Þrasið víkur fyrir vinnu

Enn eitt eldgosið er hafið á Reykjanesskaga. Vinnuvélar eru ræstar, fólki er komið í skjól og hugað er að innviðunum. Þrasið víkur fyrir vinnunni sem þarf að vinna.

Neyðarástand virðist vera góð leið til að rífa Íslendinga út úr fundarherbergjunum og inn í raunveruleikann. 

Nema stundum.

Það er til dæmis ennþá orkuskortur á Íslandi og enginn að gera neitt í því. Engin útboð í gangi, engin virkjun í smíðum. Menn sitja ennþá sem fastast í fundarherbergjunum. 

Innviðirnir eru víða í molum eða sprungnir. Mögulega er bara ein brú í smíðum á Íslandi, og sú er komin vel á eftir áætlun. Holur í götum, þrengsli, tafir og raðir, en ekkert gerist. Rafmagn sem þó er framleitt er sent í sjóinn því flutningsnetið er of veikt. Menn eru óðum að skipta úr notkun á rafmagni yfir í notkun á olíu - hin íslensku orkuskipti.

Ónefnd eru svo mygluðu húsin, skólpið í sjónum og aldraða fólkið á göngudeildum sjúkrahúsa. 

En eldgos duga til að fara í lausnir. Neyðin er samt víðar og jafnvel meiri. 

Þarf kannski að kveikja í fundarherbergjunum til að koma mönnum út úr þeim og í stígvél og vinnuhanska?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Veistu  það Geir.

Þessi pistill þinn, eins raunsannur og átakanlegur og hann er, er eitt það besta sem ég hef lesið óralengi.

Ekki að ég hafi ekki áður lesið, eða sjálfur reynt að skrifa um hnignun innviða, en extra kryddið var lokasetning þín, og verður þá að skoðast í samhengi þess sem kveikti á pistli þínum, það er að þegar á reynir, þá getum við þetta.

"Þarf kannski að kveikja í fundarherbergjunum til að koma mönnum út úr þeim og í stígvél og vinnuhanska?".

Svo ert þú sagður á jaðrinum og einhvern tímann leit ég þannig á þig Geir, hef það samt mér til afsökunar að ungur fór ég að heiman til að lemja á skrímslinu eina, frjálshyggjunni.

Samt fyrir löngu bæði dús við þá staðreynd, sem og hverjar rætur þínar eru.

Heiðskýr hugur og djúp skynsemi skrifar svona pistil.

Hafðu þökk fyrir hann.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.5.2024 kl. 17:46

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Já, við Íslendingar höfum aldrei vaxið upp úr vertíðavinnunni. Sem betur fer. Takk fyrir pistilinn, Geir.

Ragnhildur Kolka, 29.5.2024 kl. 18:20

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Ómar,

Takk fyrir innlitið og vinsamleg orð. Maður hlýtur að spurja sig að því hvort almenn skynsemi hafi vikið fyrir nefndum, fundum, reglugerðum, tilskipunum og ímyndaðri umhyggju fyrir umhverfinu. Það er eins og að núna þurfi 10 opinbera starfsmenn og áratug til að stimpla á eytt leyfi sem áður var afgreitt af einum starfsmanni á mánuði. Ekkert er þá eftir af upphaflegri hugsun og allt snýst um að geta klárað eyðublaðið.

Nei, ég segi svona.

Ég nefndi ekki að það sem þó ert framkvæmt virðist vera framkvæmt á versta mögulega vel: Spítali flæktur inn í miðja umferðastífluna við Vatnsenda, Sundabraut sem þjónar bara broti af þeim fjölda sem þarf á henni að halda eða gæti notið góðs af henni, almenningssamgöngur sem fæla fólk frá eftir því sem þær sjúga til sín meira fé, og svona mætti lengi telja.

Þú vilt kannski ekki heyra á slíkt minnst, en má ekki draga Davíð Oddsson út af skrifstofu Morgunblaðsins og tímabundið í stöðu þar sem er hægt að rétta úr kútnum?

Ragnhildur,

Takk fyrir innlitið. Já, mikið rétt, það þarf að synda þorskur framhjá Íslendingi til að koma honum í vinnugallann, nú eða að eldgos eða skriðuföll dynji á. Þá er hægt að "redda" hlutum, án pappírsvinnu.

Geir Ágústsson, 29.5.2024 kl. 19:50

4 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þegar amma og afi byggðu sér hús, þá var haft samband við Helga Hó, og hann skoðaði teikninguna, samþykkti hana, og fylgdist svo með með öðru auga á meðan þau smíðuðu húsið, og aðstoðaðai ef með þurfti.

Það kostaði ekkert mikið.

Nú þarf að hafa samband við fullt af allskyns liði sem hefur enga ekkingu á neinu nema kannski minesveeper eða TikTok, og það mun kosta milljónir í leyfi og akstur á milli stofnana áður en fólk getur svo mikið sem íhugað að kíkja í Byko.

Græðgi yfirvalda er endalaus, og enn þenst þetta bákn út með meiri kostnaði á hverjum degi.

Þetta endar eingöngu með ósköpum.  Ekki með sprenginu, heldur hægri, sársaukafullri rotnun á löngum tíma.  Og fáir gera sér grein fyrir hvers vegna allt versnar með tímanum.

Ásgrímur Hartmannsson, 29.5.2024 kl. 20:48

5 Smámynd: Höfundur ókunnur

Flottur pistill Geir, flott.

Það sem meira er, þessir varnargarðar eru snilld. Fyrir þá eiga stjórnvöld skilið hrós. Það gleymist oft að hrósa þegar vel er gert, þetta gildir á Alþingi líkt og annars staðar. Núna á ríkið (m.ö.o. við öll) fullt af húsnæði í Grindavík sem við þurfum að sjálfsögðu að gæta að. Líklega kemur sá tími að þetta verður nothæft á nýjan leik, kannski aftur í 800 ár. Því er til mikils að þetta fari ekki undir hraun.

Við getum þetta þegar á reynir.

Höfundur ókunnur, 29.5.2024 kl. 22:48

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Ég skal íhuga þetta með Davíð.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.5.2024 kl. 06:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband