Hvað er óréttlátasti skatturinn?

Allir viðskiptavinir sem kaupa vöru og þjónustu borga sama verð. Það skiptir ekki máli hvort viðskiptavinurinn er moldríkur eða bláfátækur, verðmiðinn á ostinum er sá sami fyrir alla. Skiljanlega, því þessi ostur hefur sama bragð og þjónar sama hlutverki fyrir alla.

Virðisaukaskattur fylgir sama lögmáli. Hann hækkar verð á vöru og þjónustu á sama hátt fyrir alla. 

Sum tegund skattheimtu er af svipuðu tagi, svo sem útvarpsgjaldið. Skiljanlega, því áhugi fólks á RÚV er jafnlítill hjá nánast öllum.

Síðan eru það tekjuskattar. Þeim fylgja allskyns afslættir og þrep. Maður með lágar tekjur borgar engan tekjuskatt. Maður með háar tekjur borgar mjög háan tekjuskatt. Maður sem er að hækka í tekjum eftir því sem líður á starfsævi hans finnur vægi afslátta minnka og skattprósenta aukast, svona eins og maður að synda upp úr kafi finnur steypuskóna vega meira en flotholtið togar upp. 

Segjum svo að þessum manni takist að fjárfesta í húseign. Þá tekur eitthvað enn verra við. Hann er búinn að borga svimandi skatta af launum sínum sem hann nýtir til að kaupa eign. Þá taka við aðrir skattar sem gera á hverju ári hlutfall eigna hans upptækt. Ekki er hann að borga fyrir þjónustu í hefðbundnum skilningi (snjómokstur, aðgang að vegum og þess háttar). Ef svo væri ætti verðmiðinn að vera til eins og á ostinum í Bónus eða útvarpsgjaldinu. Honum er sagt að borga hlutfall af ímynduðu verði eigna sinna til að fá ákveðna þjónustu.

Rán um hábjartan dag sem jafnast á við að Bónus seldi aðgang að verslun sinni gegn því að viðskiptavinurinn geti fyllt körfuna án þess að greiða meira og miða þetta aðgangsgjald við líkamsþyngd viðskiptavinarins. Ertu feitur? Þá kostar aðgangur að Bónus mikið því þú hlýtur að setja mikinn mat í kerruna. Áttu dýrt hús? Þá er snjómoksturinn dýr.

Skattar á dánarbú eru jafnvel enn svívirðilegra óréttlæti. Þá er öllu því sem viðkomandi tókst að skrapa saman í endalausri skattheimtu einfaldlega skattlagt aftur! Kannski ríkisvaldið ætti að taka þetta lengra og byrja að leita að skartgripum á líkum ofan í jörðinni.

Hver er þá óréttlátasti skatturinn? Er það eignaupptakan á lifandi fólk eða látnu? Er það virðisaukaskatturinn sem leggst þyngst á tekjulága? Er það kannski útvarpsgjaldið sem neyðir fólk til að kaupa þjónustu sem það nýtir sér ekki? Eða skattar á laun sem halda fólki niðri þótt það sé að hækka í grunnlaunum?

Auðvitað er öll skattheimta þjófnaður sem að nafninu til á að tryggja að þjófurinn sópi hjá þér götuna og stjaki í burtu þjófum þegar hann er búinn að ræna þig. En sum skattheimta er kannski verri en önnur.

Ég hef ekki komist að niðurstöðu.


mbl.is Mesta hækkunin á Seyðisfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru nú flestir skattar sanngjarnir, ráðast af greislugetu, nema ef vera skyldi erfðafjárskattur.  Tvísköttun sem verður ekki réttlættur svo auðveldlega.

Þegar kemur að gjöldum er raunin önnur.  Fasteignagjöld t.d. ráðast af verðgildi.  Eðlilegt að einhverju leiti að stærri eignir beri hærri gjöld en að mestu leiti varla réttlætanleg.  Útvarpsgjald er óverjandi þar sem flestir sem látnir eru borga það hafa fullkomið óþol gagnvart RÚV, ég einn af þeim. Svo er það Gjald í framkvæmdasjóð aldraða sem allir á aldrinum 16-65 ára eru látnir borga en samt er aldrei upplýst hvað verður um þessa fjármuni,  Ekki að sjá að elliheimili á vegum ríkisvaldsin spretti upp eins og gorkúlur þó skilar þetta gjald milljörðum á ari í ríkissjóð.  Eldsneytisgjaldið sömuleyðis,gjaldið sem á að fjármagna vegakerfið en hverfur í ríkishýtina. Auðvitað er rafbílaeigendum hlýft við þessu gjaldi enda aka þeir ekki á vegum heldur svífa í lausu lofti þrátt fyrir að vera u.þ.b. 59% þyngri en sambærilegu bensínbíll.

Tóbaksgjald og áfengisgjald hafa stjórnvöld aldrei reynt að réttlæta með óðru en sem neyslustýringu.  Engir sjóðir þar.

Er ég að gleyma einhverju?

Bjarni (IP-tala skráð) 23.3.2024 kl. 14:31

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Bjarni,

Þú kemur inn á tvennt athyglisvert þarna: Skattheimta sem virðist að nafninu til eiga að renna til ákveðinna útgjalda, og skattar sem eiga að stýra neyslu.

Það er rétt athugað að eyrnamerktir skattar renna bara í eitthvað allt annað. Annars væru breiðari vegir, fleiri mislæg gatnamót, fleiri jarðgöng, færri holur. Hérna rændi þjófurinn þinn en hljóp svo í burtu í stað þess að sópa stéttina þína.

Skattar stýra alltaf neyslu, rétt eins og niðurgreiðslur. Þannig letja skattar á vinnulaun vinnu og niðurgreiðsla á atvinnuleysi hvetur til atvinnuleysis. Íslendingar hafa lengi látið stoltið og vinnueðlið að einhverju leyti draga úr þessu en nýrri kynslóðir eru að fullu að meta að vinna er erfið á meðan það er auðvelt að fá borgað fyrir að vera heima. 

Geir Ágústsson, 23.3.2024 kl. 17:49

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Þeir sem ef til vill helst hlusta á RUV í dag eru yfir 70 ára (mamma var þó hrifnari af Útvarp Sögu) og þurfa því ekki að borga útvarpsgjaldið. Meðan unga fólkið hefur varla hlustað á RUV síðan Lög unga fólksins var lagt af.
10% erfðafjárskattur virkar ekki vera hátt en er samt 1 M af 10 M arfi sem þarf svo aftur að greiða ef féð er látið renna áfram til ömmubarna því þau þurfa frekar á aurnum að halda.

En ég er sammála Bjarna svívirðilegustu skattarnir er þeir sem eru innheimtir í ákveðnum tilgangi en svo notaðir í einhver gæluverkefni
og þó ég sé sæmilega hrifin af Katrínu forsætisráðherra þá samþykki ég aldrei þá hugmyndafræði að nota eigi skatta til að jafna kjör - við höfum fjölmargt annað til að gera það

Grímur Kjartansson, 23.3.2024 kl. 18:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband