Raunsæisvottun

Það vantar ekki vottanirnar sem fyrirtæki geta eða þurfa að hafa. Sumar eru valkvæðar og aðrar ekki. Heilbrigðisvottorð er til dæmis víða krafa, og jafnlaunavottun ef vinnustaður er svo óheppinn að hafa farið yfir eitthvað ákveðið hámark starfsmanna. Gæðavottanir hafa lengi verið vinsælar og valkvæðar (gjarnan markaðskrafa frekar en lögbundin krafa). Svo má sækja sér allskyns vottanir upp á umhverfisvitund og annað slíkt.

Gleymum svo ekki hinsegin-vottuninni. 

Ég ætla að reyna flokka allar þessar vottanir í tvo flokka:

  • Þær sem koma til móts við löggjöf eða kröfur viðskiptavina
  • Þær sem eiga að láta fyrirtæki líta vel út þótt vottunin bæti í engu vörur eða þjónustu þess

Kynnum til leiks nýja vottun sem er ekki lögskyld en gæti samt bætt aðstæður starfsmanna og þjónustu við viðskiptavini: Raunsæisvottun.

Til að hljóta slíka vottun þurfa fyrirtæki að fara í gegnum sem flest af eftirfarandi skrefum:

  • Kaupa gámaþjónustu fyrir fyrirtæki svo starfsfólk geti hent öllu rusli í eina ruslafötu og fagmenn og færibönd sjá um að flokka rétt (starfsfólki boðið velkomið að koma með heimilissorpið í vinnuna)
  • Kvarta reglulega og opinberlega yfir opinberum álögum og kjánalegum reglugerðum sem íþyngja rekstrinum án þess að skila sér í neinu til viðskiptavina, samfélags eða umhverfis
  • Segja sig úr allskyns hagsmunasamtökum sem þiggja mikið fé til að skrifa langar skýrslur og halda ráðstefnur fyrir eigin stjórnarmenn og stjórnmálamenn og styrkja þess í stað grasrótarsamtök sem veita yfirvöldum málefnalegt aðhald
  • Leggja ekki önnur námskeið á starfsmenn sína en þau sem auka afköst og gæði verðmætaskapandi vinnu
  • Segja nei þegar lífsskoðunarfélög fullorðinna betla pening og já - oftar en nei - þegar ungmenni og félög þeim tengd óska eftir styrkjum

Þennan lista má mögulega lengja töluvert en boðskapurinn er þessi: Fyrirtæki sem eltast við tískusveiflur og smelli eru að sóa fé hluthafa sinna og launþega, vanrækja starfsfólk sitt og missa sjónar af viðskiptavinum sínum.

Fyrirtæki sem standa gegn slíku eiga skilið raunsæisvottun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Góður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.8.2024 kl. 10:16

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það kemur að því að þú verður kærður fyrir hatursorðræðu Geir. En í guðanna bænum haltu áfram. 

Ragnhildur Kolka, 14.8.2024 kl. 13:05

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Ragnhildur,

Það væri eintómt vesen fyrir ákæranda. Fyrir utan að ég hata eiginlega engan, er miklu meira fyrir að vorkenna.

Geir Ágústsson, 14.8.2024 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband