Mánudagur, 6. maí 2024
Verkfallsvopnið
Verkfallsrétturinn, eða verkfallsvopnið, er furðulegt fyrirbæri. Hann hafa ekki allir. Þeir sem hafa hann eru oftar en ekki hálaunastarfsmenn. Þeir geta sett samfélagið á hliðina í einhverju sem ætti einfaldlega að vera innanhúsmál launþega og atvinnurekenda.
Ég hef ákveðna samúð með þeirri trú að verkföll séu góð leið til að bæta kjör. Slík trú byggist á því sem menn sjá hér og nú og síður á sögulegum staðreyndum eða afleiðingum misræmis á milli launa og verðmætasköpunar. En gott og vel, það er lítið hægt að gera við því.
En einhvern veginn er það nú samt þannig að þær stéttir sem þurfa einfaldlega að mæta í vinnuna til að halda henni og fá laun hafa það bara alveg ágætt. Kannski er það af því að þær eru alveg hárrétt staðsettar með tillit til framboðs á og eftirspurn eftir þekkingu þeirra, kannski er um hreina tilviljun að ræða eða kannski lepja þær bara þegjandi dauðann úr skel. Svari þeir sem vita.
Ég hætti á að kalla yfir mig reiði Austfirðings en ég legg til að þessi svokallaði verkfallsréttur - þetta barefli sem venjulegt fólk verður svo ítrekað fyrir - verði einfaldlega afnuminn. Vilji menn leggja niður störf þá er þeim velkomið að gera það en maður kemur í manns stað. Batnandi kjör til lengri tíma fara jú eftir verðmætasköpun, ekki taxtabreytingum. Of háir taxtar þrýsta á fækkun starfa eða flótta þeirra, of lágir taxtar ná ekki að laða að sér vinnuafl. Kannski er þetta ekkert flóknara en svo.
Þar með er ekki sagt að launþegar eigi ekki að sameinast um hagsmunabaráttu sína. Nú er ég sjálfur til dæmis í verkalýðsfélagi sem ég borga litla þóknun til og hef þannig aðgang að lögfræðingum ef þess gerist þörf. Aðrir vilja borga meira og fá aðgang að sumarbústöðum og gleraugnastyrkjum. Sjálfsagt mál. En að geta skrópað í vinnunni og meinað öðrum að ganga í störfin - það er óréttur, ekki réttur.
Bjóða fólki að færa sig um flug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hver er þessi Austfirðingur sem er alltaf að skamma þig.
Ekki þekki ég hann.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.5.2024 kl. 08:05
Verkfallsvopnið var bráðnauðsynlegt hér áður fyrr. Er reyndar enn ef það er notað í hófi. Þetta hóf virðist hins vegar farið úr böndunum. Við sjáum það hjá flugstéttum og þeim sem tilheyra þeim hópum. Vitandi að verkfall kemur við land og þjóð er verkfallsréttinum óspart beitt.
Löngu tímabært að t.d. flugstéttir sameini launabaráttu sína þannig að ein stétt af annarri geti ekki haldið samgöngum í gíslingu. Kannski ætti að setja kvóta, 1 verkfall á hverjum fimm árum.
Vissulega er staðan orðin sú að endurskoða þarf réttinn. Þegar litið er til Skandinavíu má sjá allt aðra notkun á réttinum til verkfalls.
Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 7.5.2024 kl. 14:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.