Fimmtudagur, 1. ágúst 2024
Fjármál í vinstri höndum
Í Morgunblaðinu í dag varar þingmaður Miðflokksins við afleiðingum þess að kjósa vinstrimenn til valda á Alþingi og vill meina að fordæmið sem hræði finnist í fjármálastjórn vinstrimanna í Reykjavík.
Bragginn og dönsku stráin, gjafagjörningar í bensínstöðvamálinu, þrengingar gatna og linnulausar atlögur að grænum svæðum eru ofarlega á afrekaskránni, sorphirðan og vetrarþjónustan, biðlistarnir á leikskólana, lóðaskorturinn, útþensla miðlægrar stjórnsýslu, hatrið á fjölskyldubílnum, meðferðin á Sundabrautinni, 100 milljarða froðan í reikningum Félagsbústaða, meðferðin á flæðisbætandi aðgerðum á stofnbrautum, árásirnar á Reykjavíkurflugvöll, samskiptin við borgarbúa þar sem sýndarsamráð virðist hafa verið tekið á enn hærra stig en hjá ríkisstjórninni.
Allt þetta er hollt að hafa í huga þegar mat er lagt á hvers sé að vænta verði Reykjavíkurmódelið yfirfært á landsstjórnina.
Sporin hræða nefnilega og af verkunum skulum við þekkja þá.
Undir þetta tek ég. Þessi orð minna á mín eigin í grein frá árinu 2007:
Íslenskar vinstristjórnir hafa í gegnum tíðina sýnt ákveðið munstur í stjórnarháttum sínum. Hangi þær yfirleitt saman þá ganga þær á lagið með skattahækkunum og óráðsíu í rekstri hins opinbera. Þær hafa sýnt ríka tilhneigingu til að þenja hið opinbera út með fjölgun verkefna og auknum fjárútlátum til þeirra sem fyrir eru. Eftir 16 ára hægri-miðjustjórn á Alþingi er hætt við að margir hafi gleymt raunveruleika íslenskrar vinstristjórnar. Reynslan úr Reykjavík sýnir að slíkt er óþarfi. Vinstrihneigð borgarstjórn er í fáum meginatriðum frábrugðin vinstrihneigðri landsstjórn. Eigi dæmið úr Reykjavík R-listans ekki að endurtaka sig á Alþingi Íslendinga er brýnt að atkvæði til vinstri leikvangs íslenskra stjórnmála verði sem fæst. Íslenskt samfélag á mikið undir því.
Ef við skilgreinum núverandi ríkisstjórn á Íslandi sem vinstristjórn (sem má alveg færa rök fyrir þrátt fyrir svolítið vein í nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokks) þá sé ég ekki betur en að orð mín frá 2007 hafi ræst nokkuð vel, því miður.
Það er algjör óþarfi að velta mikið fyrir sér hvað tæki við undir forystu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn. Handritið í ráðhúsi Reykjavíkur yrði sent í Stjórnarráðið og því fylgt eftir.
Það sýna dæmin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.