Þetta reddast?

Eldgosahrinur á Reykjanesi og jökulhlaup á Suðurlandi hafa minnt Íslendinga svolítið á sögulegt eðli sitt sem sumir hafa lýst með orðunum þetta reddast. Er flóð á leiðinni? Við færum okkur og endurreisum vegina. Er eldgos að framleiða hraun? Sprautum á það vatni og reisum varnargarða og sjáum hvað setur, en njótum útsýnisins á meðan ef hraunið heldur sér til hlés. Þarf að koma hundruðum Grindvíkinga fyrir þegar sprungur hafa tekið yfir bæinn þeirra? Komið bara, hér er þak yfir höfuðið. 

Sem algjör andstæða þessa hugarfars kemur svo margt til hugar. 

Það hefur til dæmis blasað við lengi að gatnakerfi höfuðborgasvæðisins er sprungið fyrir löngu á meðan almenningssamgöngur halda áfram að þenjast út í kostnaði án þess að laða að sér fleiri notendur. Sá sem kallar sig borgarstjóra í Reykjavík í dag bendir á að bílum hafi fjölgað um 15 þúsund á 5 árum en getur ekki bent á ein einustu gatnamót eða eina einustu umferðaræð sem hefur verið aðlöguð að aukinni umferð. Í staðinn er bent á einhverja enn eina útgáfu samgöngusáttmála sem virðist vera pappír sem flýgur ofan í skúffu um leið og hann hefur verið undirritaður enn einu sinni. Það eru áætlanir um að bæta þetta og gera hitt - skýrslur og samþykktir, minnisblöð og viljayfirlýsingar. Á meðan heldur umferðin áfram að þjappast saman.

Hvað væri búið að reisa mörg varnarmannvirki á Reykjanesi ef borgarstjóri og bæjarstjórar nágrannasveitarfélaganna væru við stjórnvölinn? Ég giska á engin, en samt væru milljarðar horfnir.

Annað dæmi er í raun afnám sjúkratrygginga fyrir þá sem þjást af liðslitum og þurfa nýja liði. Biðlistarnir hafa verið slíkir að þá mætti kalla hraðbraut að örorku. Samt er nóg af hæfu fólki til að kippa slíku í liðinn, bókstaflega. Ríkið gæti jafnvel sparað fé á að nýta sér slíka möguleika! Kannski er búið að laga þetta eitthvað í dag en að hugsa sér hvað þarf að framkalla af þjáningum áður en eitthvað er gert. 

Til að gera illt verra virðist það svo vera að þegar framkvæmdaviljinn kemur fram þá er það í öllum röngu málunum. Hinu opinbera fannst ekkert mál að kafsigla hagkerfinu til að hægja á veiru, eða reyna það. Fjarlæg stríðsátök opna alla sjóði upp á gátt á meðan skattgreiðendur bíða á biðlistum dauðans. Ekki öll stríðsátök - bara þau sem falla að utanríkisstefnu Bandaríkjanna, svo því sé haldið til haga.

Hvernig stendur á þessu ástandi? Skortur á aðhaldi? Skortur á gagnrýnni hugsun? Kannski þetta reddast“ hugarfar sé farið að ganga of langt. Yfirvöld teyma almenning að bjargbrún. Bjargbrúnin blasir við. Leiðin að henni er greið og bein. Það er ekkert annað í sjónmáli en fallið niður hana.

Gleymum svo ekki loftslagsþvælunni, innflytjendamálunum, orkuskortinum og verðbólgunni og vaxtastiginu. Bjargbrúnin er orðin að örlögum margra nú þegar.

En kannski gýs Eyjafjallajökull aftur, eða Sigmundur Davíð verður forsætisráðherra aftur, og milljarðarnir flæða inn að nýju. „Þetta reddast“, ekki satt? En kannski ekki í þetta skipti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vandamálið við Reykjavík er að þeir sem ráða þar búa í 101 og vilja enga bíla eða flugvöll. Sem er andstætt þörfum eiginlega allra annara póstnúmera.

Annars alveg ótrúlegt að það hafi ekki verið gerð EIN einasta endurbót á neinu í gatnakerfinu, bara lokað mikilvægum götum og búnar til tafir og öllum er einhvernveginn sama.

Emil (IP-tala skráð) 22.8.2024 kl. 20:18

2 identicon

Það er andstaða og ótti vinstri vitleysinganna við einkavæðingu heibrigðiskerfisins sem hefur gert það að verkum að árum saman hefur fólk sem þarf liðskiptiaðgerð verið sent til Svíþjóðar á kostnað skattborgara vegna þess að opinbera kerfið hefur ekki burði til að anna þörfinni. Þetta kostar margfalt meira en Klínikin rukkar fyrir sömu aðgerð. En skynsemi hefur sjaldan verið fylgifiskur sósíalisma.

Bjarni (IP-tala skráð) 23.8.2024 kl. 01:03

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og sex?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband