Klámkjafturinn á fjölmiðlum

Það vantar ekki tilfinningaklámið í fjölmiðlum þessa dagana, og sérstaklega í fyrirsögnunum:

Edda Björk vistuð í alræmdu fangelsi: „Þetta er strangara en við eigum að venjast“ (mannlif.is)

Edda Björk vistuð í öryggisfangelsi í Noregi (ruv.is)

Edda Björk fær hryðjuverkameðferðina í Noregi – Lokuð inni í sama fangelsi og Breivik og má aðeins hringja eitt símtal á viku (dv.is)

Ótrúlegt en satt virðist visir.is halda sig á jörðinni. Það gerir mbl.is líka.

Undir öllum þessum æðisgengnu fyrirsögnum kemur fram að vissulega sé fangelsið það sama og Breivik sat í á sínum tíma, en nú sé búið að breyta því í kvennafangelsi. Rétt fyrirsögn er því:

Kona vistuð í kvennafangelsi.

Ekki flókið, en greinilega samt. Vonum bara að kvennafangelsið sé samt án kvára. Slíkt hefur endað illa.

Á Íslandi er að því er ég veit bara einn blaðamaður sem hefur nennt að kafa aðeins ofan í mál barnaræningjans og það er Frosti Logason í þáttum sínum Harmageddon á Brotkast. Hann hefur meðal annars rætt við norska blaðamenn og rýnt í dómsúrskurðina sem liggja að baki því að Edda fékk mjög skerta umgengni (því hún hafði áður neitað að virða umgengnissamninga, t.d. með því að láta lækni setja að ástæðulausu gifs á fót barns til að koma í veg fyrir að það gæti ferðast), undir eftirliti þar sem samskipti áttu að fara fram á norsku (því það hafði sannast að hún eitraði mjög föður barnanna í huga barnanna og því haft eftirlit með samskiptum hennar), og svona mætti lengi telja. Ekki mín orð, en ég trúi þeim nógu vel til að endurtaka þau.

Er þá hægt að treysta blaðamönnum til að fjalla hér með heiðarlegum hætti um flókið mál með langan aðdraganda? Auðvitað ekki. Tilfinningaklámið er mun söluvænlegra. Sumir telja það hreinlega vera ómögulegt að kona geti rænt börnum sem hún fæddi, og þýðir þá lítið að tala um lög og reglu og réttarríkið og úrskurði og samninga og rétt barna til að umgangast föður og þess háttar. Blaðamenn vita þetta kannski og leggja ekki í dýpri nálgun á viðfangsefninu. 

Ekki frekar en í svo mörgum öðrum málum þar sem sjálfstæðir blaðamenn hafa þurft að vinna vinnuna.

Annars er hugur minn allur hjá börnunum sem núna eru á vergangi eins og undanfarin tvö ár, sennilega skemmd til lífstíðar. Það má vel vera að þau elski mömmu sína, jafnvel meira en pabba sinn, en það var mamman sem varpaði sprengjunum - ítrekað og yfir mörg ár - og börnin eru rústirnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband