Mánudagur, 4. mars 2024
Leyfi til að fara á klósettið
Flest fólk á heimili. Það getur verið eign viðkomandi eða leiguhúsnæði. Íbúð eða hús. Kjallari eða risíbúð. Ríkið hefur hingað til ekki skipt sér mikið af því hvernig fólk rekur heimili sín. Sum heimili eru skítug og óheilnæm en önnur svo hrein að ónæmiskerfi heimilisfólksins leggst í dvala. Sumir eiga birgðir af klósettpappír og aðrir ekki. Sumir þvo sængurfötin vikulega og aðrir kannski bara einu sinni á ári. Ríkið hefur einfaldlega ekki skipt sér af þessu og samfélagið hefur ekki hrunið.
Það má meira að segja búa á fjölmennu heimili án þess að einhver reglugerð fari í gang.
En núna stefnir í breytingar.
Ef heimili er nýtt til að bjóða fólki á ferðinni aðstöðu eins og rúm og klósett, og gera það í meira en 89 daga á ári eða þiggja meira en tvær milljónir á ári fyrir greiðann, þá þarf rekstrarleyfi. Það hljómar kannski sakleysislega. Ég meina, maður skráir bara hjá sér hvað margir gista og hversu lengi, ekki satt?
Ónei.
Núna kemur báknið til leiks!
Til að fá rekstrarleyfi til að mega leigja rúm á eigin heimili þarf að hleypa bákninu inn í öllu sínu veldi. Þar sem þú hefur áður staðið í sturtu eða sest á klósett þarf núna að uppfylla kröfur ríkisvaldsins til heimilishalds. Þær má kynna sér hérna.
Ef þú leigir í meira en 89 daga á ári þá þarf heimili þitt núna að líta út eins og anddyri hótels:
Tryggja þarf að húsnæðið uppfylli viðeigandi kröfur laga og reglugerða um brunavarnir, þar á meðal að:
- Reykskynjarar með hljóðgjafa séu í hverri íbúð eða hverju herbergi þar sem boðið er upp á heimagistingu.
- Eldvarnarteppi og slökkvitæki séu í húsnæðinu.
- Yfirlit um flóttaleiðir úr eigninni séu á áberandi stað.
- Yfirlit um staðsetningu brunavarna séu á áberandi stað.
Það er þess virði að minna á að hér er um að ræða heimagistingu, þ.e. gistingu á heimili.
Þú þarft líka að uppfæra ruslatunnuna á baðherberginu þínu:
Baðaðstaðan skal vera vel loftræst og sé hún notuð jafnt af gestum og heimilisfólki skulu þar aðeins vera hreinlætistæki með tilheyrandi nauðsynjum ásamt ruslafötu með loki. Skulu gestir hafa þar forgang.
Í hverju gistiherbergi skal vera aðstaða til að hengja upp föt, ruslakarfa, nægilegur fjöldi handklæða og vatnsglas.
Sérstaklega er mikilvægt að muna vatnsglasið! Það gæti verið of langt að sækja það í eldhúsið.
Ekki má heldur hætta á að skítugir ferðamenn þurfi að bíða of lengi eftir að komast í sturtu.
Ekki skulu fleiri en tíu manns vera um hverja fullbúna baðaðstöðu.
Ef þú býrð á heimili sem uppfyllir ekki allar þessar kröfur þá ættir þú að skammast þín. Þú ert ekki með ríkisheimili þar sem ruslafatan á baðherberginu er með loki!
Að minnsta kosti ef þú leigir út aukaherbergið í meira en 89 daga á ári.
Eftirlit með heimagistingu hert | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ef húsnæðið er ekki heimili leigusalans er það ekki heimagisting.
Flestar íbúðir sem eru notaðar í þetta meira en 90 daga á ári eru ekki heimili neins og ekki í eigu fólks heldur fyrirtækja. Og þá er það ekki krúttleg heimagisting heldur hreinn atvinnurekstur.
Atvinnustarfsemi á almennt ekki erindi í íbúðarhúsnæði. Rétt eins og heimili eiga almennt ekki að vera í atvinnuhúsnæði.
Guðmundur Ásgeirsson, 4.3.2024 kl. 21:32
Guðmundur,
Ég skil hvað þú ert að segja, og skil alveg þá sem hafa áhyggjur af því að túristar ýti venjulegu fólki út af heimilum sínum (eins og hælisleitendur í boði ríkisins). Um leið veit ég lítið. Spyr því nokkurra spurninga:
a) Hver á húsnæði og leigir það út til 89 daga eða minna? Ég giska á að það sé meirihluti þeirra sem bjóða upp á heimagistingu, og venjulegt fólk sem deilir í raun heimili sínu með borgandi gesti.
b) Hver á húsnæði og leigir það út til 90 daga en ekki mikið meira? Kannski 100 daga?
c) Hver á húsnæði og leigir það út til miklu meira en 90 daga? Ég giska á að það séu fyrirtæki eða einstaklingar með fyrirtæki sem sjá um þá starfsemi.
d) Af hverju þarf reykskynjara í hvert herbergi þegar þú leigir út húsnæði til 90 daga en ekki 89 daga?
e) Vegna d): Hvenær koma kröfur til 90+ leigusalanna til að færast yfir á 89 daga leigjendurna, og heimili almennt? Kannski mín stærsta spurning.
f) Vegna e): Er ég að tengja punktana rangt í að kröfur til heimagistingar verði fyrr en síðar kröfur til allra heimila?
Geir Ágústsson, 4.3.2024 kl. 21:59
Það má líta á málið frá annarri hlið. Ég kaupi mér íbúð í fjölbýlishúsi. Allt í einu er húsið orðið hótel með tilheyrandi ónæði, umgangi á nóttu sem degi og sliti á sameign? Er þetta sanngjarnt? Er þetta ekki aðför að eignarrétti mínum?
Wilhelm Emilsson, 4.3.2024 kl. 22:40
Geir.
Eins og skil þig ert þú að vísa til þess að mörkin við 90 daga séu dregin af geðþótta og mismunandi reglur gildi eftir því hvorumegin þeirra marka það lendir. Ég get svo sem alveg tekið undir það en einhversstaðar þurfa mörkin að liggja og svo má hafa skoðun á því hvar.
Þessar reglur um aðbúnað gilda aðeins á meðan íbúð er leigð út í heimagistingu, en ekki þegar eigandinn dvelur þar sjálfur og er ekki að leigja hana út. Mér ber t.d. engin skylda til að hafa glas á náttborðinu eða ruslakörfu í svefnherberginu heima hjá mér frekar en ég vil. En ef ég leigi út herbergi til gistingar á þessi búnaður að vera þar. Snyrtingu baðaðstöðu og nægilegan fjölda handklæða þarf ekki skylda mig til að hafa því auðvitað vil ég hafa það hvort sem er og ég held meira að segja að snyrting og baðaðstaða sé skylda í öllum íbúðum samkvæmt byggingarreglugerð. En jafnvel þó ég vildi engin handklæði og nota í staðinn viftu til að þurrka mér væri mér það fullkomlega heimilt á mínu heimili svo lengi sem ég leigi það ekki út til gistingar. Ef ég vil búa í tjaldi eða undir beru lofti úti í garðinum mínum er mér það líka heimilt án fatahengis. Það kemur engum við ef ég er ekki að leigja einhverjum öðrum gistiaðstöðu.
Vissulega eru þessar reglur um margt skringilegar og að sumu leyti gerræðislegar. Það var samt ekki punkturinn með athugasemd minni heldur sá að þegar um hreina atvinnustarfsemi er að ræða á hún ekki heima í íbúðarhúsnæði frekar en að fólk búi í atvinnuhúsnæði.
Við getum svo haft skiptar skoðanir um hvar eigi að draga mörkin milli krúttlegrar heimagistingar og atvinnustarfsemi og hvaða reglur eigi að gilda fyrir hvort um sig og hversu strangar.
Guðmundur Ásgeirsson, 4.3.2024 kl. 23:37
Góðir punktar hjá Guðmundi!
Wilhelm Emilsson, 5.3.2024 kl. 00:59
Væri ekki auðveldast að greina á milli heimila með og án lögheimila eigenda og hlífa venjulegu fólki við bákninu?
Geir Ágústsson, 5.3.2024 kl. 08:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.