Samsæriskenningar fjölmiðla

Það er erfitt að skilja alla umræðu um Rússland. Einn daginn eru þeir að tapa í stríði, þann næsta að sækja fram. Þeir eru ýmist á kúpunni eða að raka inn seðlum. Eina stundina eru þeir óskipulagðir, þann næsta að eyðileggja evrópska innviði án þess að skilja eftir sig nein sönnunargögn. Þeir eru vinalausir en samt í fararbroddi samtaka sem hafa ekki undan að taka við nýjum meðlimum.

Auðvitað fer margt í gegnum fingur forsetans þar í landi, oft vafasamt, glæpsamlegt og hrottafengið, en slíkt er hvorki einsdæmi né í mörgum tilvikum fréttnæmt miðað við margt annað sem fer fram í heiminum. 

En tökum dæmi, sem stendur mér að sumu leyti nærri: Eyðilegging á gasleiðslu á milli Eistlands og Finnlands, hin svokallaða BalticConnector gasleiðsla. Hún var byggð árið 2019 og hleypir svolitlu gasi á milli ríkjanna tveggja. Þegar hún rifnaði vegna akkeris þá slokknaði ekki á einu ljósi í hvorugu landi. Gasverð hækkaði kannski, staðbundið, til skamms tíma. 6 mánuðum seinna var búið að laga leiðsluna.

Myndi Rússland, eða Kína ef því er að skipta, virkilega leggja á sig háleynilega aðgerð til að framkvæma svona algjörlega áhrifalaust skemmdarverk og hætta öllu í leiðinni? Hætta á hefndaraðgerðir? Á fordæmingu?

Miklu líklegra er að skipstjóri hafi klúðrað sínum málum og freistað þess að láta sig hverfa til að lenda ekki í vandræðum, nokkuð sem er vel þekkt (enda slípa menn stundum allar áletranir af akkerum sínum til öryggis ef það veldur einhverjum skaða).

En hvað segir blaðamaður okkur?

Í um­fjöll­un Wall Street Journal er tekið sem dæmi kín­verska skipið New­new Pol­ar Bear, en rann­sak­end­ur töldu skip­verja hafa skorið á gas­leiðsluna Balticconn­ector síðasta haust þar sem hún ligg­ur frá Finn­landi og suður til Eist­lands yfir Kirjála­botn. Skip­inu stýrði rúss­nesk áhöfn.

Kannski má deila um orðið „skorið“ hérna. Akkeri geta krækt sig á rör og ef skipið heldur áfram að sigla þá er hægt að rífa gat á rörið. Oft eru rör grafin í hafsbotninn til að minnka líkur á þessu, en ekki í tilviki BalticConnector. Sennilega var rörið hannað til að standast einhvers konar átök við bæði akkeri og troll fiskiskipa en að skip dragi á eftir sér akkeri án þess að nokkur verði var við það þekkist eins og íbúar Vestmannaeyja fengu að kynnast í vetur.

Svo ég ætla að leyfa mér að blása á þessa samsæriskenningu. Hún er byggð á fjarstæðukenndum forsendum og af töluverðri vanþekkingu. Það er af nægu að taka ef menn vilja skamma Rússa fyrir eitthvað, en verum raunsæ: Rússagrýlan ber ekki ábyrgð á öllu sem aflaga fer. Á sumu, vissulega, en ekki öllu.


mbl.is Rússnesk fingraför sjást víðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband