Er ekki mikilvægast að bara líða vel?

Mér líður stundum illa. Ekki vegna sjúkdóma eða þunglyndis heldur vegna álags. Mér líður ekki illa í þeim skilningi að ég þjáist af vanlíðan heldur miklu frekar af því ég sé stundum ekki hvernig ég á að ná að klára öll þau verk sem liggja fyrir. Kannski þetta sé miklu frekar hægt að kalla samviskubit - ég tek á mig miklar byrðar, sem raðast svo óheppilega í tíma á mig, og leiða til drukknunartilfinningar á köflum.

Þetta líður svo allt saman hjá. Við eigum jú að reyna leggja okkar af mörkum og vera nothæf, og þá sérstaklega fyrir ungviðið okkar.

Svona leið mér oft í námi. Ég valdi í efstu bekkjum grunnskóla að fara í það sem þá var kallað hraðferð, í öllum fögum sem hægt að velja um slíkt. Þetta þýddi meira heimanám, þyngri skyndipróf og meira lesefni. Þetta olli álagi. Vanlíðan á köflum, því samviskubitið herjaði á mig. 

Ég valdi þann framhaldsskóla sem ég taldi vera erfiðastan, sem á þeim tíma var Menntaskólinn í Reykjavík, og fór þar á þær námsleiðir sem voru taldar erfiðastar. Þetta olli miklu álagi.

Ég fór svo aðeins rólegar í háskólann, og valdi þar verkfræði. Það var af ýmsum ástæðum, en útilokunaraðferðin kom sterk inn. Námsálagið þar var á köflum alveg kæfandi, og margar nætur fóru í að klára skilaverkefni og læra fyrir próf.

Ég les því með bros á vör eftirfarandi orð borgarstjóra, læknisfræðimenntaður vel á minnst og því með svipaðan námsferil að baki og ég þar til kom að háskóla:

Sagði hann [Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri] að nauðsyn­legt væri að skoða hvernig hægt best væri að nýta þess­ar niður­stöður til úr­bóta. Við yrðum að setja okk­ur mark­mið að ná ár­angri í PISA þó ýms­ir aðrir mæli­kv­arðar væru mik­il­væg­ir líka eins og líðan barna í skól­um sem væri al­mennt góð hér á landi.

Þarna er maður sem lærði í skóla að lesa sér til gagns og notagildis, lærði undirstöður reiknings, lærði að tileinka sér erfitt nám og klára það. Þarna er maður sem naut góðs af álagi í náminu og eftirfylgni með því. Hann fór í skyndipróf og lokapróf og tókst að standa sig vel í þeim af því hann tók nám sitt alvarlega og naut stuðnings til að sinna því, og auðvitað aðhalds líka. 

Núna er verið að þynna allt þetta út í að líðan barna í skólum sé góð og að það eigi að vega upp á móti því að börnin séu ekki að læra neitt. Er líðanin svona góð því börnin hafa ekkert að gera og geta spilað tölvuleiki í símanum? Eða af því kennarinn er að hanga í sínum síma og vonar að krakkarnir séu að tileinka sér námsefni úr skjá spjaldtölvu eða ferðatölvu, sem þau eru svo bara alls ekki að gera? 

Áherslan á vellíðan er kannski ágæt í sjálfu sér en hún er greinilega farin að bitna á ábyrgðartilfinningu, samviskusemi og hreinlega námi í skólum eins og það leggur sig.

Þá finnst mér mögulega við hæfi að stinga upp á því að reyna minnka aðeins þessa vellíðan í skóla og láta börnunum líða illa stöku sinnum. Svo þau geti einn daginn kannski orðið að læknisfræðimenntuðum borgarstjórum.


mbl.is Tillögu vegna PISA vísað til skóla- og frístundaráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spurning hvernig fólk kemst framhjá miklu álagi án þess verða fyrir verulegum andlegum skaða eða andlegu " gjaldþroti "

Lækning fyrir slíku andlegu " gjaldþroti " gæti verið endur innræting eða endur " prógrömmun " 

Þeir sem þýðast ekki slíka meðferð eru hreinlega ekki í góðum málum.

L (IP-tala skráð) 13.12.2023 kl. 03:13

2 Smámynd: Geir Ágústsson

L,

Það er held ég engin leið að skilja á milli líkamlegs álags, sem byggir um vöðva og eykur þol í lungum og hjarta, og andlegs álags, sem byggir um heila og hugsun.

Mér skilst að hvort sé iðkað í dag, a.m.k. í Reykjavík. En má til með að endurbirta litla hvatningu frá kunningja mínum:

Á okkar tímum er um of einblínt á veikleika nemenda og skólar í huga sumra ráðamanna umfram allt félagsmálastofnanir og nemendur greindir með alls kyns misskýra kvilla og jafnvel svo að hinn meinti kvilli fer að móta sjálfsmynd nemandans í stað þess að hann rækti hæfileika sína. Sumir ganga svo langt að kalla þetta aumingjavæðingu. Að sama skapi hefur kennarinn verið felldur af stalli. 

Ég hygg að viðmælandi Le Figaro sem ég vísaði til hér að framan eigi kollgátuna þegar hann getur þess að færa þurfi kennaranum á ný það agavald sem hann áður hafði. Kennari á að hafa sömu stöðu og þjálfari íþróttaliðs; góður kennari þarf að vera verkstjóri par excellence sem setur nemendum háleit markmið um að komast í fremstu röð. Skólarnir þurfa að tileinka sér hugsjónir íþróttahreyfingarinnar — þar sem hinn eldforni lærdómsandi lifir enn sem betur fer. 

Styð!

Geir Ágústsson, 13.12.2023 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband