Fimmtudagur, 7. desember 2023
Pisa-partý
Enn og aftur eru niðurstöður Pisa-könnunar gerðar opinberar, og enn bætist í þær takmarkanir sem leggjast á þær og notagildi þeirra.
Enn og aftur sýna þær minnkandi lesskilning stráka og stelpna.
Enn og aftur koma þær fólki á óvart.
Ég átti fyrir ekki löngu síðan í samskiptum við íslenskukennara af gamla skólanum: Sá sem setur fyrir erfitt heimanám, leggur fyrir erfið verkefni og gerir miklar kröfur. Hann fær ekki að kenna lengur, svo því sé haldið til haga.
Hann talaði um X-grafið, þar sem einkunnir leita upp á við en Pisa-niðurstöður leita niður á við.
Hann minntist á foreldra sem hringja bálreiðir og kvarta yfir öllu heimanáminu.
Hann taldi að efnilegir nemendur fái ekki lengur áskoranir við hæfi.
Allt ætti þetta að blasa við foreldrum. Þeir skilja ekki hvernig sæmilegt einkunnaspjaldið er ekki að skila sér í lesskilningi og því að geta gefið til baka í kassastarfi. Þeir skilja ekki að þeirra símtöl til kennara og kvartanir vegna heimanámsins bitnar á menntun barnanna.
Þeir halda að það sé allt í hinu fínasta lagi þar til Pisa-könnunin kemur eða þar til kemur í ljós að framhaldsskólar sem setja kröfur hleypa ekki barninu þeirra inn.
Hrakandi gæði menntunar er vissulega vandamál en um leið manngert vandamál vælandi foreldra, kennara af nýja skólanum sem trúa ekki á mikla vinnu og erfið verkefni og sanngjarna einkunnagjöf og auðvitað skólastjórnenda sem eru hættir að bera ábyrgð.
Ég legg til að foreldrar skipti um gír núna: Kvarti yfir skorti á heimanámi, heimti að einkunnir endurspegli frammistöðu og að kennarar fái ekki símtölin nema þeir taki of létt á krökkunum.
Sjáum þá til hvað Pisa-partýið 2025 skilar okkur. Án þess að auka opinber útgjöld í hítina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hjartanlega sammála, efnilegir nemendur fá ekki efni við hæfi. Við leitum svo mikið í meðalmennskuna að kraftar kennara og starfsmanna skóla fer í að ná slökum nemendum upp. Það er fókus íslenska skólakerfisins. Hinir blæða.
Helga Dögg Sverrisdóttir, 8.12.2023 kl. 11:32
Fyrir mörgum áratugum las ég grein um lesskilning
man að eitt orðið sem tekið var sem dæmi var frumskógur - jungle
Hvað er frumskógur?
Spurningin er ef til vill enn áhugaverðari að leggja fyrir börn sem bjuggu hér á þessari eldfjallaeyju fyrir tíma sjónvarps. Þá hefðu strákarnir sennilega skorað mun hærra en stelpurnar því Skuggi, Tarzan og doktor Livingston þekktu flestir strákar á mínu reki og höfðu jafnvel séð bíómyndir með þeim.
Lesskilningur á orði er ekki eitthvað sem bara birtist við fyrstu sýn á þeirri röðun bókstafanna
Grímur Kjartansson, 9.12.2023 kl. 09:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.