Miðvikudagur, 17. júlí 2024
Um pólitísk áhrif þess að gefa stefnuljós
Stefnuljós eru á öllum bílum og lög og reglur kveða svo á um að þau eigi að virka. Fyrir því eru margar góðar ástæður. Stefnuljós og önnur stefnumerki eins og handabendingar hjólreiðamanna stuðla að bættu flæði og auknu öryggi. Þau senda skilaboð til annarra sem vita þá hvort þeir eigi að hægja á sér, geti beygt eða megi reikna með því að geta haldið áfram á sama hraða. Stefnuljós og -merki segja: Ég ætla mér að breyta frá núverandi stefnu minni, eða ekki, og þú getur aðlagað þína vegferð að þeim upplýsingum.
Á sama hátt og stefnuljós og -merki veita upplýsingar þá er það að beygja án þess að gefa stefnuljós líka ákveðin upplýsingagjöf. Rangupplýsingar á tungutaki nútímans, og ígildi þess að segja: Þú þarft að bíða eftir því að sjá hvað ég geri áður en þú veist hvað þú getur gert. Þannig upplýsingar halda öðrum í gíslingu. Þeir þurfa að bíða aðeins lengur til að sjá hvað þú gerir frekar en að sjá áætlanir þínar og geta brugðist við þeim.
Í íslenskri umferð er mjög ríkt að gefa ekki stefnuljós, jafnvel ekki í þéttri umferð. Bílar hægja fyrirvaralaust á sér til að beygja. Þeir skipta um akreinar af miklum ákafa, án upplýsingagjafar til umhverfisins. Þeir sem ætla sér yfir gatnamót við hringtorg þurfa að bíða eftir því að hringtorgið tæmist til að vera vissir um að geta komist yfir enda engin merki gefin um hvort bílar ætli út eða að halda áfram. Hjólreiðamaður á Íslandi gefur aldrei stefnumerki. Umferðin er stefnumerkjalaus, nánast með öllu.
Það er í þessu samhengi að val íslenskra kjósenda, sem um leið eru ökumennirnir sem sleppa stefnuljósunum, verður skiljanlegt.
Það er enginn að leita að áætlunum til lengri tíma, eða einhverri stefnu annarri en hentistefnu. Stjórnmálamenn stinga upp á sköttum og stofnunum í gríð og erg án þess að neinn sjái heildarmyndina eða leiti að henni engin stefnuljós, bara fyrirvaralausar breytingar á akreinum. Stjórnmálamenn lesa skoðanakannanir til að móta stefnu sína. Fyrirtæki vita ekki hvort hið opinbera muni valta yfir hugmyndir þeirra eða hleypa þeim yfir gatnamótin við hringtorgið. Þau þurfa að taka áhættuna því streymi stjórnmálamanna og stofnana stöðvast aldrei. Og þetta er einfaldlega talið eðlilegt.
Þjóð sem gefur ekki stefnuljós þarf ekki stefnumörkun og spáir ekki í flæðinu í umferðinni eða öryggi vegfarenda. Þeir sem voga sér í umferðina og treysta á stefnuljósin eru í stórhættu telja að það gildi skrifuð og óskrifuð lög sem má treysta á til að komast áleiðis en engin slík lög eru að lokum í framkvæmd.
Ég legg til að íslenskir öku- og hjólreiðamenn þrói með sér þann góða, auðvelda og sjálfsagða vana að gefa stefnumerki af öllu tagi í sem víðustu samhengi. Mögulega hefur það þau áhrif að þeir fari að krefjast þess sama af yfirvöldum. Þá geta menn á ný farið yfir gatnamót hagkerfisins og samfélagsins án þess að þurfa bíða eftir sumarleyfi hins opinbera og tómum hringtorgum í kerfinu.
Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Blessaður Geir.
Þú ert þarna djúpur, líklegast skilja þig mjög fáir, eða enginn.
Breytir því samt ekki að á baki dýptarinnar eru augljós sannindi, gerðu sömu kröfur til stjórnvalda og þú gerir í umferðinni.
Það sem truflar mig hinsvegar er myndruglið, á síðu Moggans var eins og þú hefðir ekki elst í 30 ár eða svo, hérna þykist þú bæði vera laus við skegg og rautt hár.
Þetta kallast upplýsingaróreiða Geir.
Og þess vegna treystum við á meinstrím fjölmiðla, ekki skáldskapinn sem þú vitnar svo oft í.
Því þú getur gert athugasemd við það sem rangt er farið með hjá meinstríminu, en þú rífst ekki við skáldskap, þú nýtur hans hins vegar líkt og þegar þú lest grínveituna sem kennir sig við Frétt.
En það skýrir samt ekki myndruglinginn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.7.2024 kl. 16:15
Sæll Ómar,
Hér er um mánaðargömul mynd af mér. Er hún til bóta?
https://www.instagram.com/p/C77cQp_A58R/?igsh=MW5wYW5xYXhva2NlYQ==
Geir Ágústsson, 18.7.2024 kl. 16:52
Þegar ég var að byrja að' keyra í RKV fyrir mörgum árum, þá varð ég að venja mig af því að nota stefnuljós, vegna þess að þau virtust vera einskonar merki til fólks um að koma sér fyrir við hliðina á mér.
Fældi að minnsta kosti einn út af: sá að það var enginn bíll, gaf stefnuljós, beygði, og einhver bölvaður hálfviti ók upp á miðkaflann til að forðast árekstur, flautandi eins og mongólíti.
Ásgrímur Hartmannsson, 18.7.2024 kl. 19:32
Enda ert þú meinstrím Geir, bregst við og lagar upplýsingaróreiðuna.
Svo skal ég reyna að gefa stefnuljós í umferðinni.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 19.7.2024 kl. 06:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.