Laugardagur, 2. desember 2023
Meðlagsfangelsið
Þegar leiðir foreldra skiljast tekur við allskonar ferli. Eigi þeir sameiginlegt húsnæði þarf að losna við það eða breyta eignarhaldinu. Eigi þeir gæludýr þarf að ráðstafa þeim. Verðmætum þarf að skipta og þar fram eftir götunum.
Og svo þarf auðvitað að huga að börnunum. Hvenær eiga þau að njóta nærveru móður og hvenær eiga þau að njóta nærveru föður?
Í löggjöfinni er mikil áhersla lög á hagsmuni barna þegar foreldrar skilja. Þau eiga rétt á að umgangast bæði foreldri. Skiljanlega, því stórar og litlar rannsóknir, íslenskar og erlendar, komast mjög skýrt og skilmerkilega að þeirri niðurstöðu að sé umgengni jöfn og regluleg þá vegnar skilnaðarbörnum jafnvel og börnum innan kjarnafjölskyldu á meðan börn með ójafna umgengni, og börn algjörlega án annars foreldris, vegnar mun verr.
Allskyns embætti eru til þess fallin að tryggja að lögum um vernd barna sé framfylgt. Lagatextinn virðist vera laus við fordóma gagnvart feðrum og leggja áherslu á börnin. Allt er gott, á pappír.
En þá tekur framkvæmdin við.
Hún sést best í tölunum. Og ekki bara tölum um hlutfall skilnaðarbarna með lögheimili hjá móður annars vegar og föður hins vegar, eða í tölum um fjárhag einstæðra foreldra þar sem mæðurnar virðast lifa í vellystingum miðað við meðalsgreiðandi feðurna. Nei, framkvæmdin sést líka í tölum um sjálfsvíg, þar sem einstæðir feður taka óþægilega mikið pláss.
(Öll þessi gögn eru til en ég get því miður ekki vísað á þau í bili. Verið er að vinna í einhvers konar birtingu.)
Það þýðir ekkert að ræða þetta. Ég reyndi það nýlega. Samskiptin voru vingjarnleg og yfirveguð en alltaf þurfti að lauma inn svolitlum setningum til að verja framkvæmd kerfisins á föðursviptingu barna:
Honum ber engin skylda að borga frístundir og námskeið.
En bíddu nú við, þá meinar mamman barninu að hitta pabba sinn, og afleiðingar slíkrar tálmunar engar, svo af hverju ekki að senda reikningana á pabbann?
Flestir fara offörum yfir því að hitt foreldrið þurfi að borga meðlag. Það vill nú svo til að það foreldri sem er mest á barnavaktinni getur síður tekið aukavinnu, aukavaktir - það þarf að skutla, sækja, sjá um læknisþjónustu, kaupa afmælisgjafir nú fyrir utan að halda heimili fyrir börnin.
En sú þvæla. Þegar leiðir foreldra skiljast þá fá báðir öll þau verkefni sem fylgja rekstri heimilis. Að gera annað foreldrið gjaldþrota, og ókleift að bjóða upp á sómasamlega aðstöðu fyrir börn sín, er ekki gott kerfi. Af hverju geta foreldrar ekki bara skipst á að taka þessar aukavaktir, þegar börnin eru hjá hinu? Nei, betra að mjólka annað foreldrið til dauða til að tryggja hinu stutta vinnudaga, allar vikur.
Mæður borga líka meðlög veistu.
Einmitt. Núll komma hvað prósent?
Langflestar konur vilja hafa föðurinn í lífi barnanna sinna að því gefnu að allt sé í lagi. Það virkilega léttir öllum lífið.
En hvað ef konan er í ólagi? Alltaf að kaupa aðkeyptan mat fyrir nýjasta kreditkortið? Alltaf á vergangi? Af hverju er konan hérna í dómarasæti að úrskurða hvort það sé í lagi með manninn sem hún valdi til undaneldis? Og af hverju tekur kerfið, í framkvæmd en ekki hönnun, þátt í slíkum hlutverkaleik? Kerfið gerir það, svo því sé haldið til haga.
Það er ekki skrýtið að rannsóknir hafi komist að þeirri niðurstöðu að kerfið sé miklu frekar hannað, eða í framkvæmd þannig, að áherslan sé á hag mæðra frekar en hag barna.
Ef hagur barna væri hafður að leiðarljósi þá ætti skilnaður að fela sjálfkrafa í sér jafna umgengni, tvöfalt lögheimili barna og engar meðlagsgreiðslur. Í einhverjum öfgatilvikum, þegar fátæklingurinn giftist milljarðamæringi, ætti að hvetja til samninga um einhvers konar stuðning þess ríka til þess fátæka svo börnin fari ekki úr hreysi i höll og svo aftur í hreysi. En annars á fullorðið fólk bara að geta staðið á eigin fótum, og með eigin skuldbindingum, og virt rétt barna til að umgangast bæði foreldri til jafns.
Að þessu sögðu má velta því fyrir sér hvort meðlagskerfið eigi að vera í huga þegar ungt fólk er að hittast á stefnumótum. Á sá sem er að sækja sér raunverulega menntun eða þjálfun sem felur í sér góðar líkur á verðmætaskapandi vinnu að leggja í barneignir með þessum hugmyndaríka en síblanka listamanni eða félagsfræðingi sem á varla fyrir saltinu í grautinn? Eru ekki meiri líkur en minni á að sambandið fjari á einhverjum tímapunkti út, og að einhver börn séu þá komin í heiminn þegar það gerist? Mun það ekki þýða að kerfið mun hirða allt af þeim sem þénar meira, og alveg örugglega ef sá aðili er faðirinn?
Jafnréttisparadísin á sér kannski skuggahliðar, en enginn segir neitt, því núna hallar á rétt kyn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.