Bókin sem þú last ekki en dæmdir

Ég hef ákveðna samúð með því að vilja mynda sér skoðun á bók, bíómynd, heimildamynd eða lítilli blaðagrein án þess að hafa horft á eða lesið frá upphafi til enda. Flæði texta og myndefnis er slíkt að við þurfum að sía út. Dæma jafnvel bara út frá fyrirframgefinni skoðun á höfundi, leikstjóra eða framleiðenda. 

Ég skil það og hef jafnvel gerst sekur um nákvæmlega þetta: Að dæma út frá kápunni, en ekki innihaldinu.

En í einstaka tilvikum eiga menn að hægja á sér áður en ætt er á ritvöllinn, og skal ég fyrstur manna játa sök á að hafa ekki gert það - að hafa þurft að skipta um skoðun eftir að hafa farið úr því að dæma án þekkingar og í að breyta þeim dóm eftir að hafa aflað mér þekkingar. Þó sjaldnar og sjaldnar, að eigin mati.

Þessa hugleiðingu skrifa ég eftir að hafa lesið aðsenda grein Hjörleifs Guttormssonar, fyrrverandi þingmanns, í Morgunblaðinu í dag. Manns sem var þekktur fyrir að hafa lesið yfir öll lagafrumvörp þegar hann var þingmaður frekar en að láta undirlægjur sínar gera það fyrir hann, eða bara sleppa því alveg að kynna sér efni slíkra frumvarpa (sem mig grunar að sé reglan frekar en undantekningin). 

Í þessari grein setur hann mikið út á skrif manns sem tekur undir allar áhyggjur hans sjálfs af hlýnun Jarðar af mannavöldum en er ósammála forgangsröðun á því meinta vandamáli umfram önnur.

En þetta er dæmigert fyrir umræðuna.

Ef þú ert á þeirri skoðun að það séu til stærri vandamál en einhverjar breytingar á loftslagi Jarðar af mannavöldum þá ertu hreinlega að hafna því að loftslag Jarðar sé að breytast af mannavöldum. Ef þú telur betra að taka milljarð frá vestrænum skattgreiðendum til að kaupa ódýr lyf til að forða hundruðum milljóna frá malaríu frekar en að setja hundrað milljarða af fé vestrænna skattgreiðenda í að koma í veg fyrir hálfa gráðu af hitastigshækkun þá hafnar þú vísindum, eins og þau leggja sig, og átt skilið níðgrein frá Hjörleifi Guttormssyni. 

Sértu sammála því að loftslag Jarðar sé að breytast en mögulega af öðrum ástæðum en mannavöldum þá ertu virkilega kominn í skammarkrókinn, en Hjörleifur er ekki einu sinni að gagnrýna slíkar raddir.

Kannski er þetta bara komið gott af loftslagshræðslu. Loftslagið er frekar stöðugt þótt fréttamenn séu að verða óstöðugri. Níðgreinar um mann sem vitnar í vísindamenn frekar en blaðamannafulltrúana sem afbaka niðurstöður vísindamanna eru góð vísbending um það.

Það er freistandi að dæma bók af kápunni. Það þekki ég. En ég er að læra, og vonandi fleiri líka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Því verður ekki neitað að eitthvað hefur breyst í veðurfarinu.  Hér á sv-horninu sést varla snjór á veturna lengur, af sem áður var.  Hverju er um að kenna, eða þakka, veit ég ekki en good riddance.  Hef búið við sjó alla mína ævi og hef ekki orðið var við hækkun sjávarmáls og er ég þó enginn spring chicken.

Það eru fréttir af því reglulega að hin og þessi fyrirtæki séu að selja og kaupa losunarheimildir og svo ekki söguna meir.  Stóra spurningin er-hverjir eru að fá þessa fjármuni þegar losunarheimild er keypt?  Það kemur aldrei fram. SÞ? og í hvað eru þeir notaðir.

Bjarni (IP-tala skráð) 13.8.2024 kl. 10:38

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Bjarni,

Snjórinn hefur aðeins verið að snúa aftur í Reykjavík. Því miður var borgin búin að eyða öllum snjómoksturspeningunum. 

En já auðvitað er veðrið eitthvað að sveiflast. Að það sé vegna þess að styrkur koltvísýrings fór úr 300 hlutum af milljón í 400 hluti af milljón er ósönnuð og fjarstæðukennd tilgáta sem fæddist í höfði Margraet Thatcher þegar hún var að eiga við kolanámumenn í verkfalli.

Ég gæti skrifað ýmislegt um þessar losunarheimildir enda nokkuð sem kemur oft að verkefnum á borði mínu, en það þarf að bíða betri tíma. 

Geir Ágústsson, 13.8.2024 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband