Kennarar að mennta sig til gagnsleysis

Íslensk börn lóðfalla núna eins og saur í klósettskál í getu sinni til að reikna, lesa og skrifa og skrifa rétt svör í próf og PISA-kannanir. Þetta smitast í gegnum allt skólakerfið: Framhaldsskólar kvarta yfir illa undirbúnum nýnemum og háskólar kvarta yfir illa undirbúnum stúdentum. 

Spurningin er: Af hverju?

Sumir hafa nefnt skjánotkun barna. Aðrir tala um fjárskort. En hvað segja kennarar sjálfir? Jú, þeim vantar endurmenntun! Fleiri námskeið! Fleiri utanlandsferðir væntanlega líka en mér skilst að fáar starfsgreinar ferðist meira á kostnað annarra, kannski að þingmönnum, borgarfulltrúum og forstöðumönnum opinberra stofnana undanskildum.

Nánar tiltekið segir einn af talsmönnum kennara:

Þeir þættir sem kennarar benda á og hafa lengi kallað eftir snerta m.a. framboð á námsefni og námsgögnum. Nýleg úttekt um þann málaflokk styður málstað kennara: Þar þarf að gera betur. Einnig þarf að auka möguleika kennara á starfsþróun.

Er Gagn og gaman ekki lengur í boði? 

En gott og vel. Kennarar eru meðvitaðir um vandamálið þótt þeir sjái ekki hlut sinn í því. Þá er nú gott að það finnist krani fyrir skattfé með heitið Rannsóknasjóður Kennarasambands Íslands. Þar er nú auglýst eftir umsóknum um styrki. Hér verður einblínt á vandamálin! 

Áherslusvið sjóðsins að þessu sinni eru: 

  • Árangursríkar kennsluaðferðir sem efla orðaforða, tjáningu, mál- og lesskilning
  • Nám og kennsla barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn
  • Gæði kennslu og þróun kennsluhátta í afmörkuðum sviðum eða námsgreinum
  • Staða hinsegin kennara í skólum
  • Starfsþróun sem styður við faglegt skólastarf og starfsánægju kennara

Hér eru öll réttu orðin til staðar: Faglegt, starfsánægja kennara, kennsluaðferðir og annað gott. En þarna er líka að finna athyglisvert verkefni sem skattfé landsmanna á að renna í: Staða hinsegin kennara í skólum.

Samkvæmt Hagstofu Íslands eru á Íslandi samtals 132 einstaklingar sem skrá sig hvorki sem konu né karl, þ.e. skrá sig sem kynsegin. Það eru um 0,03% landsmanna.

Kennarasamband Íslands hefur á að skipa um 5000 félagsmönnum (með aðildarfélögum) ef marka má kjörskrá félagsins, og væntanlega eru flestir kennarar meðlimir enda fá þeir ekki að semja um eigin kaup og kjör. Ef ég gef mér að hlutfall kynsegin kennara sé það sama og hlutfall kynsegin Íslendinga í heild sinni þá eru það alls um 1-2 einstaklingar.

Sem sagt: Mjög mikilvægt að eyða fé í að rannsaka stöðu þeirra (öðruvísi en að boða þá báða á fund).

Menntakerfið er fyrir löngu komið út af sporinu. Það er farið að snúast um kennarana, þeirra þarfir, þeirra líðan og þeirra áhuga á vinnu sinni.

Skítt með börnin. Skítt með að menntun sé ekki í forgangi í menntakerfinu.

Staða íslenskra nemenda er kennurum að kenna. Þeir kunna ekki fag sitt. Þeir sem kunna það fá skammir í hattinn fyrir að setja fyrir of mikið, gefa of lágar einkunnir og tala venjulega íslensku frekar en afskræmið sem núna er verið að boða.

Það þarf að skera þetta í heild sinni úr snöru hins opinbera: Láta fé fylgja nemendum, einfalda námsskrá hins opinbera og koma á markaði fyrir menntun. Samkeppnismarkaði. Það þarf að færa foreldrum völdin og bræða í burtu stofnanabraginn af skólunum.

Nema auðvitað að fólki sé skítsama. Þá getur menntakerfið haldið áfram að snúast um starfsánægju kennara, starfsþróun þeirra og námskeiðahald, auk utanlandsferða. Líka þessara tveggja sem eru hinsegin/kynsegin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir gott og gagnlegt blogg. Já það er undarlegt að rannsóknarsjóður kennara ætli að skoða 1-3 einstaklinga og eyða til þess miklu fé þegar af nógu er að taka, þar sem fjöldinn ætti að vera forgangsatriðið.

Hvað starfsþróun (það orð er notað, þykir fallegra en endurmenntun) kennara varðar þá hafa ferðaskrifstofur komist á bragðið. Skipuleggja ferðir kennara til útlanda og hirða menntunarsjóð hvers og eins. Ef ekki alveg þá að stórum hluta. Sama á við um leiksskólakennara. Námstíminn er oft aðeins 10-12 klst. á þremur til fjórum dögum. Starfsþróunarsjóður illa nýttur að mati margra. Ferðaskrifstofur taka sinn skerf. 

Ég undrast að rannsóknarsjóðurinn skuli ekki leggja áherslu á að ofbeldi gagnvart kennurum skuli ekki vera á forgangslista. Um helmingur kennara segist verða fyrir munnlegu og líkamlegu ofbeldi ef rýnt er í könnun sem Vinnuumhverfisnefnd KÍ lét gera fyrir nokkrum árum.

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 1.2.2024 kl. 15:07

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Kannski er það grunnmenntunin sem er ekki eins og best verður á kosið. Það mætti lika íhuga hvort gera eigi meiri krøfur við inntöku í námið. Hingað til hefur áherslan verið á að fjølga í stéttinni en minna að fá hæfa nemendur inn. Þetta er nefnilega eins og þegar talað er um að bæta heilbrigðiskerfið þá heyrist alltaf fyrst í þeim sem telja aukið fé eina úrræðið. Enginn vill heyra á skipulagsbreytingar minnst svo lendingin er alltaf að prjóna við, bæta og staga. Sama á við um menntakerfið. 

Ragnhildur Kolka, 2.2.2024 kl. 16:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband