Þriðjudagur, 3. september 2024
Smáatriðin
Við fáum mikið af fréttum um ástandið í Úkraínu og Rússlandi. Sú mynd er gjarnan svarthvít, en varla við öðru að búast. Hver einasta brú sem annar aðilinn sprengir er nefnd í fréttum, á meðan heilu héröðin sem hinn aðilinn gleypir eru varla nefnd.
Til að taka sér hlé frá fyrirsagnafréttunum er því stundum gott að lesa lengri og ítarlegri grieningar, og það gerði ég í dag. Hjá Institute for the Study of War birtast reglulega ítarlegar greiningar af þeim átökum sem við á Vesturlöndum höfum mestan áhuga á: Rússland-Úkraína, Ísrasel-Hamas, Íran. Þessar skýrslur eru troðfullar af smáatriðum og verða seint kallaðar skemmtiefni en með þolinmæði er hægt að læra ýmislegt.
Í skýrslu gærdagsins um Rússland-Úkraínu er til dæmis hægt að finna margt athyglisvert. Það er auðvitað þetta hernaðarlega: Úkraínu hrint aftur í Kursk og Rússar æða áfram í Doneskt, en líka meira. Til dæmis vissi ég ekki að þeir sem neita að taka við rússnesku vegabréfi í Austur-Úkraínu eru settir í gæsluvarðhald þótt það komi ekki á óvart. Annað sem ég vissi ekki, en kemur ekki á óvart, er að grunnskólastarf á svæðum Austur-Úkraínu undir stjórn Rússa verður rækilega nýtt til að metta huga barnanna af áróðri stjórnenda sinna.
Það getur kannski verið sárt fyrir marga að lesa um ósigra Úkraínu á vígvellinum, en um leið upplýsandi að vita hvað Rússar eru að gera á svæðum undir þeirra stjórn. Mögulega nokkuð verra en blaðamenn á Vesturlöndum segja okkur frá enda lesa þeir ekki langar skýrslur - bara fyrirsagnir hvers annars. Og það þótt verðlaunin séu enn fleiri frásagnir um vafasöm verk Rússa.
Ég er auðvitað bara venjulegur launþegi í dagvinnu og faðir með börn á framfæri og get ekki lesið langar skýrslur hvenær sem er. En þeir sem eru að framleiða fyrirsagnir geta kannski komist yfir meira lesefni, enda á launum við að kynna sér staðreyndir.
Að það gerist tel ég hins vegar ólíklegt. Smáatriðin tapast. Áhersla verður á það sem fellur sem best að einhliða nálgun á flókin mál. Og hverjum er ekki sama þótt grunnskólabörn í opinberum skólum séu heilaþvegin af yfirvöldum sínum?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það þarf ekkert að lyggja yfir smáatriðum til að sjá hvernig gengur á þessum slóðum.
Vandinn er að fólk skoðar rangar fyrirsagnir.
Þessar eru betri: https://www.youtube.com/@militarysummary & https://www.youtube.com/@WeebUnionWU
Ísrael-Gaza-Iran getum við leitt hjá okkur, og ættum að gera.
Allt af þessu er fíflagangur sem við ættum að þvo hendur okkar af og reyna að forðast alla þátttöku í í sem lengsta lög.
En nei...
Ásgrímur Hartmannsson, 3.9.2024 kl. 22:36
Hef einmitt fundist auðvelt að skilja Rússland-Úkraínu en alveg ómögulegt að skilja hvers kyns átök í Miðausturlöndum með sína áratugi af öllum að skjóta á alla, oft af engri augljósri ástæðu. Tek þessi ráð til mín.
Geir Ágústsson, 4.9.2024 kl. 19:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.