Talsmenn báknsins

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu tekur vinstrisinnaður þingmaður upp hanskann fyrir báknið:

Þúsund­ir op­in­berra starfs­manna mæta til vinnu á degi hverj­um og gera sitt besta til þess að mæta óend­an­legri eft­ir­spurn og sí­vax­andi kröf­um sam­fé­lags­ins. Þau sjá um þær skyld­ur sem við höf­um ákveðið að fela þeim, kenna börn­um, hlúa að sjúk­um, þjón­usta eldri kyn­slóðir, halda uppi lög­um og reglu og þannig mætti telja áfram. Eft­ir­lits­stofn­an­ir fylgj­ast með, í nafni al­manna­hags­muna, að farið sé að regl­um. Að ekki sé svindlað á al­menn­ingi með sam­ráði. Veg­um sé haldið opn­um af fólki sem fer snemma á fæt­ur og skef­ur í dimmviðri frá morgni til kvölds. Það er í mín­um huga til óþurft­ar að tala eins og verið sé í sí­fellu að sólunda fé í óþarfa, í eitt­hvert órætt bákn.

Þetta er bæði rétt og rangt. Það er rétt að á þeim sviðum þar sem hið opinbera hefur búið til „óendanlega eftirspurn“ eftir úrvinnslu óþarfa eyðublaða og tekið sér einokunarvald, bannað samkeppni, og sett á spena skattgreiðenda að þar mætir mikill fjöldi til vinnu og reynir að leggja sitt af mörkum.

En það er enginn að kvarta yfir vinnu þessa fólks, jafnvel þótt óþarfa eyðublöðin taki sinn toll. Foreldrar hrækja ekki framan í leikskólakennara eða starfsmenn sýslumannsembættanna. Starfsfólk spítala og hjúkrunarheimila mætir í engu einhverju leiðinlegu viðhorfi frá skjólstæðingum og aðstandendum. 

En þegar atvinnubílstjórar eru sendir á gagnslaus námskeið gegn svimandi gjaldi þá kvarta menn. Þegar fiskverslun getur ekki opnað af því þrjú eða fjögur mismunandi embætti geta ekki verið sammála um hvar eigi að vera ræsi á gólfinu (sönn saga!) þá fyllast menn tortryggni. Þegar menn þurfa að hafa aðgang að milljónum í annaðhvort sparnaði eða lánum áður en þeir mega byrja steikja kjúkling þá taka reyndir menn eftir því að báknið er að þenja sig út, og snýta út úr sér regluverki.

Þegar leyfisveitingar breiða úr sér þar sem engar voru áður, af engum sérstökum ástæðum, þá taka menn eftir.

Þessi gamla tugga um að verið sé að verja neytendur og passa að lögum sé framfylgt er ekki rétt. Þvert á móti missir báknið allan fókus á því sem fer raunverulega fram þegar það hefur drekkt öllu í eyðublöðum og pappírsvinnu. Raunverulegt eftirlit er orðið að skrifborðsvinnu. 

En er ekki allt Evrópusambandinu að kenna? Nei, alls ekki. Íslendingar innleiða allt sem þaðan kemur af slíku offorsi að Evrópusambandið lítur út eins og villta vestrið í samanburðinum. Til dæmis get ég í Danmörku ennþá keypt plastpoka í flestum matvöruverslunum eða fengið þá ókeypis í ávaxta- og grænmetisdeildinni, og flokka í tvær tunnur en ekki tíu. Líkurnar á að ég þurfi að standa í röð hjá einhverju embættinu til að geta gert það sem ég vil eru mun minni í Danmörku en á Íslandi. Ekki vegna Evrópusambandsins, heldur þrátt fyrir það, vegna þess hvernig hlutir eru innleiddir og hvernig báknið er skrúfað saman.

Íslenskir stjórnmálamenn eru oft án hryggsúlu og með ónýt hné sem bogna um leið og báknið ræskir sig. Þeir leggja yfirleitt ekki í það, því miður. En ýmis teikn eru núna á lofti og vonum að úr þeim rætist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband