Föstudagur, 16. ágúst 2024
Blaðamenn, er þetta eitthvað flókið?
Ég þarf sennilega að taka mér langt hlé frá fjölmiðlum áður en ég missi vitið. Þeir skrifa oft af svo mikilli vanþekkingu og jafnvel leti að ég gæti fjallað um það í mörgum ritgerðum. Það ætla ég ekki að gera en taka tvö nýleg dæmi.
Hérna fjallar DV um mann sem kallar sig Tommy Robinson. Hann er ekki í góða liðinu að mati blaðamanns og má því kalla nýnasista þótt hann standi fyrir fjöldahreyfingum fólks af öllum litum, stærðum og gerðum. Á einhvern undraverðan hátt á þessi maður að vera forsprakki götuóeirða og mótmæla á götum Bretlands þótt hann sé ekki einu sinni í Bretlandi - hann fjarstýrir einfaldlega tugþúsundum manna í gegnum samfélagsmiðla. En jæja, látum samsæriskenningar blaðamanns eiga sig. Það eru staðreyndavillurnar sem angra mig meira.
Eftir morð á þremur stúlkum í Southport í sumar dreifði Robinson falsfréttum um að gerandinn væri múslimi og hælisleitandi. English Defence League og fleiri nýnasistasamtök hvöttu og skipulögðu óeirðir í kjölfarið. Var meðal annars kveikt í heimilum hælisleitenda og ráðist á lögregluþjóna.
Sá sem skrifar svona þjáist annaðhvort af leti eða vanþekkingu, eða bæði. Þessi samtök sem eru nefnd þarna hafa ekki verið til í raun í yfir 10 ár og Tommy þessi ekki verið meðlimur síðan árið 2013 - hætti af ótta við ofbeldisöfl innan samtakanna. Það tekur 15 sekúndur að finna og 45 sekúndur að lesa ágæta umfjöllun Sky News um þessi samtök og hvort þau séu yfirleitt til í dag.
Blaðamaður DV bjó einfaldlega til einhverja þvælu til að réttlæta uppnefni sitt. Það er líka rétt að halda því til haga að á götum Bretlands eru það yfirgnæfandi venjulegir breskir skattgreiðendur að mótmæla.
Annað en saklausara dæmi um latan blaðamann er höfundur þessarar fréttar á vef Morgunblaðsins sem fjallar um möguleikann á kjarnorkuknúnum flutningaskipum. Blaðamaður skrifar:
Kjarnaknúin flutningaskip hafa þó hingað til ekki verið talinn fýsilegur kostur, en fyrsta slíka skipið var hannað í Bandaríkjunum árið 1962 og hét NS Savannah. Rekstur skipsins þótti ekki hagkvæmur og var notkun þess því fljótlega hætt.
Aftur þarf ekki meira en 15+45 sekúndur til að komast að því að þetta er úrelt viðhorf. Hérna er ágæt grein um sögu kjarnorkuknúinna skipa og það útskýrt hvernig nýleg þróun á litlum kjarnakljúfum er að fara gera kjarnorkuna mun nothæfari en áður. Hér er svo frétt frá 2023 um áætlanir Kínverja um að byggja risavaxin kjarnorkuknúin skip - frétt sem fór raunar víða í augum þeirra sem fylgjast með svona löguðu. Það gerir blaðamaður Morgunblaðsins greinilega ekki.
Er til of mikils mælst að blaðamenn vandi sig? Ég veit að þeir eru oftar en ekki í því að breiða út eitthvað fagnaðarerindi, eða ófrægingarerindi, frekar en að segja satt og rétt frá, og gott og blessað - þessir fjölmiðlar hafa herrum að þjóna sem eru ekki almenningur, en augljósar staðreyndarvillur? Nei takk.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.8.2024 kl. 09:03 | Facebook
Athugasemdir
Man eftir að hafa lesið um Savannah.
Það gekk ekki vegna þess að fólk var hrætt við það, og neitaði að taka við því í höfn.
Ef fólk hefði slappað af og dregið andann aðeins, og hugsað svo aðeins, þá væru öll flutningaskip í heimi núna kjarnorkuknúin, og hefðu verið þaðnnig síðan 1970.
Með allskonar afleiðingum. Aðallega olíusparnaði.
"Fear is the mind killer," eins og einhver sagði.
Ásgrímur Hartmannsson, 16.8.2024 kl. 18:09
Fjölmiðlar á Íslandi eru að útrýma blaðamönnu. Þeir virðast í mesta lagi fá að taka viðtöl en aðrir sem skrifa, sér í lagi á netmiðla, þýða upp úr lélegum greinum án þess að spyrja sjálfa sig um efnið. Hvað þá að leita víðari upplýsinga. Markmiðið virðist vera að unga nógu miklu efni út án þess að athuga innihaldið, þe. magn en ekki gæði.
Rúnar Már Bragason, 16.8.2024 kl. 18:18
Menn munu dag einn, vonandi fyrr en síðar, ranka við sér og segja: Ha, kjarnorka? Já, auðvitað! Hættum að kæfa hana í reglugerðum og þvælu. Óendanleg og stöðug orka á lágu verði um alla framtíð!
Kínverjar verða kannski á undan okkur. Bless, bless afgangurinn af iðnaði Evrópu og jafnvel Bandaríkjanna.
Geir Ágústsson, 16.8.2024 kl. 20:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.