuðninginn fyrir þeim. 

Geir Ágústsson, 8.9.2024 kl. 07:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband