1984 sem leiðbeiningabæklingur

Fyrir ekki löngu síðan hlustaði ég á útvarpsleikrit byggt á frægri skáldsögu George Orwell, 1984, og horfði síðan á kvikmynd byggða á sömu bók (útvarpsleikritið er betra). Sagan gerist í ímynduðum heimi þar sem yfirvöld stjórna öllum upplýsingum, ljúga stanslaust að fólki til að halda völdum og fjarlægja úr samfélaginu þá sem ógna frásögninni.

Ég fór að kynna mér þessa sögu betur eftir að hafa heyrt einhvern lýsa henni þannig að það mætti halda að yfirvöld hefðu gert hana að leiðbeiningabæklingi frekar en varnaðarorðum. Sérstaklega á veirutímum, en líka enn þann dag í dag. Ég hafði ætlað mér að lesa bókina fyrir mörgum árum, en nú varð því ekki frestað lengur að kynna sér hana.

covid_1984_by_scifilicious_de0fob6-fullview-2970580726Og mikil ósköp, ég tek undir þá greiningu að bókin sé komin með stöðu leiðbeiningabæklings! 

Fræg eru til dæmis þau orð úr 1984 að stríð sé friður. Hljómar það ekki aðeins of kunnuglega í opinberri umræðu í dag?

Þegar kemur að áróðri og lygum vantar ekki dæmin. Í Bretlandi hafa til dæmis verið óteljandi fjöldamótmæli seinustu daga og vikur sem hófust upphaflega vegna morða sonar innflytjenda á þremur ungum stúlkum en hafa þróast yfir í mótmæli gegn innflytjendastefnu Bretlands. Hvað segja fjölmiðlar okkar, allir sem einn? Jú, að þetta séu óeirðir öfgahægrimanna, að hluta fjarstýrt af manni sem kallar sig Tommy Robinson. Ekkert í þeirri frásögn á sér nokkra stoð í raunveruleikanum eins og Tommy fer hérna yfir á eina samfélagsmiðlinum sem er ekki búinn að þurrka nafnið hans út svo fjölmiðlar hafi einir möguleika á að tjá sig um hann og þá friðsælu fjöldahreyfingu sem hann tilheyrir. 

En auðvitað er auðveldara fyrir okkur að trúa því einfaldlega að í Bretlandi sé fasistahreyfing sem telur tugþúsundir verkamanna og að þar með sé réttlætanlegt fyrir yfirvöld að hraða öllum dómstigum til að koma ungum, breskum mönnum í fangelsi eins hratt og hægt er. Ég vil auðvitað ekki skemma partýið fyrir þeim sem vilja trúa á slíkar einfeldislegar útskýringar. Afsakið ef ég gerði það.

Eftir situr samt í mér sú hugsun að 1984 sé bók á sérhverju náttborði stjórnmálamanna og lesin eins og leiðbeiningabæklingur frekar en hrollvekjandi skáldsaga. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

1984 er ekki bönnuð í Kína.

Eitthvað til að hugsa um.

Ásgrímur Hartmannsson, 11.8.2024 kl. 17:13

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Skoðaði það aðeins. Það eru víst takmörk á notkun textans en bókin í heild sinni ekki bönnuð. Þeir eru að kenna okkur ýmislegt þessir Kínverjar um ritskoðun, því miður.

Geir Ágústsson, 11.8.2024 kl. 19:57

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Orwell lét sér reyndar ekki einu detta í hug að fara svo langt í pælingunni að við myndum einhverntíma taka öll upp á því sjálfviljug að ganga um með staðsetningarbúnað sem sendir upplýsingar um athafnir okkar í rauntíma og ekki aðeins til stjórnvalda heldur einkafyrirtækja. Enn síður sú fjarstæða að við myndum aðspurð veita samþykki okkar fyrir slíku.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.8.2024 kl. 20:44

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

*einu sinni*

Guðmundur Ásgeirsson, 11.8.2024 kl. 20:44

5 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Góður punktur hjá Guðmundi. Í bókinni Amusing Ourselves to Death heldur Neil Postman því fram að distópía Aldous Huxleys eigi betur við líf í nútíma neyslusamfélagi en distópía George Orwells vegna þess að hann Orwell spáði því að það sem við óttumst sigri okkur en Huxley spáði því að það sem við elskum sigri okkur. Að hans mati þarf engan Vondan kall til að kúga okkur, því við gerum það sjálf með því að gera bara það sem okkur finnst skemmtilegt og þægilegt  þangað til allt er á leið í svaðið. Við eru þrælar eigin langana og rugls. Postman skrifaði bókina áður er internetið og snjallsímar yfirtóku samfélagið. Núna er auðveldar en nokkru sinn fyrr að festast í neti eigin tiktúra, nautna og ranghugmynda. Það er svo þægilegt að láta allt eftir sér!

Wilhelm Emilsson, 11.8.2024 kl. 21:08

6 identicon

Nú sagðirðu svolítið sem kom mér á óvart. Hvaða friðsælu fjöldahreyfingu tilheyrir Tommy Robinson?

Grímur (IP-tala skráð) 11.8.2024 kl. 21:13

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Einmitt Wilhelm. Brave New World komst talsvert nær því að rætast en 1984, að minnsta kosti í hinum vestræna heimi. Orwell var sennilega frekar að sjá fyrir sér alræðisríki á borð við Kína eins og það hefur þróast.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.8.2024 kl. 21:37

8 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Nákvæmlega, Guðmundur. Orwell er ekki að fjalla um lýðræðisríki. Fólki hættir til að gleyma þessu. Hann er að vara við því hvað gerist í sósíalísku flokksræði. En sögusviðið er Vesturlönd, stórríkið Oceania. Kerfið heitir Ingsoc (English Socialism). Orwell var sósíalisti, eins og flestir vita, en hann var demókratískur sósíalisti, og dró lærdóm af þeim hryllingi sem "alræði öreiganna"--sem eru öfugmæli, því öreigarnir ráða engu í hinni sósíalísku Paradís"--hefur í för með sér. Fyrir bragðið var hann sakaður um svik við málstaðinn af sófakommum allra landa.

Wilhelm Emilsson, 11.8.2024 kl. 22:10

9 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Orwell byggði bókina á reynzlunni af spænsku borgarastyrrjöldinni, og áróðrinum sem var í gangi þar.  Hann komst að því að það var enginn munur á fasistunum og kommunum.  Eða "demókratískum sósíalistum," eða hvað sem menn vilja kalla þá alla.

Besta útgáfan af "Brave New World" sem hefur verið fest á filmu eru "Sex in the city" þættirnir.

Eiginlega alveg eins, nema fært til nútímans, eins og hann var fyrir ~20 árum.

Þetta er allt komið frá Rousseau og Marx, báðir hverjir húðlatir og hálf-geðveikir.

Meira fyrir Locke & Mill, persónulega.

Jafnvel Hobbes var skárri, en hann er fjandi nærri því að vera fasisti.  Samt ekki.  (Mussolini tæki það ekki í mál.)

Ásgrímur Hartmannsson, 11.8.2024 kl. 22:33

10 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Ásgrímur, Orwell byggir bókina að hluta til á reynslu sinni í spænsku borgarastyrjöldinni, þar sem hann hætti lífi sínu til að berjast við alvöru fasista, en hann dró aðalega lærdóm af Sovétríkjunum í heild sinni, ekki bara hvernig þau höfðu áhrif á borgarastríðið á Spáni. Bókina má einnig lesa sem sem ádeilu á öll alræðisríki.

Wilhelm Emilsson, 11.8.2024 kl. 22:45

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég þakka athugasemdirnar og líflega umræðu. 

Ég skrifaði fyrir ekki löngu síðan aðeins um það hvernig hægt sé að breyta tungumálinu og ná þannig fram hughrifum sem fá okkur til að samþykkja eigin kúgun. Það er þá væntanlega hin friðsæla leið til að ná tökum á hugsunum fólks, sem Orwell blandar svo við valdbeitingu Sovétmanna og nasista. En sennilega er það rétt að markmiðið sé að við elskum sigur yfirvalda á okkur sjálfum; við dælum einkalífi okkar í gagnagrunna sem síðan er beitt gegn okkur.

Það segir sína sögu að forstjórar samfélagsmiðlanna voru reglulegir gestir á skrifstofum bandarískra yfirvalda á veirutímum.

Geir Ágústsson, 12.8.2024 kl. 08:12

12 identicon

Strauthvörf í stjórnmálaumræðu eru mikil list. Nýlegt dæmi er að nota orðið "gullhúðun" um það athæfi íslenskra stjórnvalda að bæta aukinni neytendavernd, vinnuvernd og náttúruvernd við Evrópureglugerðir. Á þessu gekk í nokkra daga þangað til að þau föttuðu að gull hefur jákvæða tilvísun og fóru að tala um "blýhúðun". ...og já, já, það kostar fyrirtækin ábyggilega eitthvað að hugsa betur um fólkið sitt og náttúruna en oft er það þess virði.

En ég hef samt mestan áhuga á að fræðast meira um Tommy Robinson og þá friðsælu fjöldahreyfingu sem hann tilheyrir. Ég er nefnilega dyggur neytandi meginstraumsmiðlanna og þeim finnst hann ekki mikill friðflytjandi.

Grímur (IP-tala skráð) 12.8.2024 kl. 10:25

13 Smámynd: Geir Ágústsson

Grímur,

Besti byrjunarstaðurinn er X-reikningur Tommy sem ég vísa í. Skal svo reyna að skrifa meira um málið seinna.

Í olíu- og gasheiminum hefur lengi verið talað um gullhúðun og hún skilin sem dýr lúxus sem gerir ekkert nema hækka verð. Olíufélög eins og Total og Exxon voru raunar fræg fyrir slíka gullhúðun. En hrun á olíuverði í kringum 2010-2012 (man ekki alveg) breytti þessu, og það hratt, og menn fóru að leita að réttri línu fyrir kröfurnar og sérþarfirnar.

Geir Ágústsson, 12.8.2024 kl. 11:33

14 identicon

Gullhúðun er sömuleiðis þekkt hugtak í mínum geira og það er notað á sama hátt og þú ert að lýsa. En ráðherrar og samtök atvinnurekenda eru að nota orðið öðruvísi en hefðbundið er og það minnir mig á 1984.

En ég hlakka til að lesa pistilinn um Tony Robinson og þá friðsamlegu fjöldahreyfingu sem hann tilheyrir. Hann hefur gert nokkrar tilraunir til að safna fylgismönnum sínum saman síðan hann hætti í English Defense League sem hann gerði eftir að einhverjir meðlimir hreyfingarinnar voru dæmdir fyrir að skipuleggja hryðjuverk o.fl. í þeim dúr. En ég hef ekki heyrt að nein af þessum hreyfingum hafi innihaldið mikinn fjölda eða verið sérstaklega friðsamar.

Ég held að hann hafi snúið við blaðinu og sé hættur að rækta tengsl við hryðjuverkamenn en mér finnst enginn friðsemdartónn á X reikningnum hans. 

Eitt af því sem gerir honum erfitt fyrir við að sverja sig frá ofbeldisöldunni sem gengur yfir Bretlandseyjar er að margir af þeim sem hart ganga fram kalla nafnið hans og eru í bolum með myndum af honum, bera spjöld o.s.frv. En Tony Robinson hefur svo sem ekki lokaorðið um hvernig fólk kýs að skilja það sem hann segir frekar en aðrir.

Hér er listi yfir þá sem búið var að dæma fyrir þátttöku í óeirðunum sl. föstudag. Mér finnst fyndnast að lesa frásögnina um parið sem var blindfullt á leiðinni heim úr bingó og fannst það góð hugmynd að slást við lögguna.

https://news.sky.com/story/the-men-who-have-been-jailed-for-rioting-so-far-13193109

Grímur (IP-tala skráð) 12.8.2024 kl. 12:41

15 identicon

Ég sé að ég kallaði Tommy Robinson Tony Robinson í færslunni að ofan. Tony Robinson er leikarinn sem lék Baldrick í Black Adder.

En þú tekur vonandi viljann fyrir verkið...

Grímur (IP-tala skráð) 12.8.2024 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband