Fimmtudagur, 11. janúar 2024
Spádómar
Þann 15. ágúst 2020 birtist eftir mig grein í Morgunblaðinu með fyrirsögnina 2021. Greinina skrifaði ég eftir að yfirvöld hófu á ný að banna allt og alla, útihátíðir og hvaðeina, þegar nokkur smit fóru að detta inn eftir annars ljómandi sumar.
Nú er auðvitað alltaf varhugavert að setjast í stól spámannsins en mig langar aðeins að vega og meta hvernig mér tókst til.
Árið 2021 er kosningaár. Það þýðir að stjórnmálaflokkar munu keppast við að lofa kjósendum gulli og grænum skógum
Auðvitað. Ekkert áhugavert í þeim spádómi.
Árið 2021 verður líka veiruár eins og það sem nú gengur yfir. Ofan á kóróna-veiru á eftir að bætast við inflúensu-veira, að ónefndum öllum kvefpestunum. Veiruárið 2021 verður samt ekki ár samstöðu og sáttar um að takmarkanir þurfi að gera til að minnka útbreiðslu og verja ákveðna þjóðfélagshópa.
Þetta rættist en ekki fyrr en í blálok ársins 2021 í fyrsta lagi. Fólk kyngdi vitleysunni mun lengur en ég þorði að vona. Flensan lét heldur ekki sjá sig, merkilegt nokk, fyrr en árið 2022, og sú veira og ýmsar aðrar plægðu sig í gegnum veiklað og margsprautað ónæmiskerfi landsmanna og gera enn þann dag í dag.
Hið opinbera hefur sjaldan látið gott neyðarástand fara til spillis og upp munu spretta tillögur að alls kyns ríkisstofnunum og bólgnum útgjaldahugmyndum sem á yfirborðinu eiga að renna til veiruvarna en eru í raun bara hendur að grípa það sem þær geta á meðan almenningur situr skelkaður við sjónvarpsfréttirnar.
Ekki spurning, en tókst ekki alveg jafnvel og margir vonuðu þótt ekki sjái fyrir endann á þeim tilraunum. Það voru til dæmis aldrei reistar fangabúðir á Grímsey fyrir ósprautaða eins og forstjórar og ritstjórar óskuðu eftir. Ferðalög voru vissulega gerð að stærri hausverk fyrir ósprautaða (og mikið til ónæma eftir fyrra smit) en auðvelt að svindla á því, þannig séð, eins og ég fékk að reyna sumarið 2021 þegar ég valsaði um allt í 14 daga sóttkví minni.
Í útgjöldum var haldið áfram á fullu til að niðurgreiða atvinnulíf sem yfirvöld höfðu bannað, og leiðir það að næsta spádómi mínum.
Árið 2021 verður svo að öllum líkindum kreppuár. Góðæri undanfarinna ára hefur verið vel nýtt til að halda uppi gríðarlegri skattheimtu til að byggja undir gríðarlega stórt opinbert bákn. Það mátti ekki skella á veira og hallarekstur ríkisins hljóp upp í þriggja stafa milljarðatölu, rétt eins og hendi væri veifað, og nákvæmlega ekkert svigrúm til að hækka skatta og borga þann reikning, né pólitískur vilji til að selja eigur upp í skuldir eins og venjulegt fólk gerir í hallæri.
Þetta hefur ræst en á annan hátt en lýst því öll skuldsetning hins opinbera hélt einfaldlega áfram út í hið óendanlega, og gerir raunar enn. Það fær enginn timburmenn sem heldur einfaldlega áfram að drekka. Við eigum því ennþá inni leiðréttinguna.
Sveitarfélögin hafa mörg hver heldur ekkert gert til að búa sig undir niðursveiflu. Menn geta auðvitað kennt veirunni um en almennt má segja að allar áætlanir hafi gert ráð fyrir endalausu góðæri, og engin áætlun B til staðar.
Sveitarfélögin eru enn verr stödd en ég hélt. Mörg eru hreinlega í molum. Þar á meðal er Reykjavík, þar sem ríkir andrúmsloft algjörrar veiruleikafirringar í ráðhúsinu, jafnvel enn þann dag í dag. Núna er sorpið varla sótt, börn komast ennþá ekki á leikskóla sem að auki fjölga alltaf lokunardögum sínum, grunnskólabörnin eru ólæs, innviðir vanræktir og opnunartími sundlauga skertur svo nemur tugum prósenta, og tiltektin ekki einu sinni byrjuð. Hjálpi mér!
Ég lauk grein minni á eftirfarandi orðum:
En vonandi skjátlast mér, að öllu leyti.
Því miður rættist sú von ekki.
Maður ætti kannski að henda í nýjan spádóm?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:08 | Facebook
Athugasemdir
Huglægt mat á því hvort spádómar hafi ræst um eitthvað matskennt er lítils virði. Ekki eru allir sammála því að spádómar þínir hafi ræst. Og þeirra mat ekkert síðra en þitt.
Vagn (IP-tala skráð) 12.1.2024 kl. 16:00
Vagn,
Hvað er þitt mat?
Geir Ágústsson, 12.1.2024 kl. 16:58
Mitt mat er að niðurstaða þín sé byggð á mati út frá pólitískri skoðun, óskhyggju, frekar en einhverjum haldföstum staðreyndum. Það er auðvelt að telja sig sannspáan þegar sjálfsblekking er fyrsta mál á dagskrá hvern einasta dag.
Vagn (IP-tala skráð) 12.1.2024 kl. 18:00
Vagn,
Spáði ég ekki rétt um að 2021 yrði veiruár á tíma þegar var ennþá verið að tala um tímabundnar takmarkanir svona rétt til að fletja kúrvuna, sem flestir trúðu ennþá?
Það var engin óskhyggja, ég hataði þessar takmarkanir frá upphafi.
Geir Ágústsson, 12.1.2024 kl. 18:13
Þegar eitthvað er vitað og öllum ljóst þá er það ekki spádómur að halda því fram. Hvort sem fólk mundi læra að passa sig og aðra eða hvort grípa þyrfti til takmarkana til að halda smitum innan þeirra marka sem heilbrigðiskerfið réði við var eina óvissan um 2021. Allar takmarkanir voru tímabundnar, síðan réðist það af því hversu vel þær virkuðu hvort þeim var framlengt. Túlkanir þínar og minningar um þennan tíma eru að mestu leiti rangar og passa ekki með nokkru móti við staðreyndir. Og þegar ég tala um staðreyndir þá er ég auðvitað ekki að tala um skáldsöguna sem hringlar um í kolli þínum og þú vitnar svo gjarnan í máli þínu til stuðnings.
Vagn (IP-tala skráð) 12.1.2024 kl. 19:42
Vagn,
Þú hittir óvænt og kannski óvart naglann á höfuðið þarna:
Allar takmarkanir voru tímabundnar, síðan réðist það af því hversu vel þær virkuðu hvort þeim var framlengt.
Þessar takmarkanir virkuðu aldrei. Auðvitað kemur þú í veg fyrir smit á einni veiru með því að loka fólk inni en þú veikir í því ónæmiskerfið og býrð til þurrt hey fyrir næstu veiru að brenna í gegnum. Þú skapar andlegt kvalræði. Þú hrekur fólk út á götu og fyrirtæki í þrot.
Þetta virkaði aldrei og var slæm hugmynd, algjörlega ósannreynd tilraunastarfsemi sem fékk að ganga alltof lengi. Eða eins og Einstein sagði: Geðveiki er að trúa því að gera það sama aftur og aftur og búast við annarri niðurstöðu. Sóttvarnatakmarkanir voru slík skilgreining geðveiki.
En af því takmarkanir virkuðu ekki þá virtist eins og þær þyrfti endalaust að framlengja. Þetta voru margir farnir að sjá skýrt strax um vorið 2020. Ég rankaði úr rotinu um mitt sumar og hef ekki litið til baka síðan.
Geir Ágústsson, 12.1.2024 kl. 19:58
Ummmæli Vagns eru sorglega glöggt dæmi um það sem á sér stað hjá þeim hópi fólks sem er veikastur fyrir gagnvart hræðsluáróðri og blekkingum og nær sér aldrei. Það skiptir engu máli hvaða gögn og staðreyndir koma fram í viðbót við allt sem þegar er komið fram, og sýnir glöggt hversu gagnslaust og skaðlegt það er að missa fótanna af röklausum ótta, Vagn mun aldrei ná sér. Því miður. Það getur vel verið að Vagn sé að öðru leyti vel gefinn og heilbrigður einstaklingur, en firran sem hefur tekið sér bólfestu í huga hans verður þar um alla framtíð. Minnir á söguna sem ég heyrði fyrir ekki löngu frá manni sem bjó í nokkra mánuði í Þýskalandi á áttunda áratugnum, þá nýskriðinn úr menntaskóla. Hann starfaði í fyrirtæki konu sem var í blóma lífsins á fimmta áratugnum. Þau fóru í eitt skipti saman á veitingahús og þegar þau voru sest hallaði hún sér fram og sagði lágum rómi: "Það eru nú nokkrir hér, en maður lætur sig hafa það". "Nokkrir hverjir?" spurði Íslendingurinn. "Nú, Gyðingar" sagði sú gamla. Annað dæmi um einstakling sem réði ekki við gagnrýna hugsun, varð áróðri stjórnvalda að bráð, og jafnaði sig aldrei. Alveg eins og greyið Vagn.
Þorsteinn Siglaugsson, 12.1.2024 kl. 20:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.