Þriðjudagur, 25. júní 2024
Bandarískir hagsmunir ofar öðrum
Senn líður (vonandi!) að því að Julian Assange sleppi loksins úr frelsissviptingu.
Senn líður (því miður!) að því að hermenn NATO-ríkja labbi yfir landamæri Úkraínu til að hefja beint þar stríð við Rússa. Hver veit, kannski tortímist í kjölfarið heimurinn.
Það er alveg hreint magnað hvað hagsmunir bandarískra yfirvalda (ekki almennings!) ráða oft mikið för í Evrópu og víðar. Ef bandarísk yfirvöld vilja tortíma bændum og hirðingjum einhvers staðar í heiminum þá hlaupum við á eftir slíkum markmiðum. Ef þau vilja stöðva vinnu einhvers blaðamanns eða grafa í djúpan kjallara uppljóstrara sem deilir ólöglegum njósnaverkefnum þá hjálpar heimurinn þeim að elta uppi fólk og loka inni. Tefur það kannski aðeins að framselja, en samt.
Nú má vel vera að okkur líði vel undir pilsfaldi Bandaríkjanna. Þau hafa jú vissulega verið skárri herra en margir aðrir. En er það að breytast, eða er löngu breytt? Eftir stanslaus stríð í áratugi er Bandaríkjunum að takast óþarflega vel að kljúfa einn heim upp í tvo og horfa svo upp á hinn helminginn þétta raðirnar. Markmið bandarískra yfirvalda eru kannski ekki lengur okkar markmið.
Kannski mun frelsun Assange breyta einhverju. Efla kjark einhverra. Það á eftir að koma í ljós. En honum tókst að sleppa úr klóm bandarískra yfirvalda. Á meðan stefnir í að ungir karlmenn í Evrópu endi sem lík á sléttum Úkraínu. Getur Evrópa gert það sama og Assange?
14 ára frelsissviptingu ljúki á næstu 24 klst. | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.