Eru öll atkvæði í forsetakosningunum töpuð?

Ég var að renna yfir svör frambjóðenda til embættis forseta Íslands á spurningum RÚV og gat ekki varist að hugsa: Eru öll atkvæði í þeim kosningum töpuð atkvæði?

Annaðhvort af því frambjóðendur sem hafa eitthvað fram að færa eru ólíklegir til að ná kjöri, eða af því að líklegustu frambjóðendurnir munu breyta embættinu í gagnslausa undirskriftaverksmiðju.

Tökum sem dæmi spurninguna (eða fullyrðinguna): Forseti Íslands á öðru fremur að hafa það hlutverk að sameina þjóðina.

Í hverju? Um hvað? Af hverju? Þetta er ekki ákvæði í stjórnarskrá. Enginn forseti hefur sameinað þjóðina nema með því að hvetja fólk til að mæta á völlinn þegar einhverju landsliðinu gengur vel. En allir frambjóðendur, nema tveir, gefa þessari fullyrðingu tíu af tíu mögulegum. 

Aðeins neðar á spurningalistanum er svo þessi gullmoli: Eitt helsta hlutverk forseta Íslands er að vera öryggisventill þjóðarinnar gagnvart ákvörðunum stjórnmálamanna.

Eða með orðalagi stjórnarskrár lýðveldisins Íslands

Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

Þessari fullyrðingu eru flestir frambjóðendur ekki afgerandi sammála, þar á meðal flestir þeirra efstu í skoðanakönnunum. Hvernig stendur á því?

Eftirfarandi fullyrðing fær svipaðar móttökur: Forseti Íslands og ríkisstjórnin eiga að tala einni röddu á alþjóðavettvangi.

Sem betur fer ekki! Á tímum Icesave talaði forseti alveg þvert á ríkisstjórnina og var eini málsvari íslensks almennings í útlöndum. Vonandi er sjaldgæft að slíkt þurfi, en stundum nauðsynlegt, og í embættinu þarf að vera einhver sem skilur það.

Aðrar spurningar (fullyrðingar) skipta minna máli. Auðvitað spyr RÚV um hlutverk forseta til að ná svokölluðum loftslagsmarkmiðum, og auðvitað gefa flestir frambjóðendur því tíu, og er þá hringleikahúsið fullkomnað. 

Þegar ég lít yfir svör frambjóðenda og svo þessar skoðanakannanir þá er freistandi að draga þá ályktun að öll atkvæði séu töpuð. Frambjóðendur sem hafa sýnilega lesið stjórnarskránna mælast lágir, þeir sem telja embættið vera hlutverk veðurguðsins, sem stjórnar veðrinu, mælast háir.

Á Bessastaði sest því ekki manneskja sem ætlar sér að vera málsvari almennings og öryggisventill gagnvart heilaþvegnum þingheimi heldur tannhjól í því færibandi sem þingið er orðið fyrir erlendar tilskipanir.

Öll atkvæði töpuð.

Auðvitað hvet ég samt alla til að kjósa. Skoðanakannanir gætu mögulega verið hannaðar eða sífellt að hamast á sama úrtaki í heimi þar sem sífellt færri samþykkja handahófskennd símtöl eða hafa skráð sig á sérstaka lista til að taka afstöðu til ýmissa mála. Kannski er undiralda sem fjölmiðlamenn í fílabeinsturnum eru ekki hluti af, enda blaðamenn. Hver veit! 

En þá geta menn kosið því það er gaman að mæta á kjörstað, velja sinn fulltrúa, og snúa svo heim í sorpið sem þarf að flokka í tíu tunnur, skatta sem enginn skilur og fjármögnun á vopnakaupum til að þjónkast utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Lýðræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Sæll Geir;  Stöðluðu spurningunum svöruðu ekki allir eins í kvöld, en einræður hvers þeirra vikurnar áður innihéldu talsverðar ádeilur á stjórnarhætti; mest vegna óupplýstra aðgerða oft fjárstuðningi til erlendra þjóða sem V/forsetar sögðust myndu skipta sér af.                                          En forseta frambjóðendur svöruðu allir nema einn sá yngsti þeirra að Israelar væru sekir um þjóðarmorð á Múslimum,.Hann þekkir söguna drengurinn og þá um leið hve miðlar halla nær alltaf réttu máli í hverjum fréttatíma.hreint ólýðandi.  

Helga Kristjánsdóttir, 1.6.2024 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband