Mánudagur, 22. apríl 2024
Mínus einn frambjóðandi
Katrín Jakobsdóttur, atvinnuleysingi sem sækist eftir kjöri í embætti forseta Íslands, mætti í viðtal um daginn. Tel ég óhætt að segja að hún hafi með hreinskilni sinni um skoðanir sínar drepið það framboð. Atvinnuleysið mun því halda áfram, nema hún skammti sér biðlaun eða annað gott sem kerfið býður sumum upp á en ekki öðrum.
Fækkar þar með um einn í þeirri kosningabaráttu. Nema auðvitað að Katrínu takist að forðast viðtöl án þess að nokkur taki eftir.
Það blasir við að fjölmiðlar telji að skoðanakannanir núna gefi vísbendingu um líklega sigurvegara. Þeir hafa því þrengt mjög umfjöllun sína um frambjóðendur sem þeir fjalla um. Þetta er kannski skiljanlegt því blaðamenn þurfa að forgangsraða tíma sínum, en það má ekki gleymast að framboðsfrestur er ekki runninn út og að kannanir eru enn á fleygiferð.
Áður fyrr hafði ég litlar skoðanir á forsetakosningum á Íslandi. Ég hafði talið að þær hafi snúist um það hvort áherslan ætti að vera á skógrækt eða íþróttastarf barna - allt eitthvað svo ljómandi gott að enginn gæti haft neikvæða skoðun á því.
Nú er öldin önnur. Núna vantar í þetta embætti einstakling með sjálfstraust, greind, væntumþykju fyrir sjálfstæði Íslands og getu til að slá á puttana á þingi sem er á furðulegri vegferð. Einhvern eins og Ólaf Ragnar Grímsson, satt að segja, en helst betri í öllu sem hann var góður í.
Og þar er bara einn frambjóðandi líklegur til að fylla í þá stóru skó: Arnar Þór Jónsson.
Tel ég jafnvel betra að sleppa því að kjósa en að kjósa ekki Arnar Þór, en nú er ég auðvitað bara kjósandi í lýðræði og fullkomlega sáttur við að hver maður ráðstafi sínu atkvæði að vild.
Til dæmis til að liðka fyrir valdatöku Evrópusambandsins á Íslandi, eða WHO, eða jafnvel NATO.
Til dæmis til að tryggja að færibandið á Alþingi mæti engri mótstöðu.
Eða að fullveldi og sjálfstæði Ísland verði meira í orði en á borði.
Fjölmiðlamönnum er ekki hægt að segja fyrir verkum. Þeir eru með sína ritstjóra sem svara til sinna eigenda. En eins og veirutímar kenndu okkur þá eru fjölmiðlar ekki handhafar sannleikans. Það ert þú miklu frekar. Og þú færð, í bili, að kjósa.
Í bili.
Katrín: Jóhönnustjórnin talaði máli Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:11 | Facebook
Athugasemdir
Ég hlustaði á þetta viðtal þar sem hún óð froðuna upp að hnjám. Hún heldur eflaust að hún komist upp með lygina en það eru bara 15 ár síðan þetta lið gerði sitt besta til að kaffæra þjóðina í skuldum. Aðeins Ólafur Ragnar og Icesave hópurinn talaði máli Íslands á erlendri grund. Og það nógu hátt til að skipta sköpum. Man ekki til að Jóhanna hafi farið til útlanda (einhver umræða var þó um að hún hafi farið sem fyrsti lessu-forsetinn til Færeyja) og Steingrímur fór einhverjar ferðir til USA og taldi sig skærasta ljósið í fjármálasøgu heimsins. En það var ORG og Icesave-hópurinn sem gerði heimsbyggðinni ljóst að það væri verið að beita okkur fjármálalegu ofbeldi.
Aðeins Arnar Þór hefur burði til að tryggja stöðu Íslands sem sjálfstæðu og fullvalda ríki.
Ragnhildur Kolka, 22.4.2024 kl. 22:49
Ekki nennti ég nú að hlusta á þetta viðtal, og taldi mig lítið fá út úr því, enda hef ég ekki áhuga á því, sem hún er að skrafa, og ekki hrifin af henni, þótt ég kannist við hana persónulega, en það sem ég hef séð hérna í blaðinu um þetta viðtal, þá finnst mér það nú ekki lofa góðu, ef hún ætlar sér að verða forseti. Ég vona bara, að fólk láti það vera að kjósa hana, enda finnst mér hún ekki forsetalega vaxin, og lítið erindi eiga í húsbóndastól á Bessastöðum. Þar finnst mér aðeins einn maður eiga fullt erindi og eiga vinningin, og vona, að menn sjái ljósið þar um síðir, og það er Arnar Þór, enda vona ég, eins og aðrir stuðningsmenn hans, að hann nái því takmarki að verða næsti Bessastaðabóndi. Þessi vitleysisgangur í þessum kannanafyrirtækjum að setja Kötu og svo Baldur - sem er nú efstur á listanum, nú nýlega, og þessi Halla Hrönn eða hvað hún nú heitir orkumálastjórinn, auk Gnarrsins, eru fyrir neðan allar hellur, vægast sagt. Ég botna ekkert í þessarri áráttu þeirra að koma með þetta fólk alltaf hreint og troða því í efstu sætin. Það verður fróðlegt að sjá kannanirnar, eftir að framboðsfresturinn rennur út, og sjá, hvort verður nokkuð meira vit í skoðanakönnunum eftir það, eða hvort þessi fyrirtæki sitja við sinn keip og halda áfram að ota Baldri í efsta sætið, sem enginn vill neitt með hafa, og halda áfram að slaufa framhjá Arnari Þór.Ég vona svo sannarlega, að fólk hafi vit á því að vera ekki að taka mark á þessu skoðanakannanarugli og kjósi eins og það vill sjálft. Arnar Þór er sá allra besti, og ég vona, að hann komist á Bessastaði.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 22.4.2024 kl. 23:48
Ef maður skilar auðu, hafnar maður öllum framboðum og er sama hver sigrar. Ef maður sniðgengur kosninguna sjálfa, hafnar maður Ríkinu sem sviðsetur. Tveir þriðju kjósenda 1918 sniðgengu kosninguna um Sambandslögin, sem þess utan voru ólögmæt því þau voru framkvæmd með Þingsályktun en ekki Lögum.
Lýðveldið er sannanlega Lýgveldi, Þjóðveldið er hins vegar ælíft.
Guðjón E. Hreinberg, 23.4.2024 kl. 12:55
Ég held að það hefði átt að rannsaka Katrínu fyrir misgjörðir í embætti alveg eins og gert var með Geir Haarde á sínum tíma.Ef að hún er ekki þegar búin að skaða þjóðfélagið meira en Icesave var á sínum tíma. Hún og hennar ríkisstjórn gerðu ekkert í því að loka landamærunum fyrir skríl sem átti engan rétt að koma til landsins og leggjast up á þjóðina. Bara þetta eitt kostar þjóðina 30 milljarða á ári um ókomna framtíð. Svo heldur hún að hún geti bjargað loftlagsmalunum með því að henda peningum út um gluggann.Svo styrkir hún Úkraínu stríðið með að gefa peninga til vopnakaupa og annað eins til Hamas hryðjuverkasamtökin. Hún gerði ekkert þegar Svandís bannaði hvalveiðar sem gerði stórskaða fyrir þjóðfélagið. Þetta eru bara örfá dæmi fyrir utan öll kosningaloforðin sem hún sveik. Ætlar fólk virkilega að fara að kjósa þessa manneskju til forseta? Nú svo er það hinn frambjóðandinn,Baldur.Hann þóttist vera einhver sérfræðingur í Icesave málinu og vildi skuldbinda þjóðina í því máli, þvert á vilja þjóðarinnar. Í sinni stefnuskrá til forseta, ætlar hann að létta undir með öfga og heilaþvottasamtökunum 78. Það er alveg sama með Katrínu og hennar ríkisstjórn. Hún sá um að þessi samtök kenna kynvillingafræði í barnaskólum.Nei þessi tvö hafa ekkert að gera á Bessastaði Arnar Þór er rétti maðurinn á réttum tíma með rétt hugarfar Hann á eftir að standa vörð um þjóðfélagið Ég bara vona að það sé ekki orðið of seinnt
Haraldur G Borgfjörð, 23.4.2024 kl. 16:53
Mér finnst það mjög merkilegt sem Haraldur G. Borgfjörð skrifar um Katrínu og mættu fleiri íhuga verk hennar. Ég ætla að bæta nokkru við sem vegur þungt. Einræðisherrar eins og Hitler og Stalín eru sakaðir um fjöldamorð sem þeir báru ábyrgð á. Katrín leiddi í lög með öðrum í stjórn sinni stórauknar heimildir til fóstureyðinga á ófæddum Íslendingum. Því má líkja við embættisverk Stalíns og annarra. Katrín og hennar stjórn hafa dregið á langinn blóðbaðið í Úkraínu, sem hefur stráfellt Rússa og Úkraínumenn. Eina leiðin til að bjarga mannslífum var að styðja Rússa til sigurs, sem sterkari aðilann frá upphafi. Alþjóðasamfélaginu er skítsama um mannslíf. Þar er kúgun Elítunnar númer 1, NATÓ drottnun, fjöldamorð til að styðja úrkynjað samfélag og peningagræðgi hinna örfáu.
Með því að kjósa Katrínu eða aðra forsetaframbjóðendur sem nú eru efstir eru Íslendingar að leggja blessun sína yfir spillingu og meðvirkni, og eru jafn sekir og þeir sem studdu fjöldamorðingja fyrri tíma.
Aðeins forsetaframbjóðendur sem mótmæla hörmungum nútímans eru ekki samsekir, Ástþór talar skýrast, Arnar Þór þar á eftir.
Ingólfur Sigurðsson, 23.4.2024 kl. 17:15
Mér var löngum farið eins og þér, Geir, í afstöðunni til forsetaembættisins. Ég fór á fund á sunnudaginn, sem hjónin Arnar Þór og Hrafnhildur héldu, og þar sannfærðist ég um, að landsfeðurnir á sinni tíð ætluðu þessu embætti ekki að vera puntembætti. Hins vegar veldur, hver á heldur. Forsetaembættið var sett á laggirnar til að vera aðhalds- og eftirlitsembætti með þremur greinum ríkisvaldsins, þó aðallega framkvæmda- og löggjafarvaldinu, því að dómstólar eru sjálfstæðir, og til að vera verndari stjórnarskrárinnar. Arnar Þór mun ekki skrifa undir lög, sem hann telur brjóta gegn stjórnarskrá eða stríða stórlega gegn hagsmunum þjóðarinnar. Þá er hinn eðlilegi farvegur, að þjóðin segi sína skoðun á álitaefnunum (beint lýðræði). Forseti hefur tök á að láta ríkisstjórn/þingmenn vita um afstöðu sína áður en til afgreiðslu kemur. Það gerðu t.d. Sveinn Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson. Arnar Þór yrði starfssamur forseti lýðveldisins, en ekki bara skemmtanastjóri, eins og mat sumra er á þessu embætti.
Bjarni Jónsson, 23.4.2024 kl. 17:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.