Er hægt að stöðva skattahækkanir?

Um daginn ritaði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, grein með heitið Skattastöðvun er skynsamleg. Greinin var dæmigerð fyrir íslenska stjórnmálaumræðu: Hógvær, orðuð varlega og forðaðist að nota sterk orð. Þó endaði hún á umfjöllun á athyglisverðu atriði: Skattastöðvun danskra yfirvalda á tímabilinu 2001-2009. 

Skatta­stopp borg­ara­flokk­anna fól í sér að horfið var frá öll­um fyr­ir­ætl­un­um um hækk­un skatta. Til­færsla á skatt­byrði var ekki úti­lokuð en rík­is­stjórn­in lofaði því að ef hún neydd­ist til að hækka ein­hvern skatt eða gjald, myndu tekj­urn­ar renna óskipt­ar til að lækka ann­an skatt eða gjald á móti. Hugs­un­in var sú að skatt- og gjalda­byrðin yrði ekki auk­in

Vitaskuld stóðu yfirvöld ekki alveg við skattastoppið en fasteignaeigendur muna þó eftir þessu tímabili sem tímabili fyrirsjáanlegrar skattheimtu á húsnæði - nokkuð sem er búið að raska töluvert í dag. 

Það segir sína sögu um íslensk stjórnmál að það sé ekki einu sinni hægt að ræða stöðvun á sjálfsvirkum skattahækkunum, eins og fasteignagjöldin eru dæmi um, án þess að vera eins langt til hægri og reykvískir kjósendur komast. Ekki er sópað meira eða lagt meira í viðhald innviða þótt fasteignaverð hækki og þar með skattheimtan. Ekki er peningunum eytt í betri sorphirðu, nema síður sé. Að það þurfi að benda sérstaklega á að skattar eigi að vera fyrirsjáanlegir en ekki á fleygiferð er magnað. 

Á meðan Reykjavík drukknar í skuldum og sækir í þróunaraðstoð í samkeppni við fátæka austur-evrópska bændur og saumakonur til að halda sér á floti er nokkuð annað á seyði í Argentínu. Þar kusu landsmenn yfir sig forseta sem beinlínis lofaði að minnka ríkisútgjöld og taka efnahaginn í áfallahjálp. Hann lofaði því að ástandið myndi versna áður en það myndi batna. Hann lofaði atvinnuleysi, hruni gjaldmiðilsins, rýrnun á sparnaði og fækkun opinberra starfa því tiltekt væri nauðsynleg til að horfurnar til lengri tíma gætu batnað.

Við þetta stóð hann og núna eftir 6 mánuði af sinubruna eru fyrstu sprotarnir byrjaðir að stingast upp úr sviðinni jörð. 

Með því að stunda heiðarleg stjórnmál í erfiðu ástandi hefur forsetanum líka tekist að halda sæmilega í stuðning kjósenda, en frá upphafi hefur um helmingur kjósenda staðið með honum og trúað því að til að lækna sjúkt hagkerfi þurfi sterk lyf sem bragðast illa.

Á Íslandi lofa stjórnmálamenn öllu fyrir alla og uppskera engan sérstakan stuðning fyrir vikið. Íslendingar, eða íslenskir stjórnmálamenn og hagfræðingar að minnsta kosti, halda að lækningin við timburmönnum sé að byrja að drekka aftur. Vissulega góð hugmynd á útihátíð en ekki endilega á virkum dögum. 

Þau eru mörg dæmin sem sanna að heiðarleg stjórnmál leggjast oft betur í kjósendur en loforðaflaumurinn. Að kjósendur kunni jafnvel vel að meta að við þá sé talað eins og fullorðið fólk frekar en krakka í nammibúð. Að þeir skilji jafnvel að það dugi ekki að safna endalausum skuldum á meðan viðhald er vanrækt og grænu og sjálfbæru jafnréttisskuldabréfin hrannast upp. 

Mætti biðja um heiðarlegan stjórnmálamann?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Bjarnason

Heiðarlegir stjórmálamenn eiga enga möguleika þess vegna eru þeir ekki í framboði. Fólkið kýs alltaf það sama aftur.

Kristinn Bjarnason, 27.7.2024 kl. 16:28

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Kristinn,

Það er rétt. Prófkjör og uppstillinganefndir flokkanna sía alla út áður en kjósendur fá að taka afstöðu. En ég held áfram að kalla á breytingar.

Geir Ágústsson, 27.7.2024 kl. 18:13

3 Smámynd: Birgir Loftsson

Milton Friedman sagði að peningastjórnun stjórnvalda væri megin ástæða verðbólgu og peningaprentun umfram verð mæti ávísun á bólgið hagkerfi. Verðbólga væru aukaskattar sem enginn hafi kosið um. Hann kom með frábær rök fyrir af hverju kreppan mikla 1933 hafi verið sök bandarískra stjórnvalda og rangar ákvarðanir framlengd hana fram til seinni heimsstyrjöld en stríðið leysti hana, ekki réttar ákvarðanir stjórnvalda. Demókratar réðu ríkjum á á þriðja áratugnum.

Ef þetta væri heimili, þá myndu hjónin spara(draga úr útgjöldum) og vinna meira til að eyða skuldir heimilisins. Sömu lögmál gilda um ríkið nema það getur kúgað aðra til borga fyrir óráðsíu sína. Það getur því haldið áfram endalaust að eyða efnum fram eins 34 billjóna dollara skuldir Bandarikjanna sannar.  Ríkið lærir því aldrei af reynslunni.

Birgir Loftsson, 27.7.2024 kl. 19:46

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Birgir,

Auðvitað er peningaframleiðsla uppspretta verðbólgu. Bara með því að auka peningamagn í umferð tekst að hækka verðlag á öllu - annars myndu verðhækkanir á einum lið draga úr möguleika neytenda á að eyða í aðra liði og almennt verðlag haldast óbreytt. 

Það er engin bremsa á yfirvöldum. Skuldabréfunum fjölgar í sífellu, og núna með allskyns nútímaleg heiti: Sjálfbær, græn, jafnréttismiðuð. 

Það vantar stjórnmálamenn sem eru hreinskilnir og segja við fulla unglinginn með bíllyklana að hann fái ekki meiri vodka og fái ekki að keyra fullur. Við tala timburmenn og lækkaðir vasapeningar. Aðeins þannig verði unglingnum komið til manns.

Geir Ágústsson, 28.7.2024 kl. 12:10

5 identicon

Er ekki hin klassíka kenning Keynes um samdrátt í ŕikisútgjöldum á tímum þenslu og aukningu á tímum samdráttar jafn góð og hún var á síðustu öld?

Ekki hefur laissez faire kenning Friedmans og annara frjálshyggjumanna skilað góðri niðurstöðu sbr. global meltdown 2008.

Bjarni (IP-tala skráð) 28.7.2024 kl. 13:28

6 Smámynd: Birgir Loftsson

Bjarni, þú ert að misskilja þetta. Ríkisútgjöldin eru alltaf of há, hvort sem er að ræða samdráttar eða þennslutímar. Aldrei er farið eftir kenningu Keynes.

Þú vitnar í Friedman og telur stefnu hans ranga varðandi 2008 (hann var þá látinn). Hann hefði aldrei farið þá leið sem þá var farin, svo segir nánir samstarfsmenn hans: https://www.econstor.eu/bitstream/10419/246488/1/2021-01.pdf 

Birgir Loftsson, 28.7.2024 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband