Ekki í mínum bakgarði (NIMBY)

Aðspurðir segja Íslendingar, og Evrópubúar flestir, að það sé mikilvægt að takmarka og jafnvel stöðva losun á koltvísýring í andrúmsloftið til að breyta veðrinu. Þetta segja þeir um leið og þeir vilja hagkvæma orku, hagkvæmar og nothæfar umbúðir, hagkvæmt eldsneyti, ódýr föt, ódýr ferðalög og matvæli sem fólk hefur efni á að kaupa, og hafa helst svolítið næringargildi.

En hvað þýðir það að játast þeirri kirkju sem boðar útrýmingu eða verulega skerðingu á koltvísýringslosun manna? Þessari kirkju sem flestir segjast tilheyra.

Dauði mannkyns? Kannski, en ekki endilega.

En tvímælalaust að stór flæmi af landi og sjó þurfi að tileinka orkuframleiðslu, svo dæmi sé tekið. Eitt kolaorkuver, sem fyllir nokkra hektara, er ígildi vindmyllugarðs sem fyllir fleiri hundruð hektara. 

Það blasir líka við að ekki verður öll losun stöðvuð ef við viljum halda í lífskjör okkar og nothæfa hluti. Við viljum til dæmis nota sement, sem er framleitt með ferlum sem losa mjög mikinn koltvísýring.

Hvað er þá til ráða?

Eitt ráð er að fanga losunina á koltvísýringnum og farga með því að dæla honum ofan í jörðina. 

Farga, hvar?

Ýmsar lausnir eru í deiglunni, sumar nýstárlegri en aðrar. Ein er sú að dæla koltvísýring í tómar gas- og olíulindir, eða önnur svæði neðanjarðar sem gætu haldið í koltvísýringinn. CarbFix býður upp á mjög aðlaðandi lausn, að mati iðnaðarins, þar sem koltvísýringurinn breytist fljótlega í grjót. Það útrýmir lekahættu sem er annars mikið rætt um í þessu samhengi.

Allir fylgismenn kolefniskirkjunnar hljóta að styðja þessa vegferð, ekki satt?

Nei, aldeilis ekki.

Kynnum til leiks hugtakið Not in My Backyard, eða NIMBY. Á íslensku: Ekki í mínum bakgarði.

Þar kvarta fylgismenn kolefniskirkjunnar yfir öllum þeim úrræðum sem þarf til að koma á boðskap hennar ef þau eru í bakgarði þeirra. Minnkun á losun? Já, frábært! Með notkun á bakgarði mínum? Nei takk!

Þeir vilja ekki búa við hliðina á vindmyllu eða svæði þar sem koltvísýring er dælt niður í jörðina. En þeir játast samt kolefniskirkjunni. 

Út úr þessari holu eru tvær leiðir: Að yfirgefa kolefniskirkjuna eða sætta sig við að kirkjan þarf á bakgarði þínum að halda. Hún þarf mikið af plássi, bæði ofan- og neðanjarðar. Hún þarf stór flæmi lands fyrir stór mannvirki. 

NIMBY er vel þekkt hugtak í áhættugreiningu á verkefnum. Á Íslandi hefur lítið farið fyrir því enda fer orkuöflunin aðallega fram úti á landi, fjarri mannabyggðum. En kolefniskirkjan þarf bakgarð þinn. Hvað viltu gera í því?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einkennig röksemdarfærsla.  Er einhver skortur á stóru landflæmi á Íslandi?

Er einhver ástæða til að vera með þessa starfsemi nálægt íbúabyggð þegar 90% landins er í meiri en 100 km fjarlægð frá næsta sveitabæ?

Bjarni (IP-tala skráð) 11.7.2024 kl. 16:24

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Bjarni,

Það er margt við meðhöndlun á koltvísýringi (sérstaklega á vökvaformi) sem fer að kosta mjög mikið þegar fjarlægð við höfn eykst. 

Geir Ágústsson, 11.7.2024 kl. 16:30

3 identicon

Tek undir með þér. Ekki í mínum bakgarði!!.Við á vesturlöndum blásum okkur út og berjum okkurá brjóst. Digrar ræður haldnar um losun koltvísýring. Allir á rafmagn.Svo framalega sem það snerti ekki okkar bakgarð þá er þetta í lagi. Eða þannig.Hræsnin er svo mikil að manni ofbýrður. Besta í þessu að þessu er silgt yfir heimshöfin á olíu með koltvísyring. Von að maður er orðin ruglaður.

Guðrún B Halljörnsdóttir (IP-tala skráð) 12.7.2024 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband