Íslensku orkuskiptin: Úr hreinu rafmagni í olíu

Ég er mikill aðdáandi vel heppnaðs háðs. Alveg rosalega gott dæmi um vel heppnað háð er skoðanapistill Viðskiptablaðsins Hugrakkir ríkisstarfsmenn takast á við flugsamviskubitið. Mig langar helst af öllu að endurbirta hann í heild sinni en læt staðar numið við texta sem fékk mig til að skella uppúr:

Orkustofnun sendir að sjálfsögðu fulltrúa á ráðstefnuna. Þeir verða þrír. Fastlega má gera ráð fyrir að Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri muni eiga annríkt á fundum með öðrum ráðstefnugestum þar sem fjallað verður um orkuskiptin á Íslandi – það er segja skiptin úr rafmagni yfir olíu.

Þetta eru engar ýkjur. Við fiskimjölsverksmiðjurnar standa núna dauðar fjárfestingar í formi tengivirkja því engin er raforkan. Búið er að rúlla gömlu Dísil-vélunum úr geymslu og sem betur fer héldu menn í olíutankana sína. Orkuskiptin úr hreinu, innlendu rafmagni í erlenda olíu eru föst í sessi um ókomna tíð.

Ef það tekst að táldraga fleiri Íslendinga í kaup á rafmagnsbílum (án tvinnvélar) mun ástandið ekki batna. Nokkur þúsund hælisleitendur á ári þurfa líka sitt rafmagn. Öll snjalltækin okkar eru líka orkufrek þegar þau leggjast á eitt. Fyrsta spjaldtölvan birtist sífellt fyrr í lífi barna. Og svona mætti lengi telja.

En hvað segja spekingarnir þegar á þá er gengið?

Þeir segja okkur bara að vera duglegri að spara! Slökkva ljósið þegar herbergið er yfirgefið og fleira slíkt. Eða bíða eftir vindmyllunum.

Nú má ekki túlka orð mín sem svo að ég hafi eitthvað á móti olíu. Þvert á móti. Mér þætti skynsamlegast að sérhver byggð hefði yfir að ráða varaflstöð og svolitlum olíutanki. Líf án orku er óbærilegt. Eins þykir mér vera glapræði að taka bílinn af venjulegu fólki með því að gera bílinn sjálfan og eldsneytið óbærilega dýrt. 

En að yfirvöld stæðu óbeint að baki því að gera dýrar fjárfestingar í rafmagnsnotkun, sem valkost við olíuna, að dauðum fjárfestingum - því bjóst ég ekki við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband