Auglýst eftir opinberum skoðunum íþróttamanna

Margir trúa ekki að í Rússlandi ríki raunverulegt lýðræði. Að þar sé skoðanakúgun. Að Pútín ráði þar því sem hann vill. Að kosningar séu ekki frjálsar.

Gott og vel, það má færa rök fyrir þessu.

En oft segir sama fólk að það þurfi að banna íbúum Rússlands að gera hitt og þetta - stunda viðskipti, keppa á íþróttamótum, ferðast. Svona rétt eins og þetta fólk sé einhvern veginn fulltrúar rússneskra yfirvalda og beri ábyrgð á aðgerðum þeirra.

Það er ekki hægt að halda báðu fram: Að íbúar í Rússlandi ráði engu um aðgerðir yfirvalda og um leið beri ábyrgð á þeim aðgerðum og þurfi að þjást fyrir það.

Núna verða rússneskir íþróttamenn bráðum yfirheyrðir um skoðanir þeirra á aðgerðum rússneskra yfirvalda í Úkraínu - innrásinni sem engan endi virðist ætla að taka en fer vonandi bráðum að verða grundvöllur friðarviðræðna. Byggt á niðurstöðu slíkrar yfirheyrslu verður ákveðið hvort viðkomandi íþróttamenn megi að fá að hlaupa, kasta hlutum, hoppa yfir eitthvað eða synda í keppni við aðra íþróttamenn. 

Gott og vel, en af hverju að einskorða sig við skoðanir íþróttamanna á átökum í Úkraínu?

Hvað með skoðanir þeirra á innrás Bandaríkjanna í hin ýmsu ríki? 

Hvað með skoðanir þeirra á meðferð Kínverja á minnihlutahópum?

Hvað með stuðning íslenskra yfirvalda (eða þeirrar ákvörðunar þeirra að hafa ekki beitt neitunarvaldi) við innrásina sem leiddi til tortímingar á Líbýu sem ríki um árabil? Aðgerð sem snérist líklega fyrst og fremst um að varðveita stöðu Bandaríkjadollars í heimsviðskiptum með olíu.

Hvaða aðrar skoðanir hafa áhrif á það hvort íþróttamenn megi sparka í bolta eða hoppa og sveifla sér, í keppni við aðra íþróttamenn?

Er skoðun óbreyttra borgara á tilteknum aðgerðum rússneskra yfirvalda það eina sem verður notað til grundvallar á skráningu í keppnismót?

Kannski það sýni svolítið hvar forgangur okkar liggur. Hann liggur ekki í að stuðla að friði, leysa deilur, varðveita samfélag manna og hjálpa bágstöddum. 

Hann liggur í að klappa fyrir utanríkis- og peningamálastefnu Bandaríkjanna, og ekkert annað. Því miður.


mbl.is Rússar fá að keppa á Ólympíuleikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Tvískinnungur leynist víða. Það er eins og margt fólk viti ekki muninn á því að segja: já eða nei, eða að skilgreina á milli þess sem er rétt eða rangt.

Eiga rússneskir íþróttamenn að gjalda fyrir ákvarðanir rússneskra stjórnvalda? Í raun ætti þá að leggja niður alla íþróttaiðkun.

Tómas Ibsen Halldórsson, 9.12.2023 kl. 20:08

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Tómas,

Þetta er einmitt með ólíkindum, og þá sérstaklega að þetta sé eina spurningin sem á að spyrja íþróttafólkið. Þó mætti kannski segja að í Úkraínu eru hermenn að drepa hermenn á meðan yfirvöld víða eru að stúta óbreyttum borgurum, og má hérna nefna Ísrael sem nýlegt dæmi sem við heyrum um, og Saudi-Arabíu sem annað dæmi en sem við heyrum ekkert um.

Geir Ágústsson, 10.12.2023 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband