Þriðjudagur, 21. maí 2024
Samsæriskenningar fjölmiðla
Það er erfitt að skilja alla umræðu um Rússland. Einn daginn eru þeir að tapa í stríði, þann næsta að sækja fram. Þeir eru ýmist á kúpunni eða að raka inn seðlum. Eina stundina eru þeir óskipulagðir, þann næsta að eyðileggja evrópska innviði án þess að skilja eftir sig nein sönnunargögn. Þeir eru vinalausir en samt í fararbroddi samtaka sem hafa ekki undan að taka við nýjum meðlimum.
Auðvitað fer margt í gegnum fingur forsetans þar í landi, oft vafasamt, glæpsamlegt og hrottafengið, en slíkt er hvorki einsdæmi né í mörgum tilvikum fréttnæmt miðað við margt annað sem fer fram í heiminum.
En tökum dæmi, sem stendur mér að sumu leyti nærri: Eyðilegging á gasleiðslu á milli Eistlands og Finnlands, hin svokallaða BalticConnector gasleiðsla. Hún var byggð árið 2019 og hleypir svolitlu gasi á milli ríkjanna tveggja. Þegar hún rifnaði vegna akkeris þá slokknaði ekki á einu ljósi í hvorugu landi. Gasverð hækkaði kannski, staðbundið, til skamms tíma. 6 mánuðum seinna var búið að laga leiðsluna.
Myndi Rússland, eða Kína ef því er að skipta, virkilega leggja á sig háleynilega aðgerð til að framkvæma svona algjörlega áhrifalaust skemmdarverk og hætta öllu í leiðinni? Hætta á hefndaraðgerðir? Á fordæmingu?
Miklu líklegra er að skipstjóri hafi klúðrað sínum málum og freistað þess að láta sig hverfa til að lenda ekki í vandræðum, nokkuð sem er vel þekkt (enda slípa menn stundum allar áletranir af akkerum sínum til öryggis ef það veldur einhverjum skaða).
En hvað segir blaðamaður okkur?
Í umfjöllun Wall Street Journal er tekið sem dæmi kínverska skipið Newnew Polar Bear, en rannsakendur töldu skipverja hafa skorið á gasleiðsluna Balticconnector síðasta haust þar sem hún liggur frá Finnlandi og suður til Eistlands yfir Kirjálabotn. Skipinu stýrði rússnesk áhöfn.
Kannski má deila um orðið skorið hérna. Akkeri geta krækt sig á rör og ef skipið heldur áfram að sigla þá er hægt að rífa gat á rörið. Oft eru rör grafin í hafsbotninn til að minnka líkur á þessu, en ekki í tilviki BalticConnector. Sennilega var rörið hannað til að standast einhvers konar átök við bæði akkeri og troll fiskiskipa en að skip dragi á eftir sér akkeri án þess að nokkur verði var við það þekkist eins og íbúar Vestmannaeyja fengu að kynnast í vetur.
Svo ég ætla að leyfa mér að blása á þessa samsæriskenningu. Hún er byggð á fjarstæðukenndum forsendum og af töluverðri vanþekkingu. Það er af nægu að taka ef menn vilja skamma Rússa fyrir eitthvað, en verum raunsæ: Rússagrýlan ber ekki ábyrgð á öllu sem aflaga fer. Á sumu, vissulega, en ekki öllu.
![]() |
Rússnesk fingraför sjást víðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.