Föstudagur, 31. maí 2024
Leiðir til að ónáða almenna borgara að óþörfu
Yfirvöld beita ýmsum ráðum til að ónáða almenna borgara. Flókið skattkerfi er mögulega þekktasta leiðin. Hið opinbera gæti hæglega einfaldað skattkerfið, fækkað skattþrepum, lækkað bæði skattheimtu og kostnað við skattheimtu, og fengið það sama, eða meira, úr krafsinu. En auðvitað er tilgangur skattkerfisins ekki að afla hinu opinbera tekna.
Annað dæmi og nýlegra er krafa um að fólk flokki heimilissorpið. Þetta er gert með sífellt ágengari hætti og nú er svo komið að margir losna einfaldlega ekki við sorpið. Það er jú markmiðið. Að vísu stangast það á við það markmið yfirvalda að taka bílinn af fólki enda er heimilisbíllinn sífellt meira notaður til að keyra um bæinn með rusl og reyna að finna stað til að losna við það, en kannski er mótsögnin búin til viljandi. Til að valda óþægindum.
Flokkun á sorpi er eitthvað sem einfaldlega allir eru svo hjartanlega sammála um. Svo mjög, að stjórnmálamenn hafa víða skrifað inn í lagatexta hvernig sú flokkun skuli eiga sér stað. Danska dæmið er mér vel kunnugt: Dönsk lög segja að það sé ekki bara krafa að flokka rusl, heldur að heimilin þurfi að standa í þeim óþverra. Sjái einhver betri leið til að flokka sorp, svo sem í vélvæddum móttökustöðvum þar sem vélmenni flokka margfalt betur en við sauðsvartur almúginn, þá er það hreinlega bannað með lögum.
Á Fjóni í Danmörku eru sveitarfélögin komin á afturlappirnar og vilja breytingar á slíkum lögum. Þau vilja bjóða borgurum sínum upp á stórar tunnur sem taka við öllu sorpi sem síðan er flokkað miðlægt. Baráttan stendur enn yfir, og á meðan lifa þessi sveitarfélög á undanþágum frá löggjöfinni. Undanþágum sem fyrr eða síðar verður hætt að veita.
Ég skil þetta. Ég skil að í höfði kjörins fulltrúa - mannfræðings, bókasafnsfræðings, lögfræðings - blundi lítill alræðisherra sem telur sig geta ekki bara skilgreint ákveðin takmörk heldur líka leiðirnar til að ná þeim. Þeir eru jú kjörnir fulltrúar. Þeir hafa umboð! Þeir eru vel lesnir, klárir og lausnamiðaðir einstaklingar.
En þeir eru líka til vandræða og flækjast fyrir.
Nema þeir vilji einfaldlega ónáða almenna borgara. Þennan sauðsvarta almúga sem skilur ekki hamfarahlýnun og hverjir eru góðu og vondu kallarnir á alheimssviðinu.
Er það kannski líklegri útskýring á framferði þeirra?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:46 | Facebook
Athugasemdir
Heimska eða illska, erfitt að sjá hvort stundum.
En í heildina grunar mig um að hér séu ill plön á bakvið, máli mínu til stuðnings hef ég að svona er þetta gert um allan hinn vestræna heim, alveg eins.
Best er þá, held ég, að henda sorpinu beint í garð þeirra sem fara með valdi hverju sinni.
Ásgrímur Hartmannsson, 31.5.2024 kl. 20:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.