Skiptir litlu máli hver er ráðherra, nema mögulega fjármálaráðherra

Núna er mörgum heitt í hamsi yfir því að ráðherra matvæla hafi brotið lög með því að banna atvinnustarfsemi. Kallað er eftir ábyrgð, afleiðingum og afsögn. Sagt er að annars springi stjórnin. Vantraustsyfirlýsing er í undirbúningi. Mál málanna!

En ég vil hryggja þá sem eru reiðir og svekktir. Það skiptir engu máli hver er ráðherra matvæla eða hvað það kallast. Hver er ráðherra RÚV eða ráðherra loftslags. Ekki í dag. Ríkisstjórnin er límd saman á því samkomulagi að hver flokkur fái að halda úti sínum litla ráðherrahópi sem fái að brenna eins og sinueldur í gegnum reglur, lög og ríkissjóð til að fjármagna eigin kosningabaráttu.

Mögulega skiptir bara máli hver er fjármálaráðherra og heldur á veskinu, en það er jafnvel vafasamt líka því veskið er einfaldlega galopið og þarf að vera það til að allir fái að halda völdum og koma í veg fyrir að Samfylkingin sigri kosningar.

Kannski væri ástandið öðruvísi ef stjórnmálin snérust minna um að ná og halda völdum og meira um að berjast fyrir hugsjónum, en núna hljóma ég eins og einhver stuttbuxnadrengur í Heimdalli sem var, en er ekki.

Mín hvatning gengur út á að færa aðeins orkuna til: Frá því nákvæmlega hvaða persóna er að kveikja í skattfé og að því að taka eldspýtustokkinn af öllum ráðherrum. Um leið má vona að fjármálaráðherra fái leyfi stjórnarliða til að loka veskinu. Það er jú tómt, ef undan eru skilin kreditkortin. Allt þetta virkar svo ekki nema fjármálaráðherra standi í lappirnar og hugleiði eigin orð, í nýlegu viðtali:

Ríkið á fyrst og fremst að sinna grunnþjónustu samfélagsins, kjarnanum. Og sinna henni almennilega. Öðru eigum við að leyfa öðrum að finna út úr og sinna ...

Sjáum hvað setur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þegar þeir hentu Svandísi úr Heilbrigðisráðuneytinu, og settu þennan Willum í staðinn, þá varð strax mikil breyting til batnaðar.

Svo... það skiftir einhverju máli hver er í þessum ráðuneytum.

Hugsjón þessara peyja á að vera þjóðin.  Hagur hennar.  Ekki dauði og rotnun.

Ásgrímur Hartmannsson, 8.1.2024 kl. 19:30

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásgrímur,

Góður punktur. Það getur skipt máli. En yfirleitt ekki. 

Geir Ágústsson, 8.1.2024 kl. 19:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband