Sunnudagur, 12. maí 2024
Er minna af Evrópusambandinu í Evrópusambandinu en Íslandi?
Ég bý í Danmörku og Danmörk er meðlimur Evrópusambandsins. Ég er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu en kýs samt að búa í því. Hvernig stendur á því?
Það er mín tilgáta að það sé meira af Evrópusambandinu á Íslandi en í sjálfu Evrópusambandinu. Evrópusambandið fjöldaframleiðir tilskipanir, reglugerðir og Evrópulög og ríki eins og Ísland og Noregur þurfa að innleiða sem hluta af EES-samningnum. En innleiðing er sveigjanlegt hugtak. Það er hægt að innleiða á ýmsa vegu. Það er mín tilgáta að hin íslenska innleiðing sé framkvæmd með mjög þröngri og íþyngjandi nálgun á meðan mörg ríki Evrópusambandsins innleiði á frekar vægan hátt.
Ég skal taka dæmi. Nýlega barst á borð mitt verkefni sem fólst í því að skoða hvort tiltekið verkefni krefjist umhverfismats eða hvort verkefnið rúmist innan núverandi heimilda til að framkvæma, byggja og reka ákveðna starfsemi. Ég lærði að þetta sé mjög algeng fyrsta nálgun á verkefni enda er umhverfismat bæði tímafrekt og kostnaðarsamt. Fyrstu niðurstöður voru á þá leið að umhverfismat þyrfti ekki að fara fram. Svolítið samtal við viðeigandi sveitarfélag staðfestir það væntanlega.
Á Íslandi eru undanþágur frá umhverfismati fáar og endalaust hægt að kæra þær.
En að það sé meira af Evrópusambandinu á Íslandi en í sjálfu Evrópusambandinu er bara tilgáta. Það væri gaman að fá álit einhvers sem er með fótleggi í báðum laugum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.