Föstudagur, 22. desember 2023
Prófsteinn á læsi
Miklu sorgarmáli er nú að ljúka með handtöku nokkurra einstaklinga og fullnustu dómsúrskurðar og sameiningar fjölskyldu. Ekkert í því máli hefur komið á óvart eftir að upprunalegir glæpir höfðu verið framkvæmdir og réttarríkið fór í gang. Hið óumflýjanlega hefur nú orðið. Við getum nú byrjað að tyggja á einhverri annarri fjölskyldu og börnum hennar.
Þetta mál hefur verið allt hið furðulegasta í meðförum fjölmiðla. Þeir hafa látið sér einhliða drottningarviðtöl duga til að afla efnis til að fjalla um. Ýmsar fullyrðingar hafa fengið stöðu sönnunargagna og staðreynda. Þetta breyttist um daginn þegar lítill miðill, Nútíminn, tók sig til og lét þýða dómsskjöl og fjallaði um undanfara þeirra. Miðillinn hefur fylgt málinu vel eftir, meðal annars með viðtali við einn aðila sem hefur í dag verið handtekinn og hreinlega laug blákalt að blaðamanni. Miðillinn segir í dag frá miklum fagnaðarfundum feðga og yngri og eldri bræðra.
Morgunblaðið hefur aðeins reynt að bæta sig en of lítið, of seint. Sömu sögu má segja um DV.
Hvað um það. Öll gögn liggja fyrir. Undanfarinn er vel skjalfestur. Dómsskjöl eru aðgengileg. Vilji barna og fullorðinna er á hreinu. Ekkert er dulið, hulið eða óljóst.
Það er því alveg ótrúlega furðulegt að lesa athugasemdir Íslendinga á samfélagsmiðlum þegar fréttir um þetta tiltekna mál eru settar þar inn. Það er greinilegt að fæstir hafa lagt á sig að kynna sér málin, lesa upplýsingar og afla sér gagna. Flestir vaða einfaldlega áfram með fullyrðingar hinna einhliða drottningarviðtala. Fullyrða fyrir hönd barna. Fullyrða um föður. Fullyrða um kerfið. Bölsóttast út í Noreg, af öllum ríkjum.
Það blasir við að Íslendingar nenna ekki að lesa. Nenna ekki að setja sig inn í mál. Neita að láta staðreyndir flækjast fyrir tilfinningarökum. Neita að mynda sér skoðun byggða á raunveruleikanum.
Í bæði þessu máli og mörgum öðrum, því miður.
Þetta afhjúpa Íslendingar einfaldlega á samfélagsmiðlum, trekk í trekk.
Mér finnst orðið minna og minna skrýtið hvað þeir létu plata sig hressilega á veirutímum. Þeir láta plata sig á tímum þegar yfirvöldum vantar stuðning við eitthvað stríð og á tímum þegar þarf að féfletta þá aðeins meira.
Íslendingar (og fleiri, auðvitað) falla einfaldlega í gildruna í hvert skipti og læra aldrei af reynslunni.
Það er því með miklu stolti að ég þigg titla eins og samsæriskenningasmiður, mótþróaseggur og brjálæðingur þegar ég tjái mig opinberlega. Ekki af því ég læt aldrei plata mig - það kemur vissulega fyrir - heldur af því ég reyni að koma í veg fyrir það á meðan aðrir læmingjar hlaupa fram af björg eftir fyrsta útkall.
Fjögur voru handtekin í gær vegna máls Eddu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mass Formation Psychosis.
Múgsefjun drifin af fyrirsögnum.
Sorglegt.
Skúli Jakobsson, 22.12.2023 kl. 19:22
Pisa könnun undanfarin ár gefa til kynna að ungir drengir geta ekki "lesið sér til gagns". Ætli það sé nokkuð skárra hjá þeim fullorðnu?
Annars held ég að Íslendingar margir hverjir geta því miður ekki "hugsað sér til gagns".
Bragi (IP-tala skráð) 22.12.2023 kl. 21:25
Bragi,
Þetta var mjög snilldarlega orðað hjá þér: Að hugsa sér til gagns.
Ég held svei mér þá að margir treysti blaða- og stjórnmálamönnum til að hugsa fyrir sig. Það útskýrir ýmislegt!
Geir Ágústsson, 23.12.2023 kl. 08:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.