Óskhyggjan um alræðisvaldið

Í seinasta pistli fjallaði ég um blaðagrein sem ég skrifaði um mitt árið 2020 þar sem ég spáði því að árið 2021 yrði veiruár.

Árið 2021 verður líka veiruár eins og það sem nú gengur yfir.

Á þessum tíma var ennþá verið að tala um að fletja út kúrvu, að takmarkanir virkuðu og yrðu því bara tímabundnar og að kostnaðurinn væri viðráðanlegur. Ísland hafði verið opið fyrstu tvo mánuði sumarsins en svo fundust nokkur smit og þjóðhátíð blásin af og raunar félagslíf að mestu leyti.

Greinina frá árinu 2020 endaði ég með orðunum:

En vonandi skjátlast mér, að öllu leyti.

Því miður tel ég flesta spádóma mína í ágúst 2020 hafa ræst. Ekki bara um veiru heldur flest annað líka. Því miður.

Sem athugasemd við pistil minn í gær fæ ég engu að síður þessi orð:

Mitt mat er að niðurstaða þín sé byggð á mati út frá pólitískri skoðun, óskhyggju, frekar en einhverjum haldföstum staðreyndum.

Þessi athugasemd er lýsandi, en ekki fyrir mitt hugarfar. Ég hataði þessar takmarkanir frá upphafi. Þær voru að vísu skárri árið 2020 en árið 2021, þegar mismunun eftir lyfjagjöf hófst og grímurnar gagnslausu dreifðust eins og plága út um allt, en voru samt skelfilegar. 

Nei, þessi athugasemd er lýsandi fyrir þá sem trúa lygum yfirvalda og fjölmiðla og þola ekki að slíkar lygar séu afhjúpaðar. 

Margir voru strax um vorið 2020 búnir að sjá í gegnum tal yfirvalda. Ég fylgdist með skrifum og ræðum margra slíkra en lét þó fyrstu lokahrinuna yfir mig ganga án þess að kvarta of mikið. Gögnin voru að hrúgast inn: Börn smita lítið frá sér og smitast lítið, áhættuhópar eru eldra fólk og fólk í yfirþyngd  og aðrir með alvarlega króníska sjúkdóma sem bæla ónæmiskerfið, lífslíkur flestra eru á pari við flensuna, og svona mætti lengi telja.

Þegar takmarkanir hurfu að mestu vorið 2020 leyfði ég mér að vona. En tveimur mánuðum seinna var sú von horfin. Ég sá að þeir sem höfðu séð í gegnum þokuna frá upphafi höfðu rétt fyrir sér. Ég var kjáni að segja ekkert. Þetta breyttist um mitt sumarið 2020. 

Að það hafi verið óskhyggja af minni hálfu að spá því að árið 2021 yrði líka að veiruári eru því öfugmæli. En margir sáu tækiværi í veirunni. Loftslagskirkjan var fljót að sjá mikinn ávinning í því að læsa fólk heima hjá sér. Þeir sem vilja hólfa okkur niður í 15 mínútna hverfi lifa enn í voninni. Allskyns stafræn kerfi sem rekja lyfjagjöf okkar voru þróuð og á að þenja út til að ná til allra afkima lífs okkar, frá ferðalögum til neyslu.

Veirutímar eru mögulega að baki, í bili, en öll kerfin sem voru byggð upp á þeim tíma lifa ennþá. Þau eru í þróun. Það er verið að bæta við þau eiginleikum. 

Það er engin óskhyggja fólgin í þeirri spá minni í dag að verið sé að undirbúa stafrænt alræði. Reiðufé á að banna (í nafni peningaþvættis, auðvitað, þótt þar séu til mun hentugri aðferðir í dag en að rogast um með ferðatösku fulla af seðlum), kolefnisfótspor okkar verður að vestrænni útgáfu af kínverskri einkunnagjöf sem ákvarðar hvað við megum og megum ekki gera og kaupa, og frjáls tjáning verður gerð að óvini ríkisins (byrjum þar á Elon Musk og hans nokkuð takmarkalausa en áhrifamikla samfélagsmiðli).

Ég er mögulega svartsýnn, óheppilega kaldhæðinn og óþarflega vel að mér í skrifum þeirra sem blaðamenn hata, en ég óska ekki eftir stafrænu alræði.

En það gera margir aðrir, og fela þann ásetning í engu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband