Þriðjudagur, 27. febrúar 2024
Valdir þú lið eða var þér skipað í það? Þarftu að vera í liði?
Eins og allir vita eru íbúar Vesturlanda þeir hjartahreinustu, umhverfisvænstu, umburðarlyndustu og mest friðelskandi allra Jarðarbúa.
Fjölmiðlar okkar segja sannleikann, forðast lygar og áróður og fylgja vísindunum.
Það blasir því við að þeir sem eru á annarri skoðun eru herskáir barbarar.
Í svona öruggu umhverfi er nánast óþarfi að tala um málfrelsi. Ef þú ert eitthvað ósáttur við það sem þér er sagt þá ertu klappstýra einræðis- og stríðsherra, fordómafullur rasisti og fylgismaður samsæriskenninga, falsfrétta og framandi áróðurs.
Það má því með ró í maga taka upp þann málstað sem hæst fer hverju sinni.
Svo sem að það sé hamfarahlýnun í gangi, sem er þér að kenna og er að tortíma Jörðinni.
Og að átök í Úkraínu séu stærsta ógn Evrópu síðan Hitler var upp á sitt besta.
Og auðvitað að flóttamenn frá Palestínu þurfi mest á öllu í heiminum á því að halda að verða fluttir til Íslands.
Allt saman góð mál og sjálfsagt að styðja, ekki satt? Og um leið alveg óþarfi að skoða aðrar hliðar málsins. Ekki vera álhattur!
En það sem meira er: Óþarfi að skoða önnur mál, hreinlega. Ef einhver átök eru ekki að birtast þér í fyrirsögnum og fréttatímum þá þarf ekki að taka afstöðu. Voru yfirvöld í Aserbaídsjan, sem eiga af einhverjum ástæðum vingott við Evrópu (og Eurovision), nýlega að hrekja frá heimilum sínum heila byggð af Armenum, sem hafa lengi verið undir verndarvæng Rússa í landamæradeilum þeirra við Aserbaídsjan? Skiptir ekki máli. Er Kína að seilast inn í Hong Kong og innleiða þar kínverskan kommúnisma? Skiptir ekki máli. Eru vestræn umhverfisverndarsamtök að stuðla að eyðingu regnskóganna? Gott mál.
Ertu í réttu liði? Ertu þar vegna þess að þú valdir að vera þar eða vegna þess að þér var sagt að vera þar? Veistu af hverju þú ert í því liði?
Mér finnst blasa við að með vali á því frá hverju er sagt og hverju ekki, og hvar stjórnmálamenn velja að tjá sig (og eyða peningum þínum) að hvar ekki, að þú sért einfaldlega að velja að velja ekki ef þú lætur aðra um að velja. Þessi er góður, þessi er vondur. Þetta er alvarlegt, þetta er það ekki. Þessi er næsti Hitler, þessi er bara einn af þessum brjálæðingum í fjarlægu ríki.
Auðvitað er ég ekki saklaus hérna, en það er þess virði að spyrna við fótum. Ég mæli til dæmis með því að heimsækja Antiwar.com reglulega til að sjá allar fréttirnar um átök, valdarán, þjóðernishreinsanir, múðurgreiðslur og trúarstríð sem þykja ekki nógu mikilvægar til að rata í okkar fyrirsagnir og fréttatíma.
Það er líka þess virði að hugsa: Ef allir eru sammála um flókin mál sem ná áratugi og jafnvel aldir aftur í tímann, er þá ekki eitthvað að? Er heimsmyndin einfaldlega sú að stór maður er að berja á lítilli konu og augljóst að óréttlætið megi uppræta með því einu að handtaka stóra manninn?
Ég spyr mig að þessu reglulega. Mögulega er ég ekki með öll svörin, en ég er með spurningarnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.2.2024 kl. 11:24 | Facebook
Athugasemdir
Haltu bara áfram. Aldrei að vita nema einhver fræin spíri.
Ragnhildur Kolka, 28.2.2024 kl. 09:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.