Þarf ekki að byrja ræða grundvallaratriði?

Umræðan um ríkisfjármálin er yfirborðskennd. Hún einkennist af því hvort hinn eða þessi útgjaldaliður eigi að stækka eða minnka. Hvort stofna eigi hina eða þessa stofnunina (aldrei um hvort hina eða þessa stofnun megi ekki leggja niður). Hvort einhver málaflokkur fái nægt fjármagn.

Aldrei er rætt um grundvallaratriðin, svo sem hvort ríkið eigi yfirleitt að stunda ákveðna starfsemi - hvort henni sé kannski betur borgið á hinum frjálsa markaði, gefið að einhver eftirspurn sé þá yfirleitt eftir henni.

Augljóst dæmi, sem nýlega var í umræðunni, er svokölluð jafnlaunavottun og allt hafurtaskið í kringum hana. Augljóslega þarf að afnema alla löggjöf í kringum hana og um leið allan opinberan rekstur í kringum hana. Málið leyst. Sé einhver eftirspurn eftir slíkri vottun þá mun markaðurinn leysa það eins og hann gerir í tilviki allskyns annarra vottana. 

Þarna sparast mögulega ekki nema nokkrir tugir milljóna af launafé skattgreiðenda, og einhverjar hundruðir milljóna af kostnaði fyrir fyrirtæki og þar með neytendur, en góð byrjun.

Síðan má auðvitað koma á raunverulegu viðskiptafrelsi. Það þýðir afnám tolla og allskyns annarra gjalda sem leggjast á inn- og útflutning. Opinberar stofnanir sjá þá í mesta lagi um að framkvæma eftirlit með handahófskenndum aðgerðum. Í dag er svo komið að vörur sem bera ekki toll eru strandaglópar hjá tollayfirvöldum svo mánuðum skiptir. Þetta þýðir að jafnvel ótollaður varningur þarf að bera einhvern annan kostnað vegna aðkomu yfirvalda. Getur ríkisvaldið ekki bara drullað sér úr veginum, alveg? Og skorið niður í útgjöldunum samhliða því?

Ég veit að Íslendingar eru almennt sáttir við að hið opinbera innheimti mikið af sköttum og noti svo til að styðja við allskyns hópa og niðurgreiða allskyns þjónustu. En þar með er ekki sagt að ríkið þurfi að sólunda mikið af þessu skattfé í óskilvirka starfsemi - í opinberan rekstur á allskyns stofnunum og stofum sem enda svo oftar en ekki á því að verða geymslustaður fyrir útbrennda flokksgæðinga eða vinkonuhópa ráðherra.

Á meðan ekki er rætt um grundvallaratriðin þá skiptir ekki máli hvað kjósendur kjósa. Þeir fá alltaf sömu niðurstöðu - flokka sem rífast um hvort ákveðið framlag úr ríkissjóði eigi að stækka eða minnka en ekki hvort þetta framlag eigi yfirleitt að vera til. 

Og þess vegna hafa Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn nokkurn veginn skipt um stóla þegar kemur að fylgi, og enginn sér muninn.


mbl.is Umræða um ríkisfjármálin verið á „villigötum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Bjarnason

Það er borin von að dregið verði úr ríkisútgjöldum. Ráðamenn landssins eru þeir verstu sem við höfum haft og stefna stíft að því að gera Íslendinga fátæka. Stanslausar árásir úr öllum áttum þangað til markmiðinu er náð. Hvers vegna er þetta svona??? Ég hlít að álykta sem svo að einhverjir erlendir aðilar stýri raunverlega landinu. Það er orðið þreytandi hvað samsæriskenningar mínar rætast oft. Ég kann engar skýringar á blindu landsmanna. Nú fáum við aftur samfylkingu.cry

Kristinn Bjarnason, 10.8.2024 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband