Sunnudagur, 16. júní 2024
Orka sem kallar á orku
Virkjun vindorku á sér langa sögu og á seinustu árum er búið að svo gott sem fullkomna tæknina, þ.e. þá nýtni sem hægt er að ná út úr virkjun vindorkunnar. Sjálfsagt er að reyna afla eins mikillar orku og hægt er því orka er uppspretta góðra lífskjara. Yfirvöld sem átta sig ekki á því eru mannfjandsamleg.
Þar til menn hafa áttað sig á því að kjarnorka er í raun besta leiðin til að afla orku þá hamast þeir í allskyns valkostum við hana, svo sem að virkja vind og vatnsföll, brenna kolefnisrík (eða -snauð) hráefni og bora holur í jörðina til að fá aðgang að hita og þrýstingi. Sumar tegundir orkuöflunar taka lítið pláss, en þær leiðir sem kallast endurnýjanlegar, eða sjálfbærar, taka mikið pláss. Uppistöðulón hafa lengi verið bitbein í íslenskri umræðu eða þar til þau myndast og mynda vinir í eyðirmörkum. Háspennulínurnar eru óvinsælar þótt skortur á þeim þýðir mikið af tapaðri orku - orku sem þó náðist að framleiða en kemst ekki á leiðarenda.
Inn í þessa umræðu er núna skyndilega talað um að virkja vind í stórum stíl á Íslandi. Vindorka er orka sem krefst orku - hún er ekki alltaf til staðar og þeir sem treysta á hana þurfa að njóta varaafls þegar vindurinn blæs ekki. Kannski slíkt fyrirkomulag geti þýtt að hægar gangi á uppistöðulónin, en um leið þýðir það að hvert megavatt af vindorku þarf að eiga sér hliðstæðu í stöðugri orkuuppsprettum. Þetta vita Danir sem kaupa vatnsafl af Noregi þegar er logn í Danmörku, en geta svo sent vindorku til Noregs þegar vel blæs - orku sem Norðmenn nota til að dæla vatni upp í uppistöðulónin. Norðmenn selja þannig dýrt rafmagn til Danmerkur og kaupa það svo ódýrt aftur.
Andstæðingar háspennulína hljóta að vera missa svefn þessi misserin yfir tilhugsuninni um 200-300 metra háa háværa turna sem þarf að tengja með öflugum vegum með mikið burðarþol og sem saxa sig í gegnum óbyggðirnar. Rafmagnskapla þarf svo auðvitað að grafa í jörðina til að tengja hvern einasta turn við spennuvirki.
Það eru næg tækifæri til að virkja meira vatnsafl á Íslandi með litlu raski og minniháttar mannvirkjum. Sjálfsagt er að moka frá þeim hindrunum sem yfirvöld hafa reist til að koma slíkum virkjunum á koppinn. Hið sama gildir um jarðvarma þótt menn staldri að vísu aðeins við núna þegar virk eldgosakerfi eru gerð að mikilvægum innviðum.
Mögulega er olía undir hafsbotni í landhelgi Íslands. Hana ætti að sækja.
Allt er þetta - vatnsaflið, jarðvarminn, olían - orka sem stendur undir raforkukerfi og kallar ekki á varaafl til að leysa sig af. Að ætla sér að byggja upp orkuöflun sem kallar á orkuöflun er mögulega sniðugt þegar aðstæður eru réttar og mönnum er sama um ásýnd landslagsins, en annars ekki.
3.300 MW í vinnslu fyrir vindorkuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:30 | Facebook
Athugasemdir
Ógn og skelfing, hræðsla manna við logn á Íslandi hefur aldrei verið meiri. Og nú er svo komið að mælt er gegn verðmætasköpun því hún gæti mögulega stöðvast einhverjar klukkustundir á hverjum áratug.
Vagn (IP-tala skráð) 16.6.2024 kl. 22:20
Það var eitthvað danskt fyrirtæki sem var að þróa skip með kjarnaofnum sem væri hægt að leggja í höfn og koma með orku. Væri mikið skynsamlegra
Emil (IP-tala skráð) 16.6.2024 kl. 23:01
Logn er auðvitað ríkjandi á Íslandi þó annað slagið blási þá heyrir það til undantekninga.
Annars er lausnin lítið kjarnorkuver á hálendinu þar sem nóg er af kælivatni, engin byggð og engir ferðamenn. Það nær auðvita engri átt að æra ósöðuga að þurfa að líta mannvirki útum stofugluggann.
Þá gætum við brotið niður Kárahnjúkavirkjun og drekkt Stuðlagili, þeim óskapnaði.
Bjarni (IP-tala skráð) 17.6.2024 kl. 01:07
Það er eitthvað svo krúttlegt við atvinnuuppbyggingadrauma Íslendinga. Núna er það vindorkan sem á að bjarga öllu og þá þarf ekkert minna en 33ooMW til að uppfylla blautustu draumana. Ég er nógu gömul til að muna frystitogara við hvern bryggjusporð og minnkabú á hvern bæ. Í dag eru það túristarnir sem koma til að njóta víðáttunnar. Skyldu Gullfoss, Geysir og Jökulsárlón hafa sama aðdráttaraflið umgirt þessum hvítu rísum?
Ragnhildur Kolka, 17.6.2024 kl. 10:03
Það virðist svo vera þörf á að minna á að svona vindmyllur þurfa ekki bara lágmark af vindhraða heldur er líka á þeim hámark þegar þarf að bremsa þær.
Geir Ágústsson, 17.6.2024 kl. 10:41
Talandi um hámarksvindhraða sem vindmyllur geta þolað, verður mér alltaf hugsað til frásagna á borð við þessar:
Fárviðrið 15. janúar 1942 - trj.blog.is
"Vindmælir var einnig á herflugvellinum í Kaldaðarnesi við Selfoss - en hann fauk."
Pistill bæjarstjóra 25. nóvember 2022 – Mosfellsbær
Vindmælir á Varmárvelli í Mosfellbæ fauk um koll árið 1990.
Hús rýmd, þök laus og rafmagn farið
7. desember 2015. "Uppfært kl. 20:02: Kastljós greindi frá því rétt í þessu að vindmælirinn á Stórhöfða væri fokinn."
Vindmælir fauk í Öræfum
28. mars 2018. "Leiðsögumaðurinn Ólafur B. Schram var á ferð í Öræfasveit þegar á vegi hans varð vindmælir sem hafði fokið."
SNÖGGIR AÐ GERA VIÐ
21. desember 2019. "Í óveðri í fyrradag, fauk vindmælirinn í Sandfelli í Öræfum."
22. febrúar 2022 Vindmælirinn fauk út í veður og vind
„... þegar við vorum komnir inn á Seyðisfjörð gerði snarvitlaust veður. Vindmælirinn hjá okkur á skipinu sýndi 40 metra og síðan fauk hann líklega af skipinu en við erum að fara að kanna það.“
Vindmælir er í raun bara lítil vindmylla, gjarnan fest á nokkuð sterkar undirstöður, en samt geta slíkar vindmyllur fokið um koll í allra verstu veðrum. Raforkuvindmyllur eru miklu stærri mannvirki og stólparnir sem þær standa á eru hlutfallslega ekki nærri eins voldugir ef tekið er tillit til þess hversu miklu stærri kraftar eru þar að verki.
Þess vegna fæ ég alltaf áhyggjur af því þegar hugmyndir heyrast um að reisa stóra vindmyllugarða á Íslandi, hvernig þeim muni farnast í vindstyrk á við fellibyl eins og er algengur í slæmu hvassviðri hér á landi. Ætli þær myndu ekki bara brotna eins og tannstönglar við slíkar aðstæður?
Hér er tengill á ansi magnað myndband frá Iowa ríki Bandaríkjanna þar sem skýstrokkur sést fella hverja raforkuvindmylluna á fætur annari:
THE MOST INCREDIBLE TORNADO VIDEO EVER CAPTURED - YouTube
Þetta er vissulega öðruvísi veðurfyrirbæri en íslenska hvassviðrið, en myndbandið gefur samt ákveðna um hugmynd um hvernig fer fyrir svona vindmyllum í meiri vindstyrk en þær eru hannaðar til að þola.
Guðmundur Ásgeirsson, 17.6.2024 kl. 17:20
Vagn, afhverju ættum við að leyfa "verðmætasköpun" fyrir erlend stórfyrirtæki sem mun stórhækka rafmangsverð hér á fróni. Plastmengun af þessari svokölluðu verðmætasköpun er alveg svakaleg, síðan þegar búið er að raka inn öllum gróðanum og flytja hann út þá þurfum við að borga fyrir það að fjarlægja ruslið þegar félagið hefur verið sett á hausinn, vel þekkt strategía hjá þessum félögum sem standa í þessu.
Er ekki komið nóg af stórfyrirtækjum sem vaða yfir land og þjóð á skítugum skónum til að græða pening!
Halldór (IP-tala skráð) 18.6.2024 kl. 10:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.